Þeir örfáu dagar sem ég dvaldi í New York rjátlast mér seint úr minni. Þetta voru vægast sagt einkennilegir dagar. Ég gekk fram og aftur Manhattan eins og ég væri vanheill á geði. Ekki að það skipti nokkurn mann máli þarna. En guð sé oss næstur, hvað ég skemmti mér konunglega. Ég sat á kaffihúsum og drakk í mig menningarlífið. Ég upplifði kringumstæður og umhverfið sem ég var staddur í eins og draum eða martröð. Ég var ekki alltaf viss um hvort það var. Það þarf því engan að undra að þegar ég heyri minnst á New York að ég bresti í söng, taki fáein dansspor og detti út um stund.
Ba ba barara, Ba ba barara, These little town blues, are melting away…. Ég þurfti ekki mikið að hafa fyrir mannlegum samskiptum þarna, þó svo að ég væri umkringdur mannmergðinni. Ég get talið mér á fingrum annarar handar hversu oft eða hvernig samskipti ég átti við fólk þarna.
#1 – Ég spurði mann í hótelafgreiðslu hvernig ég gæti fundið hótelið sem ég pantaði mér gistingu á.
#2 – Ég fór inn í raftækjaverslun á Times Squere. Eigendurnir voru upphaflega frá Frakklandi. Mig vantaði batterí í myndavélina mína. Þeir prúttuðu og gerðu að gamni sínu. Þeir spurðu hvað hárskera ég færi til. Einnig spurðu þeir mig á frönsku hvort ég væri frá Frakklandi, því ég væri með svo stórt nef.
#3 – Ég innritaði mig inn á Hotel Carter á Times Square. Konan sem tók við greiðslu var japönsk ásamt öllum öðrum í afgreiðslunni. Ég hafði það á tilfinningunni að fyrirvaralaust hæfi einhver skothríð í setustofunni.
#4 – Ég spurði konu í neðanjarðarlestinni hvernig ég kæmist til Brooklyn. Hún gaf mér leiðbeiningar sem gerði það að verkum að ég endaði upp á Coney Island.
#5 – Faðir og dóttir sem sátu á kaffihúsi dáðust af tölvunni minni og spurðu mig í kjölfarið á því hvaðan ég kæmi. Ég sagði þeim að ég væri frá Frakklandi.
#6 – Feitur gyðingur með gleraugu spurði mig á öðru kaffihúsi hvort ég væri með X40 módelið af IBM þeinkpöddu. Ég sagði svo vera og fór að tala um gæði vélarinnar minnar. Áður en ég vissi af var ég farinn að hljóma eins og ömurlegur sölumaður.
#7 – Ég keypti dæmigerða New York húfu. Afgreiðslukonan var kínversk og brosmild.
#8 – Ég keypti föt í GAP. Maðurinn sem var í queer eye for the straight guy, afgreiddi. Hann spurði mig um uppruna og ég sagi honum að ég væri frá Íglandi og að veðrið heima á klaka væri betra en í New York. Hann hló þurrum hlátri. Ég kýldi hann.
#9 – Ég lenti í þvargi við annan afgreiðslumann sem heimtaði að fá að taka af mér bakpokann, meðan ég skoðaði mig um í versluninni. Ég sagði að fyrr dræpist ég.
#10 – Gamall sjónlaus maður reyndi eftir fremsta megni að hjálpa mér með bækur sem ég hafði hug á að kaupa. Á endanum þurfti ég að slá inn í tölvuna leitarorðin, því hann sá ekki almennilega á skjáinn. Mér fannst hann hið mesta fyrirtak.
#11 – Í verslunarmiðstöð einni hitti ég fyrir ísraela sem var að selja dauðahafssölt. Ég sagði honum ævisöguna mína og hann sagði mér sína. Eftir að hann hafði laugað á mér hendurnar upp úr allskonar gúmmilaði, keypti ég af honum krem og saltdrullu sem ég gaf vinkonu minni þegar heim var komið.
#12 – Ég var stöðvaður af tveimur ungum mönnum sem sannfærðu mig um að gerast sponsor fyrir barn á Chile. Þeir sýndu mér mynd af henni, þar sem hún var nánast að drepast úr hor. Núna, einu og hálfu ári síðar fékk ég aðra mynd af henni þar sem hún er búin að bæta á sig minnst 10 kílóum. Hef ég af þessum sökum ákveðið að draga úr fjárframlögum til hennar. Í kjólinn fyrir jólin, segi ég í bréfi til fjölskyldu hennar.
#13 – Á leið minni frá New York hitti ég stúlku sem gaf sig á tal við mig á lestarstöðinni. Hún bjó á Long Island. Í lestinni til Baltimore sagði hún mér ævisöguna sína og ég sagði henni ævisöguna mína. Hún var kolgeðveik og vorum við litin hornauga af öðrum farþegum.
Það er sem gerst hafi í gær.
Mikill urmull er til af sjúkdómum sem hrjá aumt mannkynið. Sjúkdómar bera torskilin heiti sem einungis er á færi þartil útbúinna fræðimanna að skilja. Þekkjast þeir oftar en ekki á akademískri ólund sem er þrálátur fylgifiskur þess að vera langskólagenginn.
Einu sinni endur fyrir löngu varð ég ástfanginn upp fyrir haus. Í þessu sjúka ástandi sendi ég viðfangsefni númer eitt segulbandsspólu með laginu ‘Innocent When You Dream’. Ég sagði í meðfylgandi bréfi(skrifað á pappír) lag þetta minna mig dýrindis ásjónu viðkomandi. Hafði þetta lag þó ekki undir neinum kringumstæðum haft nokkuð með mig og þessa manneskju að gera. Reyndar var tónlistarsmekkur minn á þessum tíma ættaður frá allt annari stúlku. Stúlku sem ég átti vingott við fyrir andskoti mörgum árum. Hún er húsfrú í dag með börn og jeppa.
