SiggiSiggiBangBang

Það er sem gerst hafi í gær

Oct
21

Þeir örfáu dagar sem ég dvaldi í New York rjátlast mér seint úr minni. Þetta voru vægast sagt einkennilegir dagar. Ég gekk fram og aftur Manhattan eins og ég væri vanheill á geði. Ekki að það skipti nokkurn mann máli þarna. En guð sé oss næstur, hvað ég skemmti mér konunglega. Ég sat á kaffihúsum og drakk í mig menningarlífið. Ég upplifði kringumstæður og umhverfið sem ég var staddur í eins og draum eða martröð. Ég var ekki alltaf viss um hvort það var. Það þarf því engan að undra að þegar ég heyri minnst á New York að ég bresti í söng, taki fáein dansspor og detti út um stund.
Ba ba barara, Ba ba barara, These little town blues, are melting away…. Ég þurfti ekki mikið að hafa fyrir mannlegum samskiptum þarna, þó svo að ég væri umkringdur mannmergðinni. Ég get talið mér á fingrum annarar handar hversu oft eða hvernig samskipti ég átti við fólk þarna.

#1 – Ég spurði mann í hótelafgreiðslu hvernig ég gæti fundið hótelið sem ég pantaði mér gistingu á.

#2 – Ég fór inn í raftækjaverslun á Times Squere. Eigendurnir voru upphaflega frá Frakklandi. Mig vantaði batterí í myndavélina mína. Þeir prúttuðu og gerðu að gamni sínu. Þeir spurðu hvað hárskera ég færi til. Einnig spurðu þeir mig á frönsku hvort ég væri frá Frakklandi, því ég væri með svo stórt nef.

#3 – Ég innritaði mig inn á Hotel Carter á Times Square. Konan sem tók við greiðslu var japönsk ásamt öllum öðrum í afgreiðslunni. Ég hafði það á tilfinningunni að fyrirvaralaust hæfi einhver skothríð í setustofunni.

#4 – Ég spurði konu í neðanjarðarlestinni hvernig ég kæmist til Brooklyn. Hún gaf mér leiðbeiningar sem gerði það að verkum að ég endaði upp á Coney Island.

#5 – Faðir og dóttir sem sátu á kaffihúsi dáðust af tölvunni minni og spurðu mig í kjölfarið á því hvaðan ég kæmi. Ég sagði þeim að ég væri frá Frakklandi.

#6 – Feitur gyðingur með gleraugu spurði mig á öðru kaffihúsi hvort ég væri með X40 módelið af IBM þeinkpöddu. Ég sagði svo vera og fór að tala um gæði vélarinnar minnar. Áður en ég vissi af var ég farinn að hljóma eins og ömurlegur sölumaður.

#7 – Ég keypti dæmigerða New York húfu. Afgreiðslukonan var kínversk og brosmild.

#8 – Ég keypti föt í GAP. Maðurinn sem var í queer eye for the straight guy, afgreiddi. Hann spurði mig um uppruna og ég sagi honum að ég væri frá Íglandi og að veðrið heima á klaka væri betra en í New York. Hann hló þurrum hlátri. Ég kýldi hann.

#9 – Ég lenti í þvargi við annan afgreiðslumann sem heimtaði að fá að taka af mér bakpokann, meðan ég skoðaði mig um í versluninni. Ég sagði að fyrr dræpist ég.

#10 – Gamall sjónlaus maður reyndi eftir fremsta megni að hjálpa mér með bækur sem ég hafði hug á að kaupa. Á endanum þurfti ég að slá inn í tölvuna leitarorðin, því hann sá ekki almennilega á skjáinn. Mér fannst hann hið mesta fyrirtak.

#11 – Í verslunarmiðstöð einni hitti ég fyrir ísraela sem var að selja dauðahafssölt. Ég sagði honum ævisöguna mína og hann sagði mér sína. Eftir að hann hafði laugað á mér hendurnar upp úr allskonar gúmmilaði, keypti ég af honum krem og saltdrullu sem ég gaf vinkonu minni þegar heim var komið.

