Helvíti SiggaSiggaBangBang
Ég fór að hugsa um eftirlífið og hvernig er umhorfs í mínu eigin persónulega helvíti.
Ef til er helvíti, þá er helvíti í mínum huga að vera fastur allsgáður inn á Kaffi Reykjavík með blindfullu fólki syngjandi ættjarðarsöngva. Til að refsa mér fyrir jarðvistina þyrfti ég að láta sem ég væri hress, þrátt fyrir að vera illa þjakaður af tilvistarkreppu og blýþungu lundarfari. Önnur hugmynd mín um helvíti er að vera dæmdur til að ganga á milli myndlistasýninga í 101 Reykjavík, þar sem ég þyrfti að eiga yfirborðsleg menningarleg samskipti í þeim tilgangi að öðlast virðingu þeirra sem þykir fínt að ganga í augun á, þá stundina. Ef ég svo gæti ekki verið nógu hress eða menningarlegur þá væri ég sendur aftur niður á jörðina til að lifa sama lífið aftur – nákvæmlega eins.