SiggiSiggiBangBang

Tómas Sigurpáll Jónsson – minning um mann

Jun
20

Hér er minning um mann.

Tómas Sigurpáll Jónsson var vinur minn. Hrjúfur stórgerður karl, með gullslegið hjarta sem fyrir 14 árum sveik hann og neitaði að slá meir. Þetta einkennilega tæki, sem dælir rauðleitum vökva um lagnakerfi líkamans, hafði svo sem áður verið með dynti, en alltaf hrokkið í gang aftur. En ekki þennan dag árið 1995. Þeir, og á ég við þá sem fengið hafa hjartaáfall, segja að sársaukinn sé gersamlega óbærilegur, að maður óski sjálfum sér frekar dauða en að upplifa hann. En sársauki Tomma varð ekki meiri í þessu lífi og hann fékk hvíld. Hvíld frá þessari skrýtnu tilveru, sem hafði í raun aldrei gert honum nógu góð skil. Skapara himins og jarðar þótti mikill fengur í sál Tomma, enda hún glæsilega búin flottum og eftirsóknarverðum mannkostum.

Ég og Tommi kynntumst fyrir austan fjall, í húsi sérstaklega ætlað fólki sem vildi læra að hætta drekka brennivín og styrkja lyfjaiðnaðinn og erindreka hans. Við vorum látnir sitja í hópi með fólki sem átti alveg ægilega bágt, að okkur fannst. Einn maður, með nokkur námskeið að baki, stýrði hjálpargrúppunni þrátt fyrir borderline-þroskaheftu í mannlegum samskiptum. Tomma leiddist hóparnir alveg hræðilega, þannig að hann svaf þá vel flesta af sér.

Eitt sinn er Tommi svaf værum og fallegum svefni, sem ég allavega öfundaði hann af, grét kona ein yfir óförum sínum. Hún var svo hrædd, volaði hún og vældi og var alveg miður sín. Eitthvað af því sem konan grét yfir, allavega þetta með hræðsluna, hefur skilað sér yfir í draumlandið til hans Tomma, því Tommi rumskar og horfir Bambi-augum á aumingjans konuna, sem í fyrsta skipti hefur opnað á sár lífs síns. “Ertu líkhrædd?”, spyr Tommi eins varfærnislega eins og honum var unnt, þó hann hljómi meira eins og hann sé að urra á hana. Hann skilur ekki alveg hvað aumingjans konan er hrædd við. Það eina sem Tomma kemur í hug þegar talað er um ótta, er þegar hann var að vinna á Borgarspítalanum sem vaktmaður og var látinn sækja lík upp á deildir til að rúlla niður í frysti. Þá fann hann fyrir ótta. En við lifandi fólk var Tommi ekki hræddur, það var frekar að það væri hrætt við hann.

Í sveitinni voru daglega haldnir fundir. Heimilismenn söfnuðust þá saman í litlum loftlausum sal í kjallara hússins. Stólunum var raðað upp þannig að úr yrði gangvegur fyrir miðju að pontu, sem fólk var hvatt til að tala úr, um endalausa erfiðleika sína. Tommi sat alltaf í öftustu röð, þannig að hann gæti teygt úr löppunum og sofið, frekar en að hlusta á þessa bölvuðu vitleysu sem vall upp úr fólki, en honum var alveg fyrirmunað að skilja hvernig í ósköpunum það gat hjálpað einhverjum að standa frammi fyrir ógæfufólki og játa á sig allskonar ófögnuð. Ef hann svaf ekki, þá einbeitti hann sér að því að ná augnsambandi við þann sem stóð í pontunni. Þegar því var náð, lét hann efri tanngóm, sem var úr plasti, detta fram fyrir þann neðri. Ef það dugði ekki til, geiflaði hann sig enn frekar og lét góminn hálfan út um munninn. Svona hélt hann áfram að leika sér, alveg þar til viðkomandi kom ekki upp orði, heldur veltist um af hlátri og varð frá að hverfa til að skyggja á ekki á alvöruna sem fylgir fundum af þessu tagi.

Tommi var mikill öðlingur og þótti öllum sem komust inn fyrir hrjúfa skelina, ofurvænt um hann.

Á árum áður starfaði Tommi sem lögreglumaður í Reykjavík. Hann hafði því hlutverki að gegna að skjóta flækingshunda og var því alltaf með hundabyssu tiltæka. Einhvern tímann, er hann gekk sinn rúnt niður í bæ, er hann fenginn til að elta þjóf sem tekur á rás út úr búð. Tommi, mikill að vexti, byrjar að hlaupa á eftir þjófnum sem var töluvert frárri á fæti en hann. Er bilið tekur að lengjast milli Tomma og þjófsins og Tommi alveg að gefast upp á hlaupunum, tekur hann upp hundabyssuna, sem hann geymdi í belti sínu og öskrar: “Stoppaðu, eða ég skýt!” Þjófurinn lætur viðvaranir Tomma sig engu varða, og eykur hraðann. Tommi miðar þá byssunni út í loftið og hleypir af. Manngreyiinu verður svo mikið um þetta að hann kastar sér á jörðina og liggur þar skelfingu lostinn, lamaður af ótta. Eftir þetta var Tommi aldrei kallaður neitt annað en Tommi hundabyssuhvellur.

Hér eru videomyndir af Tomma, sem ég tók af honum þegar hann bauð mér í stórsteik að heimili sínu rétt hjá Rauðavatni. Ég hafði þennan dag, komið til hans með slátturorf frá Kópavogsbæ og slegið garðinn hans. Svo þakklátur var hann fyrir viðvikið að hann keypti tvo innkaupapoka fulla af kjöti og meðlæti og sló upp veislu sem er eitt rausnarlegasta borðhald sem ég hef setið. Það má sjá á þessum klippum að hann var mikill húmoristi, og alltaf til í að bregða á leik.

[media id=217 width=520 height=436]