The new look
Me, in the cruel world of business.
Ég í hörðum heimi viðskipta.
Ég sá litla fallega umfjöllun í fréttatíma ríkissjónvarpsins um tilhugalíf fugla. Miklir snillingar eru þetta hjá RUV. Karlkyns krían færir kvenkyns kríunni orm í gogginn og fær án allra málalenginga að bregða sér á bak. Þessi háttur er hafður á í mannheimum líka. Uppáklætt stælt karldýr í krumpuskyrtu, snjóþvegnum gallabuxum íklæddur svörtum jakka með temmilegt magn af vellyktandi kaupir í glas fyrir kvendýr. Gubbar karldýrið síðan yfir kvendýrið og hún án þess að hugsa sig tvisvar gerir sig aðgengilega honum. Ekki svo fjarri því sem gerist í dýraríkinu. Það vill oft gleymast að við mennirnir erum ekkert nema dýr. Það fer þó ekki fram hjá mér því hið svokallaða tilhugalíf manna blasir við mér hverja einustu helgi. Í þægilegheitum míns eigin heimilis get ég fengið að fylgjast með hvernig bera sig á að, ef maður vill koma manndýri af gagnstæðu kyni til. Það er fátt eitt meira aðlaðandi og jafnvel kynæsandi en fulltíða karlmaður sem gargar, öskrar og hrópar jafnvel stríðsöskur. Þeir ná án tafar athygli kvenpeningsins sem fellur kylliflatur fyrir viðkomandi. Að mölva bjórflösku eða rúðu er líka mjög kynæsandi, það ber merki um þarna er á ferð mjög sterkur og áhugaverður persónuleik sem þarf kannski aðeins að temja. Konur eru mjög hrifnar af karlmönnum sem þarf að fínslípa og líður ekki á löngu áður en maður sér á eftir karl og kvendýrinu á leið heim í leigubíl. Léttlyndir karlmenn sem tjá oftar en ekki gleði sína með söng, syngja konur á sitt band. Ólei, ólei, ólei heyri ég þá syngja. Konur að mér virðist vita ekki sitt rjúkandi ráð og færast umsvifalaust allar í aukanna. Áður en þær sjálfar gera sér grein fyrir eru allir sem að málinu koma komnir í höfn. Deginum eftir, vakna dýrin frísk og endurnærð eftir ævintýri helgarinnar. Þau týna á sig spjarirnar sem þau fækkuðu yfir nóttina, brosa í spegilinn og valhoppa út í morgunsólina sem skín svo glatt á okkur íslendinga.
Þess ber að geta að síðast sást til sólar fyrir u.þ.b 10 dögum. Ég hef í hyggju að forrita teljara sem telur daganna á milli þess sem sjaldséðna gula uppátækið þarna á himnum lætur á sér kræla.
Það kann að vera að þetta sé óþolandi raus af minni hendi, en mér er svo innilega skítsama. Ég hef ekki gefið mig út fyrir að vera andlegur risi og það er ekkert leyndarmál að ég einfaldlega þoli ekki veðráttuna hér heima í hlaði. Núna þegar ég skrifa þessar línur er svo kalt að ég þarf að láta rafmagnsdrifinn hitablásara anda á mig heitu lofti, og dugar fjandakornið ekki til. Ég er barn guðs og ég á einfaldlega heimtingu á að fá að syngja og spóka mig í sólskininu meðan ég valhoppa um í áður óþekktri gleðivímu. En því verður víst ekki að heilsa. Ekki þetta sumarið.
Ég má ekki hugsa um blóðbaðið á Gaza strönd í dag, án þess að bólgna út af reiði í garð Ísraela. Það er auðvelt að falla í þá gryfju að dæma heila þjóð ábyrga fyrir verknaði sem þessum. Rétt eins og þegar blökkumaður fremur voðaverk í Ameríku, þá blæðir oft heill kynþáttur fyrir vikið. Maðurinn er ótrúlega mikið helvítis fífl. Já, ég geri mér grein fyrir því. Ég er maður og ef ég er settur í réttar aðstæður, þá er hægt að framkalla öll þau viðbrögð sem ég fordæmi í öðrum mannverum. Ég held að það sé mikilvægt að gera sér grein fyrir þessu. Maður frá góðu heimili með góða menntun, vel innréttaður, andlega þenkjandi, mömmustrákur eða hvað það eina sem hægt er að týna til sem flokkast undir dyggðir og góðan ásetning. Í réttum aðstæðum, brýtur viðkomandi gegn samfélagi sínu, siðgæðisvitund sinni og gerir hluti sem hann vissi ekki einu sinni að hann ætti til í skúmaskotum persónuleika síns.
