SiggiSiggiBangBang

Spítalatungumál

Jul
13

Þegar ég vann á spítala töluðu þeir faglærðu vísindalegt tungumál, sem mér ómenntuðum starfsmanni þótti afar heillandi. Tungumálið, sem er internasjónal, ímynda ég mér að hjúkrunarfræðingar, læknar og sjúkraliðar læri upp í Akademíu, með stóru A-i. Ég hef alla tíð heillast af akademísku fræðimáli. Framandi orð eins og penis og vagína, borið fram peeeeenis þar sem hinn ylhýri sérhljóði nýtur sín í munni þess sem talar og vagína hljómar í líkingu við Jósefína. Rektus, óæðri endi mannskepnunnar, er með áherslu á eRrrrrrrr. Starfandi við spítalann voru sérfræðingur í Ginnakólógíu fyrir konur með órækt í neðri byggðum tilvistarinnar. Reyndar man ég aðeins eftir fræðiheitum sem hafa með búskap hið neðra að gera. Rétt eins og það fyrsta sem lærist í nýju tungumáli er subbulaðið.

Hér eru dæmi um heilar setningar sem innihalda þessi orð:

– Ég þreif honum Gunnari um penis í morgun!
– Bjarghildur er með roða á vagínu!
– Ég er hræddur um að hún Þórdís þurfi að fara til Ginnukólógista.
– Fékk Guðmundur stíl í Rektum í morgun?

Hvað varð um að þrífa Gunnari um typpið og senda Þórdísi til kvensjúkdómalæknis?

Ég ætlaði að skrifa miklu meira um penis og vagínu, en það er úr mér allt vacuum.