Nýríkir fábjánar
Eftir að íslenska þjóðin hefur umborið nýríka hrokafulla fábjána í lengri tíma sjáum við loks fyrir endann á þessum leiðindum. Útrásarárin einkenndust af mannvonsku og græðgi. Feiti kallinn varð feitari, hrokafyllri, ómanneskjulegri og gráðugri. Ekki taka því persónulega þegar ég rýji þig inn að skinni og naga magurt kjötið af beinum þínum, sagði feiti kallinn, – þetta er bara biss-ness. Og eftir því sem feiti kallinn varð feitari, því meira þurfti hann að éta til að finna fyrir seddu. Nú er svo komið að feiti kallinn er búinn að éta yfir sig.
En þessi góssentíð skilaði sér ekki í lægra matarverði, fágaðri viðskiptaháttum, eða meiri hamingju. Margir, þó ekki allir, vildu taka þátt í veisluhöldunum og fitna eins og feiti kallinn. Í þeim tilgangi eltist margur góður drengurinn við ríkidæmið með kaupum á margra milljón króna farartæki á 100% okurlánum, hundruðum fermetrum af steinsteypu sem skreytt var því dýrasta og flottasta til að ganga í augun og öðlast virðingu feita kallsins. En nú líða þessir andstyggðartímar undir lok. Það er verst hve margir saklausir þurfa að blæða fyrir gilleríið.