Varðandi Ísrael, þá get ég skilið að þeir reyni eftir bestu getu að uppræta alræmda hryðjuverkamenn inn á gráu svæðunum, en þetta sem gerðist í dag þjónaði engum tilgangi. Tilgangslaust blóðbað í höndum fólks sem hefur sjálft verið hundelt og myrt í gegnum mannkynssöguna.
———————————-
Ég hef komist að því með vísindalegum aðferðum að söngur gagnast mér í að viðhalda gleði og ánægju sem óneitanlega fylgir léttu lundarfari mínu. Mér þótti þetta merkilegur fundur. Upp úr kvöldmat varð ég var við slen í mér. Mér kom þá til hugar hvort það gæti gagnast mér að syngja slenið úr mér. Mér til mikillar furðu, virkaði það og slen mitt hvarf eins og dögg fyrir sólu. Ég söng, Paper Doll, sem er mikið prýðislag sungið svo eftirminnilega af Mill’s Brothers. Í framhaldi af því söng á Ashtanga Jóga kver eitt, sem ég heyrði á jóga spólu sem mér áskotnaðist fyrr á þessu ári. Árangurinn var slíkur að ég hóf leit á internet-inu prýðilega og komst að því að söngur er notaður í meðferð á alzheimersjúklingum. Nú, rétt bráðum ætla ég að syngja sjálfan mig í svefn. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að athöfnin að sofa er í sérstöku uppáhaldi hjá mér.
Ég er nýgræðingur í örum og miskunnarlausum heimi viðskipta og þrátt fyrir að hafa lagt á minnið öll heilræði Donalds ljóta Trump, er eitt og annað sem mér er að lærast þessa daganna.
Ég hef áður nefnt hversu hryllilega mér gengur að leggja stund á samskipti við annað fólk og er óhætt að fullyrða að samskipti eru nánast óhjákvæmileg í hörðum heimi fyrirtækjareksturs.
Ég hef komist að því að ég er allur að vilja gerður til að gleypa nánast hvaða vitleysu sem er hráa, eða illa matreidda. Ég geri bara einfaldlega ráð fyrir því að fólk sé frekar vel innréttað og byggi á heilindum frekar en eigingirni og viðurstyggð. Ef einhver kemur að máli við mig og heldur úti langa útlistun á því hvers vegna ákveðin element virka á þennan veginn en ekki hinn, þá er ég tilbúinn til að trúa því heilshugar og er jafnvel tilbúinn að fara í sleik við viðkomandi, eða gefa honum munngælur til að innsigla ánægjuleg viðskipti.
En hlutirnir virka ekki alveg svona niður í Austurstræti og er ég að komast að því að þessi heimur hans Donalds Trumps er síður en svo fallegur. Ég hef því tekið nýjan pól í hæðina, þar sem allir héðan í frá verða í mínum augum drulluháleistar og viðbjóðar, þangað til þeir hafa sannað það fyrir mér á afdrifaríkan máta. Ég frá þessari stundu verð íslenski túrhesturinn sem allir eru alltaf að svindla á. Var ekki búið að lofa okkur vínsmökkunarferð, þar sem maður getur hellt í sig ótakmarkað? Spyr ég. En nei. Þessi ferðaskrifstofa hefur traðkað á mér í síðasta skiptið. Þessa daganna er að fæðast ný manneskja í Austurstræti og hún kallar ekki allt ömmu sína.
