David Lynch kemur til Íslands
[media id=210 width=520 height=390]
David Lynch, er væntanlegur til Íslands í næstu viku til að halda fyrirlestur um Transcendental Meditation. Hvenær nákvæmlega veit ég ekki. Mér er sagt að hann verði hér aðeins í einn dag, svo það eru litlar líkur á að hann eyði tíma sínum í að hella sig fullan á Rex með einhverjum eins og Eli Roth, enda það kannski ekki alveg hans stíll. David Lynch er mikill hofmaður og þegar hann vill gera sér glaðan dag, fær hann sér mjólkurhristing. Ég legg því til, að þeir sem sjá um að flytja hann inn, fari með hann vestur í bæ, eða á Grensásveginn og kaupi handa honum sjeik.
Ég hef séð nokkra fyrirlestra á internetinu fína með honum og snillingnum Dr. John Hagelin, um hugleiðslu og heimsfrið og eru þeir ákaflega hvetjandi hvort sem að maður er áhugamaður um David Lynch, eða ekki. Pabbi minn, maður nær áttræðu, horfði á einn slíkan, haldinn í Maharishi University og fékk strax brennandi áhuga á að prufa hugleiðslu.
Ég hef sjálfur stundað eitthvað í líkingu við TM, síðan um áramótin. Gallinn við þessa tegund hugleiðslu, er sá að það kostar svo andskoti mikið að læra hana. Enginn hérlendis kennir TM, þannig að sá sem hefur áhuga, þarf að fljúga út, annaðhvort til Englands eða Ameríku. Svo þarf viðkomandi að kaupa sér viku með þar til gerðum TM kennara, sem er rándýr. Ég trúi ekki að þessi tækni sem þeir kenna, sé eitthvað merkilegri en þær einföldu aðferðir sem ég hef lært frítt á project meditation. Ég ætla lítið að tjá mig um virkni hugleiðslu á sálarlíf mitt, eða tilveru, en ég get þó sagt eftirfarandi: Ég ætla aldrei að hætta þessu!
David Lynch er og hefur verið átrúnaðargoð mitt til fjölda ára. Ég er dauðhræddur um að ég froðufelli, eða pissi í buxurnar þegar ég sé hann. Ég man bara ekki eftir að hafa haldið upp á neinn listamann jafn hressilega og hann, nema kannski Limahl þegar ég var unglingur.