SiggiSiggiBangBang

Villiöndin

May
17


Ég hef fengið ákúrur á mig fyrir að skrifa full fjálglega um dauðann. Ég fæ ekki skilið hvers vegna fólk er svona ægilega feimið við dauðann. Þið vitið að þetta endar aðeins á einn veg? Er það ekki annars?

En þar sem lesendum mínum þykir dauðinn niðurdrepandi viðfangsefni, hef ég ákveðið að skrifa lítillega um lífslygina sem heldur flestum okkar gangandi. Ég heyrði fyrst minnst á lífslygina í leikriti Henrik Ibsen: Villiöndinni. Ég kann þeim sem kynnti þetta verk fyrir mér – engar þakkir fyrir. Ég tek þó fram að ég hugsa til viðkomandi með kærleik í hjartanu.

* SPOILERS * SPOILERS * SPOILERS * SPOILERS * SPOILERS * SPOILERS *

Villiöndin er saga um Hjálmar, sem er afskaplega aumkunarverður maður. Hann lifir í þeirri lygi að hann sé faðir dóttur sinnar, að hann sé fyrsti maðurinn í lífi konu sinnar, og að hann sjálfur sé hársbreidd frá því að finna upp tækni sem gerir honum kleift að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Allt sem hann lifir fyrir er ekki raunverulegt – en hann veit það ekki. Hann er hamingjusamur. Elskar dóttur sína og konu, og vinnur ötullega að uppfinningu sinni af barnslegum ákafa. Allt er þetta gott og blessað, þangað til hugsjónamaður, sem tengist fortíð eiginkonu hans, ákveður að Hjálmar verði að fá heyra sannleikann, svo hann geti lifað restinni af sínu lífi frjáls eins og fuglinn. Í leikritinu reynast mestu lífsspekingarnir vera sífullir fyllikallar, sem reyna hvað þeir geta til að koma í veg fyrir að hugsjónamaðurinn eyðileggi líf Hjálmars með sannleikanum. Þeir benda honum á að Hjálmar lifi hamingjuríku lífi vegna þess að hann hafi skapað sjálfum sér svo fallega lífslygi og það væri ómanneskjulegt að tortíma hamingju hans með vægðarlausum sannleikanum. En eins og oft er með hugsjónamenn, þá er til aðeins ein rétt leið, þó allt mæli gegn því að hún sé farin. Leikritið endar svo í mikilli skelfingu, enda skrifað fyrir þarsíðustu aldamót í hinu guðsvolaða Noregi.

Öll þurfum við á lífslygi að halda til að halda okkur gangandi. Án lífslyginnar værum við ekkert. Við værum ekki vörubílsstjórar í baráttu við kerfið, handhafar sannleikans, bókasafnsfræðingar, moggabloggarar, eða hvað svo sem við notum til að skilgreina okkur.

Foreldrahlutverkið, virðist mér þó vera ekta.

Á morgun skrifa ég svo meira um eftirlætið mitt: dauðann.