Ég er að verða búinn að fá upp í kok af appelsínugulri tilveru minni. Mér verður flökurt í aumingjans mallanum mínum í hvert sinn sem ég kem inn á þennan vef.Ég á hinn bóginn hef ekki orðið tíma til að njugga sjálfshyggju mína. Hvernig stendur á því og hvernig kem ég til með að lifa það af? Eins og allt það fólk sem vegur eitthvað í hita og þunga íslensks samfélags er ég orðinn kaupsýslumaður og þarf því að haga mér sem slíkur. Mér er engan veginn tildæmis fært um að tala við alla sem á vegi mínum verða. Það þarf ekki að fara fyrir brjóstið á neinum og alls engin ástæða til að taka því persónulega þó ég sé ekki að kasta á fólk kveðjur hægri vinstri. Ég einfaldlega kem ekki til með að hafa tíma til þess. Eins og segir í The Apprentice, “It’s not personal, it’s only business” og hef ég ákveðið að gera þau orð, ásamt svo ótal mörgum gullkornum Donalds ljóta Trump að mínum.
Já, ég þarf að klæða mig upp í sjakket, á degi hverjum og punta mig. Rífa úr mér nefhárin, raka eyrun, setja á mig vellyktandi svo eitthvað sé nefnt. Það halda það margir að það sé einfalt að vera kaupsýslumaður, en ég get fullvissað ykkur um að svo er ekki. Það útheimtir blóð svita og tár. Möguleikinn á að missa vini sína og fjölskyldu, vex svo um munar. En hverju skiptir það, þegar maður eignast seðla í staðinn. Sá sem á mest af seðlum þegar hann deyr vinnur.
Mér kom til hugar einstaklingur einn sem ég hef átt samskipti við og í sömu andrá varð ég heltekin af gremju og viðbjóði af áður óþekktum uppruna. Það skal undrun minni sæta að enn þann daginn í dag er ég ekki orðinn allskostar gallalaus. Ég stóð í þeirri meiningu að þetta væri allt að koma. Illa svikinn. Ekki æðrulausari og yndislegri en það að ég eyði dýrmætri orku minni í að hugsa allskonar kjaftæði um fólk sem er að öllu jöfnu sjálft uppfullt af bölvuðu kjaftæði. Mér líður eins og íslenskum ferðalangi sem fest hefur fé í pakkaferð til Costa Del Sol og verið svikinn um allskonar gúmmilaði sem átti að vera innifalið í verði. Ég heyri sjálfan mig kvarta við fararstjórann um hitt og þetta sem mér finnst aflaga í þessari ferð sem ég keypti dýrum dómum fyrir svo gott sem aleiguna.
Það kann að vera að flest af því sem ég skrifa um á þessum appelsínugula vef mínum komi lesendum fyrir sjónir sem orðagjálfur og málalengingar. Ég get þó fullvissað lesandann um að flest af því sem ég skrifa um, á sér einhverja tilveru, hvort sem er upp í haus á undirrituðum eða í hinum svokallaða raunveruleika sem við öll þykjumst upplifa svo áþreifanlega.
Maðurinn sem ég fór að hugsa um er ekki slæmur maður. Við eigum hinsvegar ekki skap saman. Ber mér að nefna að ég á mjög bágt með mannleg samskipti og þó sér í lagi síðustu daga, jafnvel vikur. Stundum tek ég mér hugarfóstur sem ég stundum nefni við þá sem slysast til að sitja til borðs með mér. Mér finnst það hinsvegar erfitt ef að allt sem ég tek mér í munn, er túlkað út frá einhverri einni ákveðinni stefnu, eða einni aðferð til að lifa lífinu. Það er ekki til aðeins ein leið til að upplifa hlutina. Það er alger fásinna að viðhafa stór orð um málefni af andlegum toga. Andleg málefni og andleg líðan er ekki eitthvað sem að mínu mati er hægt að taka og setja í hæfilega stóran kassa og merkja með þartilgerðum límmiða. Eru ekki upprót alls hins illa vegna þess að einhver í sandkassanum segir eitthvað eins og “Mín trúarbrögð eru betri en þín”. Er það ekki slæmska þessa heims í hnotskurn. Þetta er allt af sama meiði.
