Heilabilun
Í gær varð skammhlaup í heilanum á mér, eða glitch. Glitch, upprunið frá jiddíska orðinu glitsh þýðir sleipur staður, en er á ensku notað um tímabundna gloppu í kerfi. Í gær missti ég fótanna um stund. Ég náði þó að halda jafnvægi, og fékk meðan á hrösuninni stóð að fylgjast með minni eigin niðurlægingu.
Ég verð að viðurkenna að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég verð var við sambandsleysi í heilanum mínum. Í hvert skipti sem það gerist, gapi ég yfir vitleysunni, undrandi yfir því að ég sé ekki fullkomnari maskína. Ég að sjálfsögðu reyni að fela svona uppákomur, enda misbrestur í heila varla í frásögur færandi, ekki nema að einhver annar en maður sjálfur eigi í hlut.
Ég stóð við eldhúsborðið og skar niður grænmeti í fyrsta flokks salat sem ég ætlaði að framreiða ásamt marineruðum grænum pipar, flatbrauði, og eðal hummus, lagaðan með safa úr nýkreistum sítrónum. Þessa tegund af fínsöxuðu salati lærði ég að búa til í Ísrael fyrir 14 árum síðan. Salatið samanstendur af nokkrum túmötum, þremur paprikum, öllum í sitthvorum litnum, rauðlauk, og gúrkum. Smá salt, sítrónusafi og ólífuolía. Gott að krydda með Thymian, eftir að maður fær sér á diskinn. Er kom að gúrkunum, sem fluttar voru með skipi frá Egyptalandi, vottaðar af Omar Sharif, – bilaði heilinn minn. Með stóran Norman Bates hníf, skar ég þær eftir endilöngu, og svo í kross. Ég horfði á hendur mínar handleika þær á skurðarbrettinu meðan ég brytjaði þær smátt.
Hvers vegna ætli gulrætur séu kallaðar gulrætur, þegar þær eru svona ægilega grænar, hugsaði ég og orðaði svo hugsun mína upphátt við ástkonu mína, sem sat við 350 danskkróna eldhúsborðið. Í mínum huga var þessi hugsun fullkomlega rökrétt. Ég meira að segja fór að velta fyrir mér uppruna orðsins og hvort það væri mögulega eitthvað gult í gúrkunum. Hvort þessi tegund af grænmeti, hefði einhvern tímann verið gul og svo þróast yfir í græna litinn. Í mínum huga hét gúrka gulrót, og þrátt fyrir að hafa búið til þetta salat, nánast sofandi, milljón sinnum, innihélt salatið gulrót en ekki gúrku.
Hvað áttu við? spurði heitmey mín. Pirraður yfir skilningsleysinu, hóf ég að útskýra hversu skrýtið mér þætti að eitthvað jafn grænt og gúrka hlyti nafn sem innihéldi lit sem greinilega ætti ekki við. Og þar sem ég er að útskýra þetta, með djúpri karlmannlegri röddu, átta ég mig á að ég er að verða klikkaður. Ég horfi á gúrkuna og segi við sjálfan mig: Þetta er gúrka en ekki gulrót. Þetta er gúrka! garga ég innan í mér.