SiggiSiggiBangBang

Sagan um Bíbí Ólafsdóttur

Jun
08

Sagan um Bíbí Ólafsdóttur er dásamleg bók, sem vakið hefur mig til umhugsunar um eigið lífshlaup. Fortíðarþráin bullar og sýður innan í mér. Ekki bara gerist bókin að hluta til í bæjarfélaginu sem ég ólst upp í, heldur fyrirhittir Bíbí konu sem ég hafði þónokkur kynni af þegar ég var unglingur – Margréti Blöndal.

Margrét hafði, að mér fannst, mjög einkennilegar hugmyndir um tilveruna og taldi, einhverra hluta vegna, að ég væri góður kandídat í hugmyndafræði, sem ég hélt á þeim tíma að væri hennar eigin uppspuni. Ég man vel eftir mér, þar sem ég sat glórulítill á mjög þröngri skrifstofu, andspænis Margréti og konu sem var full af ástríðu gagnvart því sem þarna var rætt. En ég skildi ekki neitt. Hún hefði alveg eins getað setið þarna og talað sanskrít.
Þegar ég hugsa tilbaka, þá vildi ég óska þess að ég hefði skilið hana betur, en ég hafði aldrei leitt hugann að neinu í líkingu við það sem hún bar á borð fyrir mig. Heimurinn í mínum huga var svart hvítur. Fólk var annaðhvort vont eða gott, og oftast vont.

Seinna kom upp atvik sem gerði það að verkum að ég varð Margréti afhuga. Ég var of ungur til að skilja hvað var að gerast, aðeins 16 ára gamall, en ég veit núna og hef vitað nokkuð lengi að Margrét var snillingur.

Næsta bók sem ég les til að auðga anda minn heitir: Áður en ég dey. Hún er einnig skrifuð af konu, um konu.

Aldrei myndi ég nenna að lesa bók um einhvern karlkyns þrákálf, sem þykist vita allt og geta allt. Þær eru til í tonnavís. Einhverjir gamlir karlsköklar, sem lögðu allan sinn metnað í að ráðskast með fólk og prumpa. Ef ég hefði áhuga á slíku, héldi ég til á moggablogginu. Undantekningin er að sjálfsögðu Þórbergur, en Sálmurinn um blómið, er einn sá almesti vísidómur sem ég hef lesið.