SiggiSiggiBangBang

Paul Simon, öldrun og dauði

Sep
16

Það snerti fíngerða strengi í mínu kórazóni að sjá myndband af Paul Simon flytja Sounds of Silence í New York 11. september síðastliðinn. Ekki þó vegna þess að athöfnin væri svo tilfinningarþungin og lagið svo fallegt, heldur vegna þess að Paul Simon sem eitt sinn var svo huggulegur og aðlaðandi er orðinn gamall og hrumur hálfútbrunninn kall. Hann hljómar líka eins og hann lítur út. Að eldast er andskotans tík. Ég sé öldrun hvert sem ég lít. Ég man ekki eftir að hafa verið svona upptekinn af öldrun þegar ég var á þrítugsaldri. En nú þegar ég sjálfur er orðinn rúmlega fertugur og síðustu 10 ár hafa liðið svo ægilega hratt – hugsa ég varla um annað en hrörnun og dauða.

Ég hef aldrei þótt sérstaklega myndarlegur, eða í það góðu formi að stúlkur eltust við mig til að nota mig til kynlífsiðkana. Ég er því ekkert sérstaklega viðkvæmur fyrir því að eldast og verða ljótari. En mér er umhugað um heilsuna mína. Ég geri ráð fyrir að kaldhæðni lífssins sjái til þess að ég þurfi að ganga þess jörð miklu lengur en ég kæri mig um. Ég ætla því reyna að eldast vel og minnka líkurnar á því að ég eigi eftir að veikjast þegar ég eldist.

Samkvæmt almennu áliti fólks þykir eðlilegt að veikjast samhliða því að eldast. En ég er ekki svo viss. Eftir að hafa kynnt mér málið rækilega sýnist mér ég ekki þurfa að veikjast og þjást frekar en ég vil. Með því að temja mér heilbrigðan lífsstíl trúi ég að ég geti spornað við hrörnun og lifað ævintýralífi þar til ég drukkna í sjóslysi eða hrapa fram af kletti. Ég hleyp daglega, borða hollan mat og reyni eftir fremsta megni að hugsa fallegar hugsanir. Það vona ég að verði til þess að ég þurfi ekki í ellinni aðstoð við að hafa hægðir. Ef fólk aðeins vissi hversu mikill munaður það er.

Veflókar Comments Off on Paul Simon, öldrun og dauði