Jiddu Krishnamurti sem setti sig mjög á móti trúarbrögðum og trúarleiðtogum sagði ‘When Krishnamurti dies, which is inevitable, you will set about forming rules in your minds, because the individual, Krishnamurti, had represented to you the Truth. So you will build a temple, you will then begin to have ceremonies, to invent phrases, dogmas, systems of belief, creeds, and to create philosophies. If you build great foundations upon me, the individual, you will be caught in that house, in that temple, and so you will have to have another Teacher come and extricate you from that temple. But the human mind is such that you will build another temple around Him, and so it will go on and on.’.
Sama hvaða nafni sem það nefnist. Alltaf skal það vera tekið úr öllu samhengi, afskræmt og látið standa sem eitthvað tákn um það hvað hver manneskja heldur að hún sé. Nú þar sem ég er búinn að vitna í meistarann mikla jiddu Krishnamurti vill ég að lokum rifja upp fallega línu úr kvikmyndinni Mars Attacks, þar sem forseti Brandararíkjanna segir eitthvað á þessa leið þegar marsbúar eru að murka úr okkur lífið: “Why can’t we just all get along”.
Í fyrirtaks veðrinu á sunnudaginn, fór ég leið sem liggur niður í Öskjuhlíð. Ég fann mér laut, þar sem ég flatmagaði og hlustaði á fuglana tísta. Mér þótti ég komast í tengsl við náttúru og mína innri kirkju, eins hommalega og það nú hljómar. Mér varð það á fyrr í dag að tíunda þetta fyrir hjartalausu drullukuntunni henni fröken Sigríði. Hún brást ókvæða við. Rétt eins og ég hefði verið að viðurkenna fyrir henni kynferðislega óra þar sem hún væri í aðalhlutverki. Hún horfði á mig eins og ég hefði verið kosinn viðrini mánaðarins, með öllum töldum atkvæðum. Ég leit samstundis undan með tárin í augunum uppfullur af skömm. Ég hef alltaf verið kveif. Ég hef aldrei komist af í búningsklefum ætluðum alvöru karlmönnum með hárugar hreðjar. Hvernig er hægt að komast af í heimi sem þessum, þar sem fólk jafn illa innréttað og fröken Sigríður fær að lifa. Það eina sem ég vill er að dansa og syngja. Fyrir það vill andstyggilegt fólk á borð við hana druslu þarna, brenna mig á báli. Ó, þú vondi heimur.
Þessi veflókur er mér að skapi. Ég er farinn að hallast að því að hjörtu okkar Rúnars slái mjög svo í takt.
—————————
Ég ákvað snemma í dag að homma vefinn minn aðeins upp og gera hann appelsínugulan. Ég gerði þetta meðan ég drakk morgunkaffið mitt. Þegar ég hafði lokið áætlunarverki mínu lagðist ég aftur upp í rúm, rétt til að viðhalda eðalþunglyndinu sem ég hef lagt allan minn metnað í síðustu daga. Þegar líða tók á daginn gat ég ekki með nokkru móti haldið þetta þunglyndi út. Blessuð sólin skein og hitabylgja upp á heil 9 stig yfir landinu. Það örlar þó ennþá á þessu prýðilega þunglyndi, svo ég er að vonast til að ég geti lagst í kör, áður en að ég verð mér og nærstöddum skaðlegur sökum ánægju og gleði, sem er eitthvað sem engum er stætt að tileinka sér.
Það kann að skjóta skökku við að maður jafn andlega þenkjandi og ég skuli bölva, ragna, þusa og þrasa yfir þessu blessaða sumarveðri sem yljar okkur landsmönnum um hjartarætur þessa daganna. Mér er síður en svo skemmt verð ég að segja. Ég á bágt með að trúa því að einhver sé orðinn það æðrulaus að þessi viðurstyggð hafi engin áhrif á viðkomandi. Það má þó vel vera. Hvað veit ég um dyggðir eins og æðruleysi. Ég hef hinsvegar ákveðið að ég ætla ekki að láta bjóða mér lengur upp á þetta ógeð sem við erum svo djörf að kalla land. Hér er ekki hægt að búa, punktur. Það hefur ekkert með “grasið er grænna hinum megin syndrómið”. Það vill nú nefnilega svo andskoti skemmtilega til að grasið er bara einfaldlega grænna hinum megin. Hér er gaman að koma í heimsókn, en ekki sögunni meir. Ég vill gjarnan eiga kost á að fara út að hlaupa án þess að koma heim ofkældur með heilahimnubólgu. Það má vel vera að þessi viðhorf mín gagnvart ættjörð minni sé hægt að útleggja sem skortur á víðsýni, en það verður þá að hafa það. Mér er skítsama. Héðan verð ég að komast og það ekki seinna en fyrir 9 árum síðan. 9 ár segi ég. Fyrir 9 árum síðan, var ég staddur í Ísrael. Enn þann daginn í dag er ekki séð fyrir endann á því sem gerðist í Ísrael fyrir 9 árum síðan. Þetta líf er einkennilegt vægast sagt, en jafnframt mikið ævintýri.