#12 – Ég var stöðvaður af tveimur ungum mönnum sem sannfærðu mig um að gerast sponsor fyrir barn á Chile. Þeir sýndu mér mynd af henni, þar sem hún var nánast að drepast úr hor. Núna, einu og hálfu ári síðar fékk ég aðra mynd af henni þar sem hún er búin að bæta á sig minnst 10 kílóum. Hef ég af þessum sökum ákveðið að draga úr fjárframlögum til hennar. Í kjólinn fyrir jólin, segi ég í bréfi til fjölskyldu hennar.

#13 – Á leið minni frá New York hitti ég stúlku sem gaf sig á tal við mig á lestarstöðinni. Hún bjó á Long Island. Í lestinni til Baltimore sagði hún mér ævisöguna sína og ég sagði henni ævisöguna mína. Hún var kolgeðveik og vorum við litin hornauga af öðrum farþegum.

Það er sem gerst hafi í gær.

Veflókar Comments Off on Það er sem gerst hafi í gær

fallacius pluralibus

Oct
19

Mikill urmull er til af sjúkdómum sem hrjá aumt mannkynið. Sjúkdómar bera torskilin heiti sem einungis er á færi þartil útbúinna fræðimanna að skilja. Þekkjast þeir oftar en ekki á akademískri ólund sem er þrálátur fylgifiskur þess að vera langskólagenginn.

Í lífsins ólgusjó er manninum nauðsyn að kunna nafn á þeirri óhamingju sem hrjáir hann. Það er engum blöðum um það að fletta að eitthvað amar að okkur öllum. Þar fyrirfinnast engar undantekningar þori ég að fullyrða. Það er ólíklegt að manneskja þurfi ekki einhvern tímann á lífsleiðinni að takast á við einhvern ára sem veldur viðkomandi ásamt öllum sem til hans þekkja einhverjum óþægindinum ásamt vel útilátnum skammti af helberum leiðindum.
Það er við þessar aðstæður sem margir gleyma sér gersamlega í þeirri sjúkdómsgreiningu sem þeim hefur verið útrétt af fyrrnefndum uppáklæddum og langskólagengnum. Fólk yfir höfuð er sjúkdómsgreiningunni fegið og margir, þó ekki allir, lifa sig af mikilli ástríðu inn í hlutverk sjúklingsins. “Já, ástæðan fyrir því að mér hefur ætíð liðið bölvanlega er vegna þess að ég er með vélindabakflæði!” gæti einhver tilkynnt digurbarkalega í fjölskylduboði eða á viðskiptafundi. Í þessu tilfelli er búið að koma nafni yfir ófögnuðinn og þrátt fyrir að ekkert verði kannski að gert, líður sjúklingnum mun betur með að geta kallað sig sjúkling. “Hann er svona vélindabakflæðismanngerð!”, gæti einhver sagt um viðkomandi, eða “Hann er með persónuleika gallsteinasjúklings!” Þarna er sjúklingurinn orðinn sjúkdómurinn. Innhald hans er sjúkdómur og allt lífið fer í að vera sjúklingur.

Þess ber að geta að þessi veflókur er ekki skrifaður með þá í huga sem berjast fyrir lífi sínu vegna veikinda.

Ég þekki þetta af eigin raun, þar sem ég undirritaður var sjúkdómsgreindur af uppástríluðum sérfræðingum sem ætti helst að banna öll mannleg samskipti. Ég fór í kjölfarið á því að vera orðinn yfirlýstur sjúklingur að haga mér algerlega samkvæmt þeim sjúkdómi sem greindist með. Ég fór að klæða mig í samræmi við sjúkdómsgreininguna. Sækja viðeigandi kaffihús. Umgangast fólk sem þótti við hæfi . Hlusta á músik sem passaði best við, o.s.frv.
Ég talaði um sjúkdóminn minn látlaust og hafði hann með mér í farteskinu hvert sem ég fór, öllum til óbærilegra leiðinda. Svo kom á daginn að ég var bara ekki með einn né neinn sjúkdóm, heldur var ég bara að kljást við lífið eins og það birtist fólki, með tilheyrandi skini og skúrum.
Það má segja að ég hafi verið eilítið umkomulaus þegar ég komst að þessu. Hver er ég eiginlega ef ég hef ekki einhverjum sjúkdómi um að kenna þegar miður fer?
Er ég kannski maðurinn hennar Jónínu hans Jóns?

