Á síðustu stundu
Eins og oftast þegar ég og konan mín ferðumst flugleiðis erum við á síðustu stundu. Við erum bara tvö, engin börn með í för. Við erum á óskilgreindum flugvelli í Asíu. Við erum komin inn fyrir öryggið og hlaupum í átt að hliðinu þar sem gengið er inn í vélina. Við erum ekki alveg sammála um hvert við eigum að fara. Lea vill halda áfram á sömu hæð en ég vil taka rúllustiga sem liggur upp á aðra hæð. Úr verður að ég fer upp rúllustigann en Lea heldur áfram. Ég tefst en þegar ég kem að hliðinu er Lea ekki þar og tel ég víst að hún sé komin um borð í vélina. Ég bölva henni fyrir að fara inn á undan mér, sýni passann og farmiðann og geng um borð. Ég fæ mér sæti. Sætið hennar Leu er autt og hún er hvergi sjáanleg. Hugsanlega er hún á klósettinu? Einhverjar mínútur líða þar til ég átta mig á að hún er ekki um borð. Hurðinni á vélinni er lokað og vélin byrjar að hreyfast. Ég er að fara í þessa ferð einn og Lea varð eftir.