Vegur ástarinnar
Ég er svo nær alveg hættur að skrifa um vangaveltur mínar, nema þá á Facebook. Það er dapurlegt, sérstaklega þar sem ég er nokkuð viss um að Facebook verði ekki til eftir nokkur ár. Hvað verður þá um allt gúmmilaðið sem fólk keppist við að setja þar inn?
Ég byrjaði að skrifa blúbb 2002, og þó ég hafi lítið skrifað hér síðustu 2 árin, eru skrif mín þar á undan ágætis heimild um hvað ég var að hugsa og gera.
Megnið af mínum skrifum fjalla beint eða óbeint um þá tilvistarkreppu sem ég hef verið í síðan ég man eftir mér. Nú er ekki svo að skilja að ástæðan fyrir dræmum skrifum sé sú að ég sé búinn að finna ótakmarkaða uppsprettu af friði og kærleik og að í sálu minni sé ekki lengur pláss fyrir hatur, hégóma eða dauðaóskir gagnvart fótgangandi fólki sem ekki tekur tillit til súperhlaupara sem þarf að komast hratt og örugglega leiðar sinnar. Það er ekki svo.
Ég mun því halda áfram að skrifa um yfirburði mína á andlega sviðinu. Hvernig ég leysi úr málum af sérstakri yfirvegun og sanngirni öðrum til eftirbreytni. Í framtíðinni verður þetta blogg uppflettirit fyrir þá sem vilja ganga veg ástarinnar.