SiggiSiggiBangBang

The Descent

Nov
11

Fyrir unnendur eðal hryllingsmynda mæli ég sérstaklega með bresku myndinni The Descent. Það er ekki oft að ég kemst yfir annað eins gúmmilaði, mig minnir að seinasta ræman sem skaut mér skelk í bringu hafi verið The Ring og það mun vera ein 3 ár síðan ég sá hana. The Descent er fram úr hófi ógnvekjandi. Ég er persónulega orðinn alveg sérstaklega leiður á amerískum fjöldaframleiddum metnaðarlausum klysjum, þar sem maður getur við hægan leik sagt til um hvað gerist næst. Eftir að ég sá The Descent hefði ég gjarnan viljað sjá heimildarmynd um gerð hennar, rétt til að fá tilfinningu fyrir því að þarna væri á ferðinni tilbúningur en ekki kaldlundaður hryllingur.

Lyf gegn homminu.

Nov
03

Ég sé fulla ástæðu til að taka gleði mína á ný. Nú? Því þá, kann einhver að spyrja sig. Jú, í gegnum tíðina hefur það háð mér ógurlega hversu hommalegur ég er. En nú líður það undir lok, því það er komið lyf gegn þessu. Það kallast hetracil. Á þeim tíma sem ég var að stálpast í ömurlegum Kópavoginum, var ég úthrópaður hommi og eyðnisjúklingur. Þar hefði hetracil komið að góðum notum, ég hefði með hjálp þessa lyfs stálpast eins og kynbræður mínir. Með því að taka þetta lyf reglulega hefði ég jafnvel getað þróað sérstakan áhuga á fótbolta, frímúrarareglunni, bílum, mótorhjólum og byggingarvinnu, eða hvað nú er sem gerir karlmann karlmannlegan. Þetta kæmi þá í veg alla þá teprulegu hluti sem ég tek mér fyrir hendur, verandi sá hommi sem ég er innst innan í mér. Ég get því borið mig vel og talað fjálglega um allskonar stuff sem þykir fínt að tala um í hópi alvöru karlmanna. Já, það er talsvert fyrir því haft að komast af í þessum heimi, en þökk sé velviljuðum vísindamönnum þá er róðurinn alltaf að léttast. Á dánarbeðinu geta þessir menn læknisfræðinnar unað sáttir við sjálfan sig, því þeir hafa unnið gott ævistarf í þágu almannaheill. Hvað er meira aðkallandi heldur en einmitt að vinna á þeirri vá sem hommus chronicus er, eða hvað skiptir meira máli í þessum heimi en það að geta látið sér standa almennilega, þannig að maður verði ekki sér og sinni fjölskuldu til háborinnar skammar vegna stinningarvandamála.

Heiti Potturinn.

Oct
19

Það er tilboð í gangi hjá iceland express sem þeir snillingar hafa gefið nafnið “heiti potturinn”. Þar sem ég á sand af seðlum og er alltaf að græða á tilboðum, keypti ég einn miða til London 6. desember. Miðinn kostaði 3.890.- en er einungis aðra leiðina. Ég hef enga hugmynd um það hvaða erindi ég á til London á þessum þriðjudegi, eða þá hvenær eða hvernