Paul Thomas Anderson
Paul Thomas Anderson, er guðdómlegur snillingur. Hann á myndir eins og There Will Be Blood og Punch, Drunk, Love, sem hefur verið ein af mínum uppáhaldsmyndum, síðan ég sá hana fyrst. Hún er líka eina myndin þar sem Adam Sandler er ekki gersamlega óþolandi.
Magnolia sá ég fyrir 8 árum síðan, þegar ég var nýfarinn að tileinka mér heilnæmari lifnaðarhætti. Persónur myndarinnar, sem eru meira og minna brotnar og bugaðar, upplifa hræðilega vanlíðan og niðurlægingu. Á vendipunkti, þegar ömurleiki þeirra nær hápunkti gerir Paul Thomas Anderson svolítið óvenjulegt. Hann klippir saman senur þar sem allar persónurnar syngja saman undir Aime Mann laginu Wise Up. Þetta er svo áhrifaríkt að þegar ég horfði á þetta aftur fyrr í kvöld ætluðu tilfinningar mínar að bera mig ofurliði. Til allrar guðs lukku, varð enginn vitni að því hversu hrærður ég var, því ég veit ekkert verra en þegar fólk er til frásagnar um hversu viðkvæmt lítið blóm ég er.
Textinn í laginu hennar Amie Mann, rekur raunir manneskjunnar, þar sem hún telur sig finna farveg í lífinu, en kemst svo óhjákvæmilega að því að farvegurinn er svað, lausnin er lygi og þjáningin tekur engan enda fyrr en hún sleppir takinu og gefst upp.
Tilveran hefur aldrei verið súrari, sérstaklega eftir að ég áttaði mig á, að þó margur maðurinn tali fjálglega, veit enginn hvert í andskotanum við erum að fara eða hvað í ósköpunum við erum að gera hérna.