Innocent When You Dream

Oct
18

Einu sinni endur fyrir löngu varð ég ástfanginn upp fyrir haus. Í þessu sjúka ástandi sendi ég viðfangsefni númer eitt segulbandsspólu með laginu ‘Innocent When You Dream’. Ég sagði í meðfylgandi bréfi(skrifað á pappír) lag þetta minna mig dýrindis ásjónu viðkomandi. Hafði þetta lag þó ekki undir neinum kringumstæðum haft nokkuð með mig og þessa manneskju að gera. Reyndar var tónlistarsmekkur minn á þessum tíma ættaður frá allt annari stúlku. Stúlku sem ég átti vingott við fyrir andskoti mörgum árum. Hún er húsfrú í dag með börn og jeppa.
Undanfarin mánuð hef ég hlustað töluvert á þetta lag, sem mér þykir enn þann daginn í dag afskaplega fallegt. Ég hef einnig náð að spila það á klarinettinn minn prýðilega við óumdeilanlegan fögnuð allra sem eiga hlut að máli.

Sönglagatextinn er eitthvað á þessa leið:

Það er fullkomlega leyfilegt að ímynda sér undirleik á klarinett, meðan rennt er í gegnum textann.


The bats are in the belfry
the dew is on the moor
where are the arms that held me
and pledged her love before
and pledged her love before

* * * * * * *

It’s such a sad old feeling
the fields are soft and green
it’s memories that I’m stealing
but you’re innocent when you dream
when you dream
you’re innocent when you dream

running through the graveyard
we laughed my friends and I
we swore we’d be together
until the day we died
until the day we died

* * * * * * *

I made a golden promise
that we would never part
I gave my love a locket
and then I broke her heart
and then I broke her heart

* * * * * * *

Árin liðu og til allrar guðs lukku rjátlaðist þessi geðveiki af mér. Nú er ég ísköld og jafnframt afskaplega þroskuð manneskja sem ekkert bítur á.

Þeir sem minna mega sín

Oct
11

Ég fór í hljóðfæraverslun fyrr í dag með gleði og glaumkonunni henni fröken Sigríði. Mig vantaði blöð í nýja og fína klarinettinn minn. Ég bað mann á þrítugsaldri að aðstoða mig. Ég sagði honum að ég hefði nú marga fjöruna sopið og nú langaði mig til að læra á klarinett.
Hann horfði á mig og fyrirlitningin lak af honum. Ég bað hann vinsamlegast um að selja mér tvo kassa af klarinettblöðum og eina nótnabók með heitustu smellum fyrr og síðar.
Hann spurði mig hvort ég vildi nótnabók með bítlunum eða coldplay. Það var þá sem ég missti mig og hrækti framan í hann. Honum varð hverft við og spurði hvað í andskotanum gengi að mér, hvort ég væri eitthvað klikkaður. Ég sagði honum að hann hefði horft á mig með fyrirlitningu og hefði átt þessa slummu inni fyrir spjátrungslegt yfirlætið sem hann sýndi mér og fjölskyldu minni sem ætti um sárt að binda um heim allan.
“Fjölskylda, hvaða helvítis rugl er þetta” spurði hann meðan hann þurrkaði klaufalega hrákuna úr andliti sínu.
“Ég er að tala um bræður mínar og systur í samtökum iðnaðarins” hreytti ég í hann. Hann fölnaði umsvifalaust og rétti upp hendina eins og öðlingurinn ég hefði það eitt í hyggju að vinna honum tjón.
“Já, bræður mínir og systur hafa verið fótum troðin af dusilmönnum eins og þér, en nú er nóg komið” sagði ég og glotti illkvittnislega. Ég greip klarinett úr hillu og hóf að spila á hann “When the saints come marching in”. Áður en ég vissi af voru allir í búðinni dauðir úr leiðindum. Ég opnaði þá peningakassann og hirti allt úr honum. Tölti svo á svarta svaninn og keypti mér eggjasamloku, sem ég át með lostafullri áfergju.

