SiggiSiggiBangBang

Hinn arabíski shuk

Apr
12


Fátt er eins sárgrætilegt og þegar gullin tækifæri ganga manni úr greipum. Ég persónulega hef orðið af glæsilegum viðskiptatækifærum, vegna heimskulegra hugsjóna.

Fyrir um tíu árum síðan var ég staddur á arabíska markaðnum í Jerúsalem með fyrrum ástmey minni. Arabíski markaðurinn er fullur af allskonar helvítis skrani og skrauti, sem heillar glysgjarna túrhesta. Þar er hægt að gera góð kaup, ef maður er harður í horn að taka, og kann listina að prútta. Ég man ekki nákvæmlega hvað við vorum að skoða hjá einum kaupmanninum, hvort það voru teppi, eða 20 lítra vatnspípur – en við erum ekki búin að standa þarna lengi, þegar kaupmaðurinn gerir mér tilboð sem ástsjúkur fábjáni getur ekki annað en hafnað. “Þrír gæðaúlfaldar fyrir vinkonu þína” segir tannleysan og brosir ofurblítt. Ég trúi ekki mínum eigin eyrum og bið hann um að endurtaka tilboð sitt. Hann gerir það og ég og ástmey mín getum ekki annað en hlegið, þó svo kaupmanninum sé fúlasta alvara.

Árin liðu og þessi unga stúlka, sem ég hélt að ég myndi elska og vera með þangað til ég hrykki upp af – fór veg allrar veraldar og ég sat einn eftir með tárin í augunum. Þórkatla köttur, er stórfínn, ekki misskilja mig, en ef ég ætti þrjá eða fleiri úlfalda, þá væri gaman að vera til.

Svona er þetta oft í lífinu.