Við höldum okkur til á bannsvæðunum

Fyrir fólk sem fær sér að ríða, líkt og það fær sér að kúka, eða borða, skiptir máli að sækja réttu staðina. Sumir fara á AA fundi, aðrir fara í hugleiðslu hjá guðspekifjelaginu, og enn aðrir fara með hungruð þvagfærin sín á líkamsræktarstöðvar.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki stórkarlalegur í þessum málum, þannig að ég legg vel við hlustir þegar útriðið fólk eys úr skálum visku sinnar. Ég hef verið svo lukkulegur í gegnum þau ár sem ég hef kastast til og frá á þessari jörð, líkt og kúla í kúluspili, að fá að kynnast mönnum sem kunna til verka þar sem tveir, eða fleiri einstaklingar bera á sér kynfærin. Einn þeirra vann með mér hjá virðulegri stofnun hér í borg. Hann var löðrandi í kynþokka. Testósterónið draup af honum. Ég gat ekki annað en öfundað hann fyrir allar kellingarnar sem hann tantra jógaði; fékk hann því nafngiftina: ríðingarmaðurinn. Í öllum sínum samskiptum við hið gagnstæða kyn, reyndi hann á einhverjum tímapunkti að taka út á sér dindilinn. Stundum féll dindillinn á honum í grýttan jarðveg, en oft var honum boðið inn fyrir í te og bakkelsi. Hvað um það. Ég er kominn langt út fyrir efnivið þessa pistils.

Ég er nýbyrjaður að hlaupa aftur, og gengur vel. Ég hleyp annan hvorn dag u.þ.b 6 kílómetra, án þess að finna fyrir slæmsku. Einu sinni fyrir langa löngu, fór ég í líkamsrækt niður í Laugar. Ég hef alltaf verið með hræðilegar áhyggjur af holdafari mínu. Greypað í heilann minn er sú hugsun að ef ég er yfir kjörþyngd, þá geti enginn elskað mig. Skrítinn þessi heili. Þannig að ég hef reynt eftir fremsta megni að halda mér undir kjörþyngd, sem hefur gengið svipað og hjá Opruh minni Winfrey.

Laugar er ógeðslegur staður. Þar er vond fýla. Leiðinlegast þótti mér að hitta þar einhvern sem ég þekkti. Á líkamsræktarstöðvum liggur í loftinu sú yfirþyrmandi krafa að þú verðir að vera ógeðslega hress á því. Ekkert er mér jafn óeðlislægt og að vera hress. Ef ég neyðist til að leika mig hressan, morknar eitthvað í sálinni minni. En vegna þess að ég er svo fallega upp alinn, og mér er svo umhugað um tilfinningar meðbræðra minna, fann ég mig tilneyddan til að eiga þar einhver samskipti. Oft var ég spurður: Jæja, er bara verið að taka á því? Öhhhhhh..

Þrátt fyrir viðbjóð minn, var ég mjög duglegur og öll ástundum til mikillar fyrirmyndar. Ég hafði ekki með í ráðum einkaþjálfara, eins og þótti smart að gera, til að ná hámarksárangri. Allir hér á Íslandi eru alltaf að reyna að ná hámarksárangri í öllum andskotanum. Ég fór ekki niður í Laugar til að efla félagsleg tengsl mín. Ég var ekki að leita mér að eldheitri gellu. Ég var þarna staddur til að vinna á aukakílóum sem komu í veg fyrir að ég er elskaður.

Einu sinni sem oftar var ég að gera svokallaðar uppréttur á uppréttubekk. Ég gerði 300 uppréttur daglega, enda fátt eftirsóknaverðara í lífinu en stinnir magavöðvar. Þarna voru tveir uppréttubekkir hlið við hlið. Á hinn bekkinn settist kona, litlu eldri en ég. Hún var tígrisdýramynstruðum teygjubuxum. “Við verðum að hætta að hittast svona!” kraumaði í henni. “Öhhhhh, ehhhh, öhhhhh” svaraði ég karlmannlega meðan ég hamaðist á bekknum. Samskiptin urðu ekki meiri.

Í eitt og hálft ár sótti ég Laugar, en hætti því og ákvað að ég fara aldrei aftur inn fyrir dyrnar á svona stað. Ég hef verið hlaupari síðan, með hléum vegna meiðsla.

Á næstu dögum skrifa ég um fleiri ákjósanlega staði til pörunar, og hinar og þessar aðferðir sem mér hafa verið kenndar af svokölluðum ríðurum.

Haltu kjafti! Grillveislunni er lokið!

“Haldið þið djöfulsins kjaftinum á ykkur saman!” heyri ég reiðilega rödd hrópa inn í hausnum á mér þegar ég les bölvað pípið sem Sjálfstæðismenn láta hafa eftir sér í fjölmiðlum. Eruð þið ekki búnir að grilla nóg? Helvítis grillveislurnar ykkar hafa lagt landið mitt í rúst! Það sjúka samfélag sem þið bjugguð til á þeim árum sem þið sátuð við stjórnvölinn, hefur valdið heiðvirtum borgurum leiðindum af áður óþekktri stærðargráðu; sumum hryllilegum þjáningum, og dettur mér þá fyrst í hug maðurinn sem tók sitt eigið líf vegna þess að hann eygði ekki von í skuldafeninu sem hann og fjölskylda hans voru að drukkna í. Grillveislunni er lokið, og sjáið ykkur því sóma í að halda kjafti. Þið eruð búnir að grilla nóg.

Svo biðst ég afsökunar á blótsyrðum, yfirleitt er ég mjög kristilegur í orðavali.