Lacrimosa
Og til að létta stemninguna á vef þessum, eftir skrif um málefni í þyngri kantinum, geri ég hér aðgengilega myndbandsupptöku, sem ég tók ófrjálsri hendi af þúskjá, þar sem Maria Pia Molinari sópransöngkona syngur Lacrimosa úr sálumessu Preisner: Sálumessa fyrir vin.
Lacrimosa, er að finna, eftir því sem ég best veit, í öllum sálumessum. Lacrimosa, þýðir grátur, eða syrgjandi.
Ég hef undanfarna mánuði lagt mig niður við Preisner og hlustað á nánast allt sem hann hefur samið. Ég hélt í fyrstu að hann hefði einungis samið tónlist fyrir kvikmyndir, en komst að því að hann á líka sjálfstæð verk, eins og Requiem for a friend.
Að mínu mati eru Sanctus og Lacrimosa, bestu lögin í þessu verki. Flutningur Maríu er ákaflega fallegur, og finnst mér hann jafnvel betri en á plötunni. Hljómgæðin eru þó ekki upp á marga fiska, og má heyra hljóðið rifna tvisvar, eða þrisvar. Lagið byggist upp fram yfir aðra mínútu, en þá ætlar allt um koll að keyra. Fegurðin er guðdómleg, ef menn eru þannig þenkjandi, og ekki laust við að ég verði örlítið ölvaður af því að hlusta á þetta.
Ef einhver getur bent mér á tuttugustu, eða tuttugustu og fyrstu aldar höfunda, sem svipar til Preisner, yrði ég viðkomandi ægilega þakklátur.