Myndin af Dorian Gray
Foreldrar mínir höfðu fyrir reglu að skipa mér fram á gang, þegar þeim grunaði að eitthvað hræðilegt ætti eftir að gerast í bíómynd kvöldsins. Man ég tildæmis eftir að hafa fengið að húka við lokaðar dyr þegar George neyddist til að drepa Lenny í Músum og mönnum. Sömuleiðis varð ég af atriðinu þar sem Gloria þiggur kúlu í hausinn úr byssu kærasta síns í myndinni They shoot horses don’t they.
En eitthvað hafa mamma og pabbi verið ókunnug niðurlagi sögunnar um örlög hins sjálfsupptekna Dorian Gray. Samt er eins og mig minnir að systir mín hafi verið passa mig kvöldið sem þessi mynd var sýnd? Hvernig sem stendur á því að þessi mynd slapp í gegnum harðgert kvikmyndaeftirlit Löngubrekkunnar, gefur hér að líta myndbrotið sem kostaði barnæsku mína óteljandi andvökunætur. Þegar ég svo horfði á þetta atriði aftur fyrir nokkrum dögum, fór um mig hrollur; ég efa þó að nokkur krakki myndi kippa sér upp við þetta núna.