Kominn í höfn
Langskemmtilegast finnst mér að lesa tímaritagreinar um fólk sem einu sinni var ömurlegt, en hefur undið sínu kvæði í kross og er orðið framúrskarandi. Það gefur mér von um að ég geti gert slíkt sama. Greinarnar eru afar innspírandi, oftast um einhvern sem hefur átt í meiriháttar erfiðleikum, tildæmis verið hrikalega feitur, og misst ósköpin öll af kílóum með hjálp nýstárlegs megrunarkúrs. Eða einhver sem var ægilega feitur og fór í spinning, og er núna mjór og eftirsóknarverður. Svo eru vinsælar greinar um fólk sem var einu sinni ljótt, en hefur með hjálp nýrra aðferða, fríkkað heilan helling. Og ekki má gleyma þeim sem átu heilu fjöllin af allskyns lituðum pillum, en eru hættir því og farnir að trúa á Jesú Krist.
Ég verð þó að segja að mér þykir mun fýsilegra að bryðja pillur, heldur en að elska Jesú Krist, sem sennilega var aldrei til – og ef valið stæði á milli þess að lifa í blekkingu pilluáts og að ljúga sjálfan mig uppfullan af Jesú, þá tæki ég pillurnar fram yfir.
Rétt er að taka það fram að ég þarf ekki að sækja í neinn félagsskap til að mega hafa þessi viðhorf!
En greinarnar eru gefandi, sérstaklega fyrir mann eins og mig sem leitast eftir að skilja betur þessa súru tilveru. Og það er svo einkennilegt, að tilvera mín verða einungis súrari eftir því sem árin verða fleiri. Er ég þó alltaf allsgáður, hugsandi fallegar hugsanir, bakandi spelt brauð og lesandi uppbyggilegar bækur.
Fólkið, sem er alveg hætt að vera ömurlegt, en er þess í stað orðið frábært, fá auðtrúa hrekkleysing eins og mig til halda að það sé raunverulega hægt að komast í höfn í þessu lífi. Að ég geti fetað í fótspor þeirra sem, hafa fattað lífið og uppskorið hamingju sem endist, þangað til í mér hryglir. Það eina sem ég þarf að gera er að missa 50 kíló, finna góða konu, fara í kynskiptaaðgerð, sprauta í mig Botox, klæðast réttu fötunum, taka réttu trúnna, þekkja rétta fólkið og þá þarf ég aldrei aftur að gubba í lífsins ólgusjó.
Ég á annars afmæli á næstu dögum. Mikið væri nú fallegt ef einhver gæfi mér eitt stykki Hummer – það er hægt að fá þá á svo fínu verði hef ég heyrt. Flestir þeirra sem í góssentíð Íslands sigldu í höfn/keyrðu í hlað, á þessum glæsibíl, eru að reyna að losna við þá.