SiggiSiggiBangBang

Ástin sigrar

Dec
31

Ég hef ekki ástundað það í bloggheimum að þræða aðrar bloggsíður, girða þar niður um mig og kukka. Ég beinlínis forðast moggabloggið, því ég verð dapur í hjarta mínu af að lesa sumt af því gubbi sem gengur upp úr samlöndum mínum. Ég á þó nokkra félaga á moggablogginu sem ég les.

Í gærkvöldi mátti ég hafa mig allan við. Mér var bent á að Sóley Tómasdóttir væri mjög upptekin af klámi og þar sem ég er mikill áhugamaður um transcontinental hommaklám gerði ég dauðaleit á síðunni hennar, en uppskar ekki árangur sem erfiði.

Finnst ég var staddur í svínastíunni, lá leið mín á forsíðu blog.is þar sem glæsilegustu bloggurunum er raðað upp eftir geðþótta netdeildar mbl.is. Efstur þar var maður sem setur að mér ugg. Hann er um þessar mundir í ævintýraferð í framandi landi og skrifar ferðasögur. Það næsta sem ég veit, er ég að skrifa í athugasemdakerfið hjá honum: “Ekki koma aftur til Íslands.” Það kemur á mig og ég geri mér grein fyrir að það er eitthvað við bloggkerfi morgunblaðsins sem gerir það að verkum að ég glopra niður umburðarlyndi og kærleik.

Í heilar fimmtán mínútur átti ég Jihad við sjálfan mig. Hinn hatursfulli Sigurður, sem leggur fæð á allt og alla vildi að ég þrýsti á “Bæta við athugasemd,” meðan umburðarlyndur kærleiksfullur Sigurður, sem allt elskar og kveður með kossi, vildi breyta rétt og biðja fyrir umræddum.

Eins og svo oft áður sigraði kærleikurinn, sem gerir mér unnt að halda áfram að vera hjartahreinn og velviljaður í heimi sem aðeins ástin getur bjargað.