Nú verður refsað

Oct
07

Ég hef skrifað fáeina pistla hér á vefsetri mínu um andstyggilega og gersamlega óþolandi nágranna mína. Það gleður mig í hjarta mínu að vera kominn með upp í hendurnar tól til að tækla þetta fólk. Í fyrradag barst mér nefnilega sending alla leið frá Nýju Jórvík í U and S of the A. Já, það stemmir. Klarinettinn sem ég pantaði mér á ebay er kominn í heim í hlað. Nú verður refsað. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef verið vakinn upp á nóttinni með allskonar skrílslátum. Rifrildi, barnsgrátur, fólk að skrönglast og allskonar búkhljóð sem ég tel ekki við hæfi að tíunda hér á siðprúðum vef mínum. En nú er komið að skuldadögum hér á laugaveginum. Það er ekki elsku mamma eitt né neitt. Ég hef safnað töluvert af gremju í sarpinn, sem ég hyggst blása í klarinettinn minn fína. Ég hugsa að ég verði orðinn fær í að halda tónleika eftir nokkra mánuði. En fram að því verð ég að æfa mig með tilheyrandi óhljóðum.
Til að sannreyna vopnið, fékk ég fröken Sigríði í heimsókn til mín. Eftir að hafa nostrað við hana, reif ég fyrirvaralaust upp klarinettinn og hóf að spila fyrir hana Óð til gleðinnar eftir Beethoven. Eftir að hafa spilað það þrisvar sinnum fyrir þessa landsfrægu gleðikonu, ætlaði hún að hjóla í mig og berja mig. Ég var hvergi banginn og henti henni út. Maður býður ekki syndinni í kaffi.
Einnig er ég búinn að læra að spila “Twinkle, twinkle little star” eða “Leiftraðu, leiftraðu litla stjarna” eins og það heitir á svellköldu móðurmálinu. Þetta er skemmtilegt lag sem léttir mína lund.

Já, nú verður gaman.

Maðurinn sem missti kúlið

Oct
05

Það kemur fólki regulega á óvart en ég hef í gegnum lífshlaup mitt orðið uppvís af hroka og öðrum persónulegum vanköntum. Eftir grát gnístandi tanna í samtökum iðnaðarins, sem og úti í hinum harða heimi viðskipta hef ég gersamlega látið af hroka. Ég er ekki bara orðinn hrokalaus heldur er ég að komast á þá skoðun að hrokafullt fólk sé án undantekninga illa gefið eða þá fokking fávitar. Annaðhvort ef ekki bæði. Mér er svo ómótt yfir hrokanum í sumu fólki að ég hef látið sannfærast um að fólk af þessu tagi eigi einfaldlega ekki skilið að lifa meðal góðborgara á borð við undirritaðan.

Ég sit reyndar stundum með fólki sem hefur það álit á sjálfum sér að allir eða í það minnsta flestir séu vanvitar í samanburði við það. Þegar ég heyri fólk tala á þessum nótum, þá vaknar óhjákvæmilega sú spurning í huga mér hvað þessir vanvitar eigi að gera í ljósi þess að þeir eru þessum sjálfskipuðu snillingum ekki samboðnir. Þeim er kannski bara greiði gerður með að lóga þeim.
Það vekur upp í mér skelfingu að ég stundaði þetta á árum áður. Það kemur meira segja fyrir enn þann daginn í dag að ég stytti mér stundir með því að tala um það hver sé fáviti og hver ekki. Mér er hinsvegar fyrirmunað að skilja hvaðan þessar hugmyndir mínar eru ættaðar. Eru þær ekki uppspretta minnar eigin minnimáttarkenndar. Kannski er ég bara svo hugmyndasnauður að mér dettur bara ekki neitt merkilegra í hug en að tala um þá sem ég af einhverjum óskiljanlegum ástæðum tel vera fávita. Því meira sem ég hugsa um það því sannfærðari verð ég að það er ekki hægt að þrífast í þessum heimi, með þessi viðhorf.

