Til upprifjunar fyrir þá sem eru áhugasamir um hvað málið snýst, þá hef ég ákveðið að eyða, þennan mánuðinn, einungis 25 þúsund krónum í nauðsynjavörur, svo sem mat, drykk, hreinlætisvörur, út að borða með íslendingum og einum mexíkana, kaffiþamb á kaffihúsum osfrv. Þess ber að geta að ég er einn í heimili, eftir að kötturinn sem ég hélt í gíslingu stakk mig af og skildi mig einan eftir grátandi.
Þegar hér er komið við sögu, er mér ljóst að með uppteknum hætti lifi ég ekki mánuðinn af. Heilir þrír dagar hafa liðið og mér hefir tekist að eyða 2890.-. Þó hef ég ekki enn gert matarinnkaup hjá feitu feðgunum, enda sé ég ekki betur en birgðir endist fram á föstudag.
Á sunnudaginn lyfti ég mér á kreik og gerði það sem hvaða gagnkynhneigður, söngleikjaelskandi, karlmaður myndi gera. Ég fór á kvikmyndahús til að sjá algjört möst allra tíma í sinnemaskóp og tæknilitum: Beðmál í borginni. Ég tel ekki menningarlegan kostnað með, heldur einungis nauðsynjavöru, sem var í þessari bíóferð, popp og kóka kóla með sékri. Þar fóru strax 600 krónur. Og þar sem ég er svo meðvitaður um eyðslu, þá kostaði 1000 krónur að sjá Carrie Bradshaw máta alla nýju fínu skóna.
Eftir bíóhúsið fór ég í 10/11 í Lágmúla, og festi fé í poka af barnagulrótum til að narta í, þegar offituárinn setur af stað Jihad í hausnum á mér, einnig keypti ég Sítrónu Mentól Eukalyptus hálsbrjóstsykur, en ég er háður þessari tegund af brjóstsékri. Jú, mér er fullkunnugt um yfirlýsingar um majones- og sékur bindindi, ég get bara ekki hætt í þessum brjóstsékri – ég dey. Þar eyddi ég líka peningum í menningu og keypti bókina Sagan af Bíbí Ólafsdóttur, sem er ægilega spennandi. Hún kostaði 2000.-, en dregst ekki af 25 þúsund krónunum. Þarna strax á fyrsta degi er ég búinn að eyða 1000.-. Á öðrum degi mánaðarins, sat ég á Hressingarskálanum og drakk einn tvöfaldan kaffi latte, sem kostaði mig 370.-. Í dag fór ég fram úr sjálfum mér og snæddi í hádeginu með vinum mínum úr akademíunni. Ég fékk mér afleita súpu og kóka kóla í flösku, og fyrir þetta borgaði ég 800.-. Síðar um kvöldið fór ég á kaffihús og drakk einn kaffi latte og eina malt. Það kostaði mig 720.-
Eftir standa 22.110.-.
Ég heiti því hér með, að þegar ég á minna en 5000.- eftir – kaupi ég inn núðlur af ódýrustu sort til að lifa restina af mánuðinum af.