Akureyri! Haltu hestum þínum innan girðingar: Hér ég kem!
Eitt og annað hef ég bitið í mig að gera ekki. Ég var búinn að sverja við nokkrar grafir að fara aldrei til Akureyrar. En fyrir sakir félagslegs þrýstings, fellur í valinn ein af þessum síðustu kreddum sem mér fannst gera mig að manni. Um 10 í fyrramálið, sest ég upp í rútu með ágætis fólki, tek mér söngbók í hönd og syng mig sem leið liggur norður. Í mér er örlítill beygur, íblandaður eftirvæntingu. Ég hef heyrt ægilega hluti um Akureyringa. Flosi Ólafsson orti á sínum tíma, óhroða um Akureyri, sem hann sagði vera ósköp krúttlegt bæjarfélag, alveg þangað til að þorpsbúar vöknuðu til lífsins. Það eru lítil meðmæli með Akureyringum. Annað kvöld fer ég svo með þessu fína fólki í leikhús til að sjá, ég man ekki hvað, eftir ég man ekki hvern. Svo endar þetta með fylleríi geri ég ráð fyrir, þar sem einhver gerir eitthvað sem hann þarf að skammast sín fyrir það sem eftir lifir árs. En það verður ekki ég, enda undirritaður í sjálfskipaðri stúku.