Tímabundin tilvistarkreppa sem staðið hefur yfir í 35 ár. Ég tel að þessi setning lýsi lífi mínu með mikilli prýði. Bráðaþunglyndi helltist yfir mig þessa helgi. Bráðaþunglyndi er alveg sérstakt afbrigði af þunglyndi sem er jafn áreiðanlegt og íslenskt veðurfar. Talandi um íslenskt veðurfar, þá snjóaði í höfuðborginni. Það er kominn 21 maí og það snjóaði. Þetta er alveg nóg til að gera mig gersamlega brjálaðan. Það lætur því nærri að lundarfar mitt sem er vanalega blómum prýtt, hefur meira og minna hlaupið í kekki síðustu daga. Ég sem hef fengið orð á mig í gegnum lífstíð mína fyrir að vera dagfarsprúður, kærleiksríkur og gefandi í samskiptum mínum við mús og menn, þurfti að láta í minni pokann fyrir gremju, vænisýki og hugsunarhætti sem þar af 90% var mér og mínum gersamlega gagnslaus. Hver er ástæðan fyrir þessu. Ég satt best að segja geri mér enga grein fyrir því. Þar af leiðandi ætla ég að skrifa þetta á land og þjóð, ásamt þeirri staðreynd að ég óskaði ekki eftir því að fæðast og bla, bla, bla. Þetta er tugga, sem yfirleitt er tuggin í þessu hátíðarskapi. Ég gæti líka kennt Condoleezza Rice um. Hún stendur vörð um mannvonsku þessa heims. “Þið sem sprengið turnana mína, skuluð sko eiga mig á fæti!”, segir hún. Án fíflaláta, þá vill þetta fólk ekki að lausn verði fundin á viðhorfum heimsins til Brandararíkjanna. Það vill frekar ala á hatri og gera hvað sem í þeirra valdi stendur til að skara eld að hatursköku þessa heims. Já, bráðaþunglyndi mitt er Condoleezzu Rice að kenna. Hún og hennar líka eru að sigla með okkur öll í gin glötunar. Hún er viðbjóðurinn í þessu dularfulla máli.
United 93 er enginn subbubjóður. Fyrst þegar ég vissi að þessi mynd væri til, hélt ég að þarna væri á ferðinni Hollywood ógeðsvella um atburði 11. september 2001. Því fer víðsfjarri og kann skýringin að vera sú að leikstjóri myndarinnar er breskur. Samtöl og samskipti eru á eðlilegum nótum. Þá á ég við að öll samskipti fara fram eins og þau eigi sér stað í raunveruleikanum. Þær persónur sem eru mest áberandi út myndina eru rétt svo lauslega kynntar í byrjun, en ekki verið að tíunda óendanlega hver bakgrunnur þeirra er, til þess eins að maður samsvari sér með þeim. Sú aðferð er alveg ótrulega ófrumleg og leiðinleg. Þegar líða tekur á atburðinn, þá fer maður að finna áþreifanlega til með fólkinu sem mannar þessa vél. Hryðjuverkamönnunum er ekki lýst sem einhverjum villimönnum og drulluháleistum, heldur sem leiksoppum sem er ekkert minna skelfingu lostnir og saklausir farþegarnir. Þessi mynd er vel þess virði og leyfi ég mér að mæla hiklaust með henni.