SiggiSiggiBangBang

Existensial vangaveltur um sjónvarp

Jan
22

Með tilliti til þess að pör í nýtízkusamfélagi eyða megninu af sínum tíma fyrir framan sjónvarpið, er mikilvægt að finna sér maka sem hefur svipaðan smekk og maður sjálfur. Ef að báðir aðilar koma sér saman um sjónvarpsdagskránna eru allar líkur á að sambandið verði farsælt og endist mun lengur en fólk kannski kærir sig um. Með þessu móti geta báðir aðilar viðhaldið ástinni í gegnum alveg óendanlegt magn af ógeðslegu drasli. Það kann að hljóma kalt, en þetta kallast að drepa tímann fram að þeirri stundu að maður sjálfur drepst.

Þorri mannkyns lifir sómasamlegu lífi fyrir framan sjónvarpið. Hann er ánægður og hamingjusamur, svo lengi sem hann hefur sófa til að sitja í, kartöfluflögur til að maula og klósett til að skíta í. Nú, tel ég tvö ár síðan ég henti sjónvarpstækinu mínu. Jú, vissulega horfi ég á einstaka þátt í tölvunni minni og stundum meira en ég tel mér hollt. En síðan ég hreinsaði heimili mitt af þessum ókristilega ófögnuði hef ég tekið til við að lesa miklu meira en ég hef nokkurn tímann áður gert og liggja hér orðið heilu staflarnir af bókum lesnir upp til agna.

Þegar ég átti sjónvarp, kom ég heim eftir vinnudag, eða hvað svo sem ég var að gera og kveikti á kassanum. Skipti þá ekki höfuðmáli hvaða dagskrá var í boði, heldur virtist ég finna fyrir einhverjum frið í hjartanu við að hafa logandi á því. Þegar ég áttaði mig á því, tók ég mig til, reif kassann úr sambandi og henti honum fram á gang, þar sem hann beið þangað til ég loks fleygði honum í gám.

Hefur líf mitt batnað við þetta? Góð og gild spurning. Eftir að hafa lesið allar þessar fínu bækur hef ég sjaldan verið jafn þjakaður af existensial vangaveltum. Jú, ég hef reyndar alla tíð marínerað í tilvistarkreppu, og má sjá það á eldri skrifum mínum, en þó ekki í sama mæli og undanfarin tvö ár.

Sjónvarp virðist því vera góð leið til að kúpla út allar efasemdir tengdar tilveru okkar, fyrir suð eða static hljóð, eins og heyrist í landlínusímum: Líííííííííííííííííííííííííííííííííííí. Og það liggur í hlutarins eðli, að sambönd lifa góðu lífi ef ekkert annað á sér stað í hausnum á fólki en: Líííííííííííííííííííííííííííííííííííí.

Í rassaborugat með sjónvörp!