SiggiSiggiBangBang

Kata Strófía

Jan
21

Stundum leiðist mér svo ægilega að vera vakandi og veit ég þá fátt betra en að kveikja upp í rafmagnsundirbreiðslunni minni fínu og fallegu og sofa svolítið. Svefninn er óumdeilanlega það dásamlegasta sem ég tek mér fyrir hendur í þessari asnalegu jarðvist, enda hef ég öðlast sérstaka færni í að sofa.

Eftir vel lukkaðan blund, vakna ég til lífsins þegar barið er að dyrum hjá mér. Fyrir utan stendur gömul vinkona mín Kata Strófía. Komdu sæl, segi ég við hana Kötu mína.
Sæll sjálfur, segir Kata, má ég koma inn eða ertu að vonast til að ég frjósi í hel hérna úti. Ó mig auman, fyrirgefðu mér ókurteisina, segi ég og býð henni inn.

Ég hita vatn og gef Kötu minni Strófíu, detox te af fínustu sort.
Mmmmmm, hljóðar í Kötu, þetta er held ég besta tei sem ég hef smakkað á allri minni ævi.
Þú ert ekkert dramatísk Kata, segi ég og brosi með fallega brosinu mínu.
Kata brosir. Mikið ósköp er hún sæt.

En því ber þig að garði, spyr ég, þó að ég sé kannski ekki svo viss um að mig langi til að vita hversvegna Kata tekur á mér hús .
Kata sýpur á teinu. Jú Sigurður, samkvæmt jöfnunni V+(G-g) x TN _____________ M x FN , er í dag versti dagur ársins og þar sem ég var í hverfinu, ákvað ég að koma við hjá þér og sjá hvort ég gæti ekki gert þér lífið leitt.
Já, en falleg hugsun, segi ég, það er mikið hvað þú ert hugulsöm.
Já, mér finnst vera hálfgerð lognmolla í þínu lífi, segir hún og ber greinilega enga virðingu fyrir heilögu tilfinningalífi mínu. Nú, finnst þér það, segi ég fullur undrunar, og mér sem finnst ég alltaf vera á barmi taugaáfalls.
Þú ert nú einungis á barmi taugaáfalls, vegna þess að þú eyðir meiri tíma í þínum eigin hugarheimi, en í að takast á við raunverulega hluti. Ég sýni Kötu minni Strófíu samkynhneigða transcontinental móðgunarsvipinn minn, sem ég lærði þegar ég horfði á þættina Glöggt er hommans augað.
Hvað ef þú fengir hjartaáfall í dag? spyr Kata, ungir menn eins og þú geta alveg fengið hjartaáfall, hvað myndir þú þá gera? Hugsa þig út úr því?

Ég reyni að leyna Kötu, það uppnám sem ég er kominn í, því ég veit að uppnám er aðeins vatn á myllu hennar. Þú verður að taka áhættu í lífinu Sigurður, segir Kata af miklum þunga, þú veist nefnilega aldrei hvernig fer.
Kata stendur upp og áður en ég veit af er hún farin. Farin niður í Ráðhús, þar sem hún er búin að mæla sér mót við mann sem hefur ofmetnast. Síminn minn hringir, á hinum endanum er maður í mikilli geðshræringu: Ég fæ engan póst, getur verið að internetið sé niðri? spyr hann.