SiggiSiggiBangBang

Morkinn af andleysi

Apr
09

Hryllilegt andleysi hefur tekið sér bólfestu í sálu minni. Eina sem mér dettur í hug að skrifa um er dauði og öldrun. Á morgun verður krossfestingu Jesú Krists Jósefssonar fagnað með pompi og prakti. Eða þannig. Einu sinni mátti ekki svo mikið sem prumpa á þessum degi hann var svo hátíðlegur. Ég held að Jesú Kristur hafi bara aldrei verið til, hvað þá að hann hafi verið festur á kross á þessum degi. Sagnfræðingar eru ekki einu sinni vissir um að Ingólfur Arnarsson hafi verið til, og hann á að vera 900 árum nýrri en Jesú.

Ég trúi þessu bara ekki. Í mínum huga eru trúarbrögð einn mesti viðbjóður sem manninum hefur dottið í hug. Allar þessar hugmyndir og ritjúalar, boð og bönn eru fabríkeruð af einhverjum karlaumingjum sem vildu kúga meðbræður sína, sérstaklega ef þeir voru konur. En ótti mannsins er öllu yfirsterkari. Farir þú ekki eftir “lögmálum Guðs” þá ertu dæmdur til að búa í brennandi útgáfu af Breiðholti, þar sem spiluð eru Windows kerfishljóð í gjallarhornum á götu úti allan sólarhringinn.

Ég er ekki þó hluti af hjörð trúleysingja. Ég man ekki til þess að hafa passað inn í neina hjörð af einu né neinu. Ég gæti ekki einu sinni farið út að hlaupa með hlaupahóp. Ef ég mæti hlaupahóp, þá finnst mér hann hallærislegur. Nei, ég gæti aldrei hlaupið í hóp. Ég vil njóta einverunnar. Einveran er aldrei eins tær og falleg og einmitt á hlaupum. Enginn sími með í för. Ekkert áreiti. Að hlaupa og halda uppi samræðum er hræðileg tilhugsun.

Jæja, úr andleysi yfir í Jesú og trúarbrögð, og þaðan yfir í hjarðlifnað og hlaup. Nokkuð gott fyrir mann morkinn af andleysi.