Draumahús
Af þremur húsum, þá hefur mig líklega oftast dreymt húsið á myndinni. Í þessu húsi sem stendur ennþá við Löngubrekku, ólst ég upp. Það er þó ekki svona glæsilegt í dag og garðurinn ber þess merki að engum hefur þótt vænt um hann í heila eilífð, en pabbi var mikill áhugamaður um garðrækt, og við systkinin því alin upp í blómahafi. Myndin er tekin nokkrum árum fyrir minn tíma. Sannkölluð white picket fence paradís.
Annað hús sem mig dreymdi oft, en dreymir sjaldan núorðið, var spölkorn frá þessu og stóð við Nýbýlaveg. Við krakkarnir kölluðum það rauða húsið. Í því bjó ákaflega yndisleg eldri kona, sem ég tók ástfóstri við sem krakki og hélt til hjá, þar til ég eltist og varð miskunnarlausum unglingnum að bráð. Um daginn heimsótti ég, í fyrsta skipti, leiðið hennar upp í Fossvogskirkjugarði. Hún var mikill aðdáandi Stjörnustríðsmyndanna og ég var búinn að lofa henni, að ef hún dæi áður en sú þriðja kæmi, þá skyldi ég gera mér ferð upp í kirkjugarð og segja henni í stuttu máli út á hvað hún gengi. Þess þurfti ég þó ekki, því hún gat notið hennar bæði í kvikmyndahúsi og svo seinna heima í stofu. Blessunin hún Ásta mín, mikið var hún góð kona.
Þriðja húsið sem mig dreymir reglulega, stóð við Hlíðarveg. Það stendur þar reyndar ennþá, og minnir að einhverju leyti á húsið sem ég bjó í, en ég efa að nokkuð sé eftir af gamla efniviðnum. Í draumunum um það hús, stend ég alltaf í einhverjum framkvæmdum; heilu og hálfu næturnar fara í að byggja húsið og bæta. Í Kabbalah er neikvætt að dreyma endurtekið hús sem maður hefur bundist tilfinningaböndum. Það merkir að maður sé ekki búinn að sleppa tökum á fortíðinni og sakni þess að hlutirnir hafi ekki þróast í aðra átt. Það er nú einhver sannleikur í því.