Ég hef þessvegna á því hug að losa mig við þessa viðurstyggð. Það kann að hljóma einkennilega en því meira sem ég heyri af áfellisdómum um fólk í kringum mig, þeim mun meira langar mig til að vera laus við dómhörku og hroka. Sumum kann að þykja ég vera orðinn meir með aldrinum. Mér er skítsama hvort ég sé meir eða hversu mikið kúl ég missi í brækurnar. Til helvítis með allt kúl og allar þær vítisvélar sem notaðar eru til að blása egóblöðruna upp þangað til ekkert annað rúmast í lítilli og aumri tilveru einnar manneskju.

Draugagangur

Oct
02

Þegar ég var barn eyddi ég öllum mínum stundum hjá gamalli konu sem bjó í nágrenni mínu. Hún var mér ákaflega góð. Hún var ekkja, en átti nokkur uppkomin börn ásamt barnabörnum. Hún bjó í rauðu húsi niður í móa. Hún sat við opinn gluggann sinn og fylgdist með okkur krökkunum leika í móanum. Áður en ég vissi var ég farinn að venja komur mínar í heimsókn til hennar. Henni þótt afar vænt um það. Ég sá það í hvert það skipti sem hún lauk upp dyrunum fyrir mér, þá lifnaði yfir henni og hún bauð mig velkominn. “Nei, er þetta ekki hann Sigurður minn” sagði hún himinlifandi þegar hún sá hver stóð fyrir utan. Mér leið alveg prýðilega í hennar félagsskap. Mér leið betur hjá henni en í félagi við krakkaskrímslin sem ég neyddist til að eiga samskipti við. Hjá henni fannst mér ég vera óhultur frá heiminum sem ég var strax á þessum aldri farinn að upplifa miskunnarlausan.

Hún var mér yndisleg. Ég óx úr grasi, en kynni okkar héldu áfram. Einhvern tímann gerðum við samkomulag okkar á milli. Við vorum nokkuð viss um sökum aldurs að þá yrði hún að öllum líkindum fyrri til að kveðja yfir móðuna miklu. Við urðum ásátt um að hún reyndi eftir fremsta megni að láta mig vita af sér eftir að hún væri öll.
Árin liðu. Úr mér teygðist og lífið varð flóknara. Mig tekur það sárt að hafa ekki sinnt henni síðustu ár ævi hennar. En því miður réri ég róður á lífssins ólgusjó þegar hún kvaddi þennan heim.

Ég hef aldrei orðið var við hana síðan þá. Mig hefur oft og mörgum sinnum dreymt húsið sem hún átti heima í þegar ég kynntist henni. En aldrei hana. Síðustu nótt hinsvegar dreymdi mig hana. Ég man ekki nákvæmlega hvað var að gerast í draumnum. Ég man einungis að mér þótti það óþægilegt. Einhvern meginn milli svefns og vöku ákvað ég að ef hún væri á svæðinu, þá ætlaði ég að láta hana vita af því að ég hefði orðið hennar var. Með það í huga sagði ég nafnið hennar upphátt. Í kjölfarið á því, fékk ég þá almestu gæsahúð sem ég hef fengið í svefni. Gæsahúð sem hríslaðist um mig allan.

Ef þetta var vinkona mín að læðast þarna upp að mér, þá tók hún sér aldeilis tíma í að standa við samkomulag okkar. 🙂

Kærleikur

Oct
01

Ég hef gert merkilega uppgögvun. Það er heill aragrúi af fólki sem mér þykir alveg afskaplega vænt um. Í ljósi þess að ég taldi mig vera mannhatara, hér á árum áður, þá veit ég ekki hvort ég eigi að bresta í grát eða láta það eftir mér að hlæja. Kannski ég láti mér það nægja að flissa eins og gála á skólabekk.

