SiggiSiggiBangBang

Aspartame

Mar
31

aspartame.pngÉg kom heim í eftirmiðdaginn og lagði mig. Þegar ég hafði fest svefn, dreymdi mig draum þar sem ég átti í töluverðum útistöðum við mann, sem ég hef lítið hugsað um undanfarið.
Þegar ég vaknaði var ég harðákveðinn í að gera mér sérstaka ferð til að pissa á leiðið hjá honum og fleirum sem ég á sökótt við. – Það ætti að verða leikur einn, þar sem ég er nokkuð viss um að ég lifi flest samtíðarfólk mitt. Þessi viðbrögð mín komu mér hinsvegar á óvart, því inn að beini er ég mjög kærleiksrík og hlý persóna, sem tamið hefur sér kristileg gildi og fussar yfir fátæku siðferði meðbræðra sinna. Hvaðan kemur öll þessi illska, spurði ég sjálfan mig, alveg hissa.

Eins og oft, þegar ég skil ekki neitt í hátterni mínu, reyni ég að fara yfir það sem ég hef borðað síðustu daga, því skýringar og hinum og þessum dyntum í skapgerð minni – er oft að finna í hrjóstugu matarræði mínu. Og viti menn, það rann upp fyrir mér ljós, sem rennir enn frekari stoðum undir þær kenningar mínar að Aspartame er eitur fyrir líkama og sál.

Í síðustu viku, snæddi ég hádegisverð upp í Akademíu. Í góðri trú, ákvað ég að kaupa mér ósykurskertan Fanta drykk með matnum. Þar sem ég sat við borðið með fyrirfólki og át matinn, sem mig minnir að hafi verið kínarúllur með hrísgrjónum, víkur talið að kristilegu ungliðastarfi. Eitthvað sagði ég sem fór fyrir brjóstið á sessunaut mínum, svo til að fela hversu skömmustulegur ég varð, fór ég að lesa á Fanta dósina og komst að því mér til mikillar hrellingar, að þó svo ég hefði keypt sykrað Fanta, var þar samt sem áður að finna rotvarnarefni sem innihélt Aspartame. En eins og áður hefur komið fram í pistlum mínum, fyllist ég mannfyrirlitningu og hatri á bræðrum mínum og systrum, þegar ég hef innbyrgt þetta baneitraða íbætiefni.

Ég verð samt að viðurkenna að mér finnst góð hugmynd að míga á leiði þeirra sem ég ber kala til.