SiggiSiggiBangBang

Bjartur svartur og frelsi

Feb
12

Ég færi á allar myndlistaropnanir hér í borg, ef ekki væru 99% líkur á því að hitta sama fólkið á þeim öllum. Að hitta endurtekið sama fólkið við sömu kringumstæður er þreytandi fylgifiskur þess að búa á fangaeyjunni. Ég tala nú ekki um ef haldið er til í einu svæðisnúmeri.

“Jæja, bara verið að skoða málverk?” gæti einhver spurt mig, og klappað mér kumpánlega á bakið. Þó frekar ólíklegt, þar sem stemningin á myndlistarsýningum er ekki alveg sú hin sama og á líkamsræktarstöðvum. Sennilegra væri að einhver segði eitthvað hnyttið og kaldhæðnislegt, því á myndlistarsýningum eru allir svo ægilega meðvitaðir um kómedíuna í tilgangsleysi lífsins.

Frelsi er orð sem kemur óneitanlega upp í hugann.

Frelsi er að syngja óperu, meðan maður gengur sperringslega niður Laugaveginn. Óperusöngvarinn sem mætti mér að morgni dags á Laugaveginum fyrir nokkrum árum, getur örugglega ekki gert sér í hugarlund hversu mikil áhrif hann hafði á mig með söng sínum. Frelsi! hugsaði ég. Hann hikaði þó um stund þegar hann sá mig nálgast, og íhugaði hvort hann ætti að láta undan illfyglunum og hætta að syngja. En hann sniðgekk allar innri bollaleggingar og hélt áfram:

Daß, wo brünstig sein Gebet
Einzig um Erlösung fleht,
Da der Engel niederschwebt,
Und es sanft gen Himmel hebt.

Frelsi er ekki að sturta í sig brennivíni, skakklappast svo niður Laugaveg, syngjandi Óle Óle Óle Ó lei.