Það er samt sem áður ekki laust við að ég komi svolítið aftan að sjálfum mér með þessari uppgögvun. Ég hef satt best að segja sett töluvert púður í að sannfæra mig og aðra um að fólk sé í grunninn sjálfselskt og illa innréttað. Ég hef að sama skapi séð sjálfan mig sem vesælt hjartahlýtt fórnarlamb, fætt inn í þennan heim til átröðkunar. Spurning hvort ég kæmist upp með orðið “átröðkun” í orðaspilinu prýðilega scrabble. “Hann er gull af manni, þrátt fyrir þráláta átröðkun meðbræðra sinna”, væri hægt að segja tildæmis.

Ég verð að viðurkenna að væntumþykja af þeirri tegund sem ég greini hér frá, glæðir ódáminn ósvikinni gleði af áður óþekktum uppruna. Talandi um kærleik og gleði, þá í þessum skrifuðum orðum situr fyrir utan gluggann minn harmonikkuspilarinn hressi. Hann er að spila Celine Dion velluna úr Titanic. Ég ætla að bregða mér út fyrir hússins dyr með eftirlætis kúbeinið mitt og kasta kveðju á hann.

No one ever ever knows anyone

Sep
30

Síðan ég byrjaði að skrifa veflóka, hef ég stundum velt því fyrir mér hvort eitthvað af því sem ég skrifa um, komi til með að hafa á einhvern hátt eyðileggjandi áhrif á líf mitt í ókominni framtíð. Ég hef svo sem ekki mikið brotið heilann um þetta, en það verður þó að viðurkennast að ég hef í nokkrum tilfellum hugsað þetta af einhverri alvöru.

Ég tel þó að ekki sé hægt að draga mig í dilka fyrir orð mín hér á þessum vef. Ég hef þó notað óviðeigandi orð eins og drullukunta, sem er fallegt og jafnframt rammíslenskt orð. Til gamans má geta að sé leitarorðinu “drullukunta” slegið inn í leitarvélina hressu og uppátækjasömu google, er síðan mín meðal fyrstu niðurstaðna. Ég get ekki sagt að ég sé mjög hróðugur yfir þessari skemmtilegu “tilviljun”. En einhverstaðar verð ég að slá í gegn.

Einnig skrifa ég veflóka nánast undir fullu nafni með myndum svo hægt sé að bera kennsl á ófögnuðinn. Á þeim tíma sem ég hugðist giftast amerískum lögfræðingi og flytjast búferlum til Brjálæðaríkjanna, hafði ég einhverjar áhyggjur af því að útlendingaeftirlitið í Brjálæðaríkjunum næði að lesa það út úr síðunni minn að ég er mjög svo andvígur stjórn landsins, og þess vegna neitað mér um landvistarleyfi. Enn og aftur um daginn fór ég hugsa eitthvað í þessa veruna. Núna er mér hinsvegar sama. Þó svo að ég noti dónaleg orð í skrifum mínum, þýðir það hvorki eitt né neitt.

“No one ever ever knows anyone.” – Rules Of Attraction

Lífsins lystisemdar

Sep
24

Stundum kemur mér til hugar að ég væri hamingjusamari ef ég léti aðeins meira eftir mér en ég geri. Ég hef þess vegna slakað aðeins á í matarstraffinu sem ég set sjálfan mig reglulega í. Í síðustu viku sló ég til og át eina mozart kúlu. Ég át þessa kúlu í virðingarskyni við þann sem bauð mér hana. Sá er bauð mér þessa kúlu var einn af betri borgurum þessa samfélags og þar sem ég er nokkuð vel upp alinn fyrir sunnan og norðan skítalæk þáði ég hana með þökkum. Ég hefði betur verið ókurteis og afþakkað hana, eða þá hrækt henni út úr mér áður en mér varð það á að kyngja. Snjóboltaáhrifin margumtöluðu eiga vel við því kúlan sú atarna hefur undið all hressilega upp á sig. Ég hef síðan þá, landað ís með dýfu, cappucino ís, kartöfluflögum með majonesi, daim karamellum, belgísku súkkulaði ásamt fleira júmmilaði sem hefur sest rakleiðis á rass mér og læri. Þeir sem til þekkja vita það eins vel og ég að þetta endar með geðveiki og dauða.

