Íslenskar fréttaveitur
Til að vernda brothætt sálarlíf mitt íhuga ég enn og aftur að hætta að fylgjast með íslenskum fjölmiðlum. Fréttir, sem gætu átt eitthvað erindi til okkar, eru oft mjög brenglaðar. Vinnufélagi minn sem hefur dálæti á að fara í kvöldgöngu með hundinn sinn, fann í Öskjuhlíðinni kassa af skotfærum úr seinni heimstyrjöldinni. Hann hafði samband við lögreglu og tilkynnti fundinn. Hvaða fréttavefur var fyrstur til að skrifa um þetta, man ég ekki, en þegar fréttin hafði flakkað á milli miðla var þessi samviskusami fjölskyldumaður, sem ég þekki ekki af neinu nema góðu, orðinn að ótýndum umrenningi og róna sem hélt til í Öskjuhlíðinni. Enginn fréttamiðill hér á landi getur státað sig af heilindum í fréttaflutningi og er það sorglegt. Svo ekki sé á minnst alla vitleysuna sem skiptir engu máli og eykur ekkert á lífsgæði okkar. Í morgun las ég frétt á dv.is þess efnis að Aron Pálmi hefði sótt um vinnu í Álverinu. Afhverju er þetta fréttnæmt? Getur einhver upplýst mig um það? Hver þarf á öllu þessu kjaftæði að halda?