Sag mir, wo die blumen sind
Ég er miður mín yfir að hafa dottið í þann fúla pytt að skrifa um efnahagsmál. Ég vil ryðja færslunni hér að neðan úr vegi með hjálp Marlene Dietrich, þar sem hún syngur: Sag mir, wo die blumen sind, en margir spyrja sig einmitt þessa daganna hvað hafi orðið af öllum fallegu blómunum, sem gerðu okkur kleift að kaupa meira drasl sem við höfum engin not fyrir.
Ástandið er þó ekki alslæmt fyrir manngerðir af mínu sauðahúsi. Í góðærinu hef ég verið þjakaður af hræðilegri minnimáttarkennd yfir að eiga ekki fullt af drasli. Ég hef vart þorað að láta sjá mig á 11 ára gömlum bíl mínum af Opel gerð. Enda veit ég að bíltegundin endurspeglar hvernig manni hefur vegnað í lífinu. 1997 tegund af Opel, er ekki góð fyrir ímyndina. Það er sárgrætilegt að mæta margra milljón króna Range Rover, þegar maður sjálfur keyrir druslu. Skiptir þá einu hvort hún sé að fullu greidd. Hverjum er ekki sama um það, þegar hægt er að taka myntkörfulán.
Myntkarfa…. Hljómar eins karfa sem gaman væri að taka með sér í lautarferð.
Það er því góð tíð hjá mér og öðrum kommúnistum, sem ekki hafa tekið þátt í sukkinu. Við fyllumst ljóðrænni réttlætistilfinningu. Við trúum að hinir mögru komist af. Að maðurinn þurfi ekki allt þetta djöfulsins drasl. Að hverfa til upprunans, sé mannkyninu hollt og gott.
Það er þó illa fyrir manni komið þegar eina gleðin sem maður upplifir er þórðargleði. Ég get þó huggað mig við að enginn les færslu sem ber þýskan titil.