SiggiSiggiBangBang

Gordon Darling

Oct
11

 

Rétt á meðan ég framdi félagslegt hryðjuverk á sjálfum mér sá ég þessa fyndnu yfirlýsingu í búðarglugga á Skólavörðustíg. Ég greip í vélina mína, sem var handbær, og varðveitti augnablikið.

Eftirfarandi gerðist:

Í dag var ég staddur á Skólavörðustíg eftir langan göngutúr suður með sjó. Ég staðnæmdist til að taka ljósmynd af einkar fyndinni yfirlýsingu sem fest hafði verið upp í búðarglugga. Yfirlýsinguna mátti skilja sem svo að í ljósi lúalegrar framkomu breskra stjórnvalda í garð íslendinga, væru bretar ekki velkomnir sem viðskiptavinir í þessa búð.

Fyrir utan búðina hitti ég mann sem ég er málkunnugur. Hann var með konu sem mér hefur alltaf fundist ægilega sæt. Hún er með tígulegt nef af þeirri sort sem ég hef alltaf verið sérstaklega veikur fyrir. Eftir að hafa spjallað lítillega við þau, fannst mér orðið tímabært að skíta félagslega í brækurnar mínar. Stúlkan, sem ég hef aldrei átt við orðaskipti og er sem fyrr segir ægilega aðlaðandi, spyr mig hvort ég og maður, sem hún nefnir með nafni, – séum ekki vinir. Ég, sem var á þessari stundu orðinn örlítið taugaveiklaður, misskildi ungu stúlkuna hræðilega og hélt að hún væri að spyrja mig út í allt annan mann, en sá maður er í mínum huga viðurstyggilegur viðbjóður.

Hvað gerðist í höfðinu á mér, skil ég ekki, og freistast því til að leita skýringa á þessum hræðilegu mistökum. Það fyrsta sem mér kemur til hugar er að ég hafi ruglast vegna þess að mennirnir tveir eru með sama föðurnafn, en það eitt og sér er ekki nógu góð ástæða. En þar sem annar þeirra ber sama eigin- og föðurnafn ásamt millinafni hins, er mögulega komin skýring á ruglingnum. Við bætist að aðeins ofar á Skólavörðustíg, hafði ég gengið framhjá húsi þessa manns sem ég ber kala til og hugsað eitthvað í líkingu við: Já, þarna býr hann #$&%/&(&(%!#, ég hef ekki kynnst meiri drullusokk.

Eftir að hafa úthúðað manninum við þetta almennilega fólk, kvaddi ég og hélt ásamt góðum vin, sem var með mér í för, á Mokka kaffi. Þar uppgötvaði ég, mér til mikillar skelfingar hvað ég hafði gert. Ég hafði farið ófögrum orðum um mann sem ég elska og virði. Miður mín í andlegu uppnámi settist ég niður með kókóbolla, gróf upp símanúmer og bætti fyrir skelfileg mistökin.

Á morgun ætla ég ekki út fyrir hússins dyr.