21
[media id=216 width=520 height=436]
Í dásamlegri fortíðarþrá, hef ég á liðnum dögum gruflað í gömlum myndböndum. Í bútnum hér að ofan, sem tekin er um sumarið 1991, er ég einungis 21 árs gamall. Ég er staddur í kaffi og sígó að Hlíðarvegi 1, í Kópavoginum. Í bakgrunni má heyra Steina Bjarna(Þorsteinn Óttar Bjarnason), tala við einhvern í síma; ég giska á Hörð Júlíusson, eða Stein Skaptason, en ég er samt ekki viss um að Steinn hafi átt síma þegar þetta var, þar sem hann var fráhverfur nútímatækni. Í klippunni er ég hærðari en mexíkóskur flagari á fengitíma, en fáeinum árum síðar rakaði ég í fyrsta skipti hárið alveg af mér, og hefur það ekki fengið að vaxa af neinu ráði síðan. Ekki hefði hvarflað að mér að ég ætti eftir að gera heiminum þessa klippu aðgengilega 18 árum síðar.