Skan
Til að fá útrás fyrir þau íþyngjandi leiðindi sem fylgja því að vera íslendingur þetta misserið, ætla ég að þusa um yfirlæti í munn- og skriflegum samskiptum.
Er það beinlínis skylda mín að nefna fyrst af öllu ömurlega styttingu á einu af mínum eftirlætisorðum. Orðskræmið er “skan” og er eins og marga grunar, stytting á orðinu “elskan” sem er eitt af hjartnæmari og fallegri orðum í okkar pissvolga móðurmáli. Elskan, er orð sem ég sjálfur nota einungis á tyllidögum þegar ég vil ávarpa kynþokkafullan aðila af gagnstæðu kyni sem ég ber eldheitar og lostafullar tilfinningar til. Að hefja eða enda mál sitt með orðinu skan, eða elskan, gengisfellir merkingu orðsins, og orðið hættir að vera brúklegt til að kunngjöra einhverjum ást sína. Sem betur fer hefur engum íslenskuníðingi hugkvæmst að taka orð eins og ástin(sbr. ástin mín) og stytta það í tin, eða stin.
Og pirringnum er síður en svo lokið.
Ekkert virkjar manndrápseðlið í mér eins mikið og þegar einhver, sem mér er ekkert sérstaklega vel við, eða er mér ekki mikið annað en málkunnugur, kallar mig vinur. Ég man eftir hræðilega leiðinlegum manni sem ég átti í samskiptum við vinnu minnar vegna, en hann hafði þann háttinn á, sama hversu þurrkuntuleg samskipti okkar voru, að kalla mig vinur. Ég er enginn vinur þinn! hugsaði ég, meðan ég óskaði honum langleiðina til helvítis. “Já, alveg sjálfsagt” svaraði ég mjúklega.
Vinur, eða kútur. Hvort um sig er jafn ógeðslegt. Að kalla einhvern vin, sem maður er ekki vinveittur er yfirlætisfullt og viðurstyggilegt. Einhver kann í einfeldni sinni að halda að viðkomandi væri að reyna að vingast við mann, en sú er ekki raunin.
Til eru fleiri orð sem gera mig arfavitlausan. Fátt veit ég eins hryllilegt og þegar ég er titlaður meistari. Ég er ekki að mér vitandi neinn meistari, þannig að ef einhver ávarpar mig með þessari nafngift, geri ég að sjálfsögðu ráð fyrir að sá hinn sami sé að gera grín að mér. Að kalla einhvern meistara, sem ekki hefur lokið meistaraprófi, er móðgun sem enginn ætti að taka óstinnt upp.
Kútur, krúsídúlla, kappi, tappi, eru allt ömurleg orð, sem notuð eru af fólki sem fyrir einhvern hræðilegan misskilning heldur að allir þurfi að vera eins hressir og Simmi og Jói, annars sé það úr leik.
Ég? Ég er annars bara hress!