Aðlaðandi Íslendingur

Í gær hitti ég, á afar fínum veitingastað hér í borg, sérlega aðlaðandi mann frá Bosníu, fyrrum Júgóslavíu. Glaður og reifur rétti hann fram hendina og kynnti sig. Elvir heiti ég, hvað heitir þú? Fyrsta hugsun mín var: Þessi maður hlýtur að vera að gera gys að mér, svona glaðlegur og brosandi. Hvað vill hann? Ég krosslagði hendur og setti mig í stellingar ef ske kynni að hann færi að dæma mig. Ég reiknaði út í huganum hvernig ég með fantabrögðum gæti komið í veg fyrir að hann lítillækkaði mig, tildæmis með því að girða niður um mig buxurnar.

Menn, svona glaðbeittir og almennilegir, eru stórvarasamir samkvæmt mínum bókum. Þaðan sem ég er – frá Íslandinu góða, er enginn kurteis og almennilegur nema hann vilji troða viðbjóðnum á sér inn í þig, eða hafa þig að féþúfu. Því þykir mér lang öruggast að hafna fólki, áður en það hafnar mér. Einmitt þess vegna er ég nánast alveg vinalaus í dag. Sem er fínt, svo lengi sem ég fæ ekki það á tilfinninguna að mér sé hafnað, sem er hræðilegasta tilfinning af öllum tilfinningum sem tilfinningakirtillinn framleiðir.

En Elvir girti ekki niður um mig. Hann rétti mér flösku af fínasta trönuberjasafa, sem ég slokraði í mig af töluverðri nautn. Kannski er hann bara ágætur, hann Elvir, hann gaf mér jú trönuberjasafa, hugsaði ég. Hann getur bara ekki viljað mér illt. Þannig að þrátt fyrir að vera varkár, ákvað ég að gefa Elvir smá séns, og hóf samræður við hann. Hann spurði mig hvað ég væri að gera í Danmörku, og sagði honum það.

Ég sagði: Ljótu vondu kallarnir í jakkafötunum stálu öllum peningunum af fólkinu í landinu, og svo verðum við bara að borga brúsann, og það er sama hversu margar athugasemdir eru skrifaðar á Eyjunni, eða hversu mörg blogg er skrifuð í pilsfaldi Morgunblaðsins, ekkert gerist og skjaldborgin sem átti að slá um fjölskyldurnar, og verðtryggingin maður, og rass og kúkur – og því ákvað ég að flýja föðurland mitt, heimkynni mín, landið þar sem ég ólst upp, en þú Elvir minn hvað ert þú að gera hérna í Danmörku. Mikið er danska annars ljótt tungumál.

Elvir brosir fallegu nærgætnu brosi, og segir: Ég fluttist hérna fyrir 17 árum síðan þegar stríðið í fyrrum Júgóslavíu braust út…… En Elvir minn, greip ég fram í fyrir honum, – var ég búinn að segja þér frá mótmælunum miklu fyrir framan Alþingishúsið í janúar, það voru sko mótmæli maður minn. Löggan beitti táragasi og allt. Hvað varstu annars að segja um Júgóslavíu og stríðið? Dó einhver? Elvir horfir undrandi á mig, og er hljóður um stund. Það er sorg í honum: Það dóu 225 þúsund manns, segir hann og kveikir sér í sígarettu.

Þegar ég kom heim á gistiheimilið, hitti ég vinalegu íslendingana sem geta ekki skammarlaust boðið gott kvöld, eða góðan daginn og ég hugsaði með mér: Ég ætla að eyða næstu árum í að skoða heiminn, og kannski, já kannski, á síðustu metrum lífs míns fer ég heim til að deyja.

One thought on “Aðlaðandi Íslendingur”

  1. Eitt er víst að vælið yfir nákvæmlega engu í fordekruðum íslendingum er meiriháttar hjákátlegt ef horft er upp frá sjónvarpinu og moggablogginu þó ekki sé nema eitt augnablik.

    Skemmtu þér vel!

Comments are closed.