SiggiSiggiBangBang

Blómum skreyttar hugsanir um kreppuklám

Feb
25

Nú hefur einhver, með umfram starfsemi í heilanum sínum, plantað fallegu litlu samviskublómi í hjörtum þegna þessa lands. Nýtt skammaryrði hefur verið fabríkerað: KREPPUKLÁM. Hver sá er verður uppvís að kreppuklámi, er talaður niður með uppbyggjandi tilmælum. “Vertu jákvæður!”, “Vertu bjartsýnn!”, “Þetta verður allt í lagi!” eða kannski bara: “Þetta reddast!”

Það grípur mig löngun að tileinka mér samhug landa minna sem rembast við að hugsa fallegar hugsanir skreyttar blómum og krúsídúllum í öllum regnbogans litum. Svo fallega þenkjandi er ég orðinn að fengi ég einhverju um það ráðið yrði lögð inn pöntun á tankskipi fullu af vellyktandi sem hægt væri að nota til að vinna á skítafýlunni sem liggur eins og slikja yfir landinu. Grunar mig þó að það skipti engu hversu mörgum tonnum af ilmvatni væri sprautað yfir mykjuhauginn, stækjan blandaðist bara ilminum og úr yrði alveg ný og fersk lykt: la la la la træ træ læ, allt er í lagi, eigum við ekki bara að gleyma þessu – lyktin.

Hva, ég? Ég er ekkert nema sól og sumar. Ég er já-ið í jákvæðni. Ég er svo hress að ég hef lítið annað gert en að þamba ógeðsdrykki síðan ég lauk vinnudegi. Ég er einmitt að vonast til að ég gubbi bráðum. Ekkert er eins fyndið og skemmtilegt og þegar ég gubba. Allt er svo fyndið og skemmtilegt. Lífið á Íslandi er eitt risastórt dansiball. Undirspilið er taktur sem hljómar eitthvað á þessa leið: Davíð Odds, búmm, Davíð Odds, búmm, Davíð Odds, búmm. Það þarf engum að leiðast. En bara fyrir alla muni, ekki hafa orð á því hversu dapurlegt þetta allt er – það skemmir stemninguna.