Ég hef skrifað fáeina pistla hér á vefsetri mínu um andstyggilega og gersamlega óþolandi nágranna mína. Það gleður mig í hjarta mínu að vera kominn með upp í hendurnar tól til að tækla þetta fólk. Í fyrradag barst mér nefnilega sending alla leið frá Nýju Jórvík í U and S of the A. Já, það stemmir. Klarinettinn sem ég pantaði mér á ebay er kominn í heim í hlað. Nú verður refsað. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef verið vakinn upp á nóttinni með allskonar skrílslátum. Rifrildi, barnsgrátur, fólk að skrönglast og allskonar búkhljóð sem ég tel ekki við hæfi að tíunda hér á siðprúðum vef mínum. En nú er komið að skuldadögum hér á laugaveginum. Það er ekki elsku mamma eitt né neitt. Ég hef safnað töluvert af gremju í sarpinn, sem ég hyggst blása í klarinettinn minn fína. Ég hugsa að ég verði orðinn fær í að halda tónleika eftir nokkra mánuði. En fram að því verð ég að æfa mig með tilheyrandi óhljóðum.
Það kemur fólki regulega á óvart en ég hef í gegnum lífshlaup mitt orðið uppvís af hroka og öðrum persónulegum vanköntum. Eftir grát gnístandi tanna í samtökum iðnaðarins, sem og úti í hinum harða heimi viðskipta hef ég gersamlega látið af hroka. Ég er ekki bara orðinn hrokalaus heldur er ég að komast á þá skoðun að hrokafullt fólk sé án undantekninga illa gefið eða þá fokking fávitar. Annaðhvort ef ekki bæði. Mér er svo ómótt yfir hrokanum í sumu fólki að ég hef látið sannfærast um að fólk af þessu tagi eigi einfaldlega ekki skilið að lifa meðal góðborgara á borð við undirritaðan.
Þegar ég var barn eyddi ég öllum mínum stundum hjá gamalli konu sem bjó í nágrenni mínu. Hún var mér ákaflega góð. Hún var ekkja, en átti nokkur uppkomin börn ásamt barnabörnum. Hún bjó í rauðu húsi niður í móa. Hún sat við opinn gluggann sinn og fylgdist með okkur krökkunum leika í móanum. Áður en ég vissi var ég farinn að venja komur mínar í heimsókn til hennar. Henni þótt afar vænt um það. Ég sá það í hvert það skipti sem hún lauk upp dyrunum fyrir mér, þá lifnaði yfir henni og hún bauð mig velkominn. “Nei, er þetta ekki hann Sigurður minn” sagði hún himinlifandi þegar hún sá hver stóð fyrir utan. Mér leið alveg prýðilega í hennar félagsskap. Mér leið betur hjá henni en í félagi við krakkaskrímslin sem ég neyddist til að eiga samskipti við. Hjá henni fannst mér ég vera óhultur frá heiminum sem ég var strax á þessum aldri farinn að upplifa miskunnarlausan.
Ég hef gert merkilega uppgögvun. Það er heill aragrúi af fólki sem mér þykir alveg afskaplega vænt um. Í ljósi þess að ég taldi mig vera mannhatara, hér á árum áður, þá veit ég ekki hvort ég eigi að bresta í grát eða láta það eftir mér að hlæja. Kannski ég láti mér það nægja að flissa eins og gála á skólabekk.
Stundum kemur mér til hugar að ég væri hamingjusamari ef ég léti aðeins meira eftir mér en ég geri. Ég hef þess vegna slakað aðeins á í matarstraffinu sem ég set sjálfan mig reglulega í. Í síðustu viku sló ég til og át eina mozart kúlu. Ég át þessa kúlu í virðingarskyni við þann sem bauð mér hana. Sá er bauð mér þessa kúlu var einn af betri borgurum þessa samfélags og þar sem ég er nokkuð vel upp alinn fyrir sunnan og norðan skítalæk þáði ég hana með þökkum. Ég hefði betur verið ókurteis og afþakkað hana, eða þá hrækt henni út úr mér áður en mér varð það á að kyngja. Snjóboltaáhrifin margumtöluðu eiga vel við því kúlan sú atarna hefur undið all hressilega upp á sig. Ég hef síðan þá, landað ís með dýfu, cappucino ís, kartöfluflögum með majonesi, daim karamellum, belgísku súkkulaði ásamt fleira júmmilaði sem hefur sest rakleiðis á rass mér og læri. Þeir sem til þekkja vita það eins vel og ég að þetta endar með geðveiki og dauða.
Síðustu daga hef ég aðeins skoðað samsæriskenningar tengdar 9/11. Jæja, sannleikanum samkvæmt hef ég öllu heldur legið í samsæriskenningum um 9/11 eins og sardína í olíu. Ég hef reyndar síðustu ár séð eitthvað af myndbrotum og lesið jafn mikið af röksemdafærslum, en ekki hef ég til þessa haft mikla trú á að ríkisstjórn fábjánans hans Bush, hafi haft hönd í bagga í árásunum á WTC. Núna er ég hinsvegar sannfærður. Í mínum huga kemur í sjálfu sér ekkert annað til greina. Það eru of mikið um ósamræmi og uppákomum sem einfaldlega koma ekki heim og saman í atburðarás 11. september 2001. Það eru að sama skapi of margir sem höfðu ávinning af bæði árásunum og eftirleiknum.