SiggiSiggiBangBang

Endurtekningar

Feb
10

Mér hafa borist aðfinnslur í vælukenndum kvörtunartón um að ég sé farinn að endurtaka mig. Það þykir mér ekki skrítið, þar sem sömu illfyglin tísta inn í hausnum á mér frá ári til árs. Einhver lagði til að ég færi að lifa lífinu. Hvernig geri ég það? Verður ekki hver og einn að leggja sína eigin merkingu í hvað felur í sér að lifa lífinu? Eða er mér uppálagt að fylgja einhverjum reglusettum um hvernig lífi skal lifað? Einhver sem leggur til að einhver annar lifi lífinu, hlýtur með því að vera að segja að hann sjálfur lifi lífinu, og þeir sem lifi lífinu ekki á sama hátt, séu ekki að lifa lífinu.

Nokkrir málaflokkar koma ítrekað fyrir í ritmáli mínu. Þar ber fyrst að nefna samskipti. Ég velti samskiptum mikið fyrir mér þar sem mér finnst ég sjálfur félagslegt slys. Ég veit ekki hvernig ég á að haga mér í samskiptum við annað fólk, hvað ég á að segja, hvenær mér er óhætt að heilsa fólki sem ég er málkunnugur, osfrv. Ég er svo hræðilegur í samskiptum, að ég stundum tel betur heima setið, en af stað farið. Þess vegna eru samskipti mér mjög hugleikin.

Neðri byggðir er annað sem ég skrifa oft um. Kynbræður mínir bregðast ókvæða við þegar ég skrifa um menn, sem ganga þessa jörð í þeim tilgangi einum að brúka á sér kynfærin. Þeim finnst að ég ætti að hætta þessu kjaftablaðri og fá mér að ríða, líkt og menn fá sér að borða. Þetta get ég ómögulega skilið. Afhverju þarf ég þess? Hvernig er þessu hrint í framkvæmd? Fyrir alla muni. Liggið ekki á þessum upplýsingum eins og ormur á gulli.

Alveg frá því að ég man eftir mér hefur Dauðinn verið eitt af mínum stærstu áhugamálum. Mörgum finnst áhugi minn vera merki um óheilbrigði af verstu sort, en því get ég ekki verið sammála. Það er þegar ég gleymi því að ég er dauðlegur, sem líf mitt tekur að brenglast. Ég á ekki langt að sækja þennan áhuga minn, því pabbi hefur alla tíð rætt við mig teprulaust um dauðann. Hann nálgast nú áttrætt og er hinn sprækasti. Fyrir einhverjum árum, þóttist hann viss um að dauðinn nálgaðist. Hann útbjó því segulband, með tilmælum um hvernig málum skyldi háttað þegar hann væri allur. Inngangurinn hljómaði eitthvað á þessa leið: “Jæja, þá er ég að öllum líkindum dauður…”

Hann pabbi minn er fyrirtaksmaður.