SiggiSiggiBangBang

Alla kennir til, einstaka sinnum

Jan
23

Fyrir nokkrum mánuðum síðan var ég afskaplega hryggur í mínu hjarta. Ég var staddur á pósthúsi niður í bæ að leysa út enn eina bókina um existensial málefni, með sérstaka áherslu á existensial. Og þarna stóð ég, flakandi sár á tveimur löppum. Blóð sálar minnar lak í poll á gólfið og ég var þess viss að ekki liði á löngu þangað til aðrir pósthúsgestir veittu því athygli hversu ægilega sorgmæddur ég var. Aldrei áður hafði jafn sorgarfullur maður átt viðskipti í þessu pósthúsi. Óóóóó, grét ég innan í mér.

En svo fór ég að hugsa með sjálfum mér, að líklega hefðu allir, sem þarna voru samankomnir upplifað aðra eins sorg, kannski ekki í sama mæli og ég, enda minn kross alltaf umtalsvert þyngri en annarra. En þrátt fyrir allt sem á daga þeirra hafði drifið, var þetta fólk að sinna sínu, rétt eins og þau hefðu ekki gert neitt annað en að bíta í plómur og flauta Chim Chim Cher-ee alla sína ævi. Ég fór að skoða hvern og einn og ímynda mér þær aðstæður, þegar sorgin sótti þá heim. Þegar þessi með hattinn missti einhvern sem honum þótti vænt um. Þegar ungu konunni í rauðu kápunni var hafnað af ástvini. Þegar maðurinn með ljótu hárkolluna var stunginn í bakið af vinum sínum. Og eftir að hafa sett alla viðskiptavini pósthússins í gegnum safaríkt sorgarferli, var ég orðinn hinn hressasti. Mér fannst þau öll svo ægilega falleg, að mig langaði til að taka þau í fang mér og hugga.

Kveikjan að þessari færslu var myndbandið við lagið Everybody Hurts Sometimes. Ég hef reyndar aldrei verið sérstakur R.E.M aðdáandi, en frá mínum bæjardyrum séð er þetta tónlistarmyndband það allra besta sem búið hefur verið til. Snerti það ekki taug í áhorfandanum tel ég fullvíst að sá er um ræðir sé viðurstyggilegur viðbjóður af ljótustu sort. Já, þannig er það bara, þetta er ekki einu sinni efni í rökdeilur.

[media id=103 width=520 height=390]