Þessa stundina er ég einmitt að gæla við það að fá mér kaffi. Ég verð að segja að ég finn ekki fyrir því að ég sé neitt minna taugaveiklaðri þó svo ég hafi neitað mér um kaffi í tvær vikur. Nei, heldur þvert á móti hef ég það á tilfinningunni að ég sé maður á ystu nöf, með alltof stuttan sprengiþráð. Ég er viðkvæmur, önugur og minnst 25% óhamingjusamari fyrir vikið.
Nei, nú er nóg komið. Á morgun fæ ég mér stóran kaffi latte á Brundslunni.

Loose Change

Sep
20

Síðustu daga hef ég aðeins skoðað samsæriskenningar tengdar 9/11. Jæja, sannleikanum samkvæmt hef ég öllu heldur legið í samsæriskenningum um 9/11 eins og sardína í olíu. Ég hef reyndar síðustu ár séð eitthvað af myndbrotum og lesið jafn mikið af röksemdafærslum, en ekki hef ég til þessa haft mikla trú á að ríkisstjórn fábjánans hans Bush, hafi haft hönd í bagga í árásunum á WTC. Núna er ég hinsvegar sannfærður. Í mínum huga kemur í sjálfu sér ekkert annað til greina. Það eru of mikið um ósamræmi og uppákomum sem einfaldlega koma ekki heim og saman í atburðarás 11. september 2001. Það eru að sama skapi of margir sem höfðu ávinning af bæði árásunum og eftirleiknum.

Vissir þú tildæmis lesandi góður að stálbitarnir í WTC voru fóðraðir með asbest, sem er krabbameinsvaldandi óþverri. Samkvæmt lögum í New York er þeim gert sem notað hafa asbest í byggingariðnaði, að fjarlægja það eftir kúnstarinnar reglum. Áætlaður kostnaður við að strípa stálbita WTC, var milljarður dollarar.

Sex vikum áður en árásirnar voru gerðar skrifaði Larry Silverstein eigandi WTC upp á samning við tryggingarfélag upp á tryggingu sem taldi hvorki meira né minna en $3.2 milljarða, þar meðtalin var trygging upp á litlar $3.5 milljarða ef gerð yrði hryðjuverkaárás. Hann Larry okkar Silverstein er ekki óhress þessa daganna. Hann og forljót konan hans biður að heilsa.

Samkvæmt skýrslum var einn milljarður gulls ígildi geymt í kjallara WTC, byggingu númer 4. Einungis $230 milljónir í gullstöngum fundust í rústunum, þeim var búið að hlaða í tvo flutningatrukka.

Svartir kassar í þotum af þeirri tegund sem flugu inn í turnana tvo eru búnir til úr þeim alsterkustu málmum sem mannskepnan hefur fundið upp. Samt sem áður fannst hvorugur kassinn í rústunum. Hinsvegar fannst vegabréf eins flugræningjans. En vegabréf er eins og flestir gera sér grein fyrir búin til úr gamaldags pappír.

Þessi atriði eru einungis brotabrot.

Ég mæli eindregið með:
Loose Change
911 Mysteries

Nú verður gaman….

Sep
15

Það eru nokkrar mínútur í miðnætti á föstudagskveldi. Ég er nýbúinn að vaska sjálfan mig upp, plokka augabrýrnar, setja á mig vellyktandi, tannbursta og gera mig eins fallegan og ég get mögulega áorkað, án þess að nota bolabrögð.
Og hvað stendur til kann einhver að spyrja sig. Á að skella sér á veiðilendurnar. Liggur leið mín á Nasa, Prikið eða kannski Vegamót.
Nei, ekki er nú svo. Eftir að vera búinn að snurfusa mig og hafa mig rækilega til, hef ég í hyggju að leggjast í uppábúið rúm mitt með skál fulla af rúsínum og fræum og horfa á heimildarmynd um Íraksstríðið.
Á einhverjum tímapunkti í mínu lífi hefðu mér fundist lifnaðarhættir mínir afskaplega óspennandi, ef ekki gersamlega niðurdrepandi.
Ég hinsvegar verð að viðurkenna að ég er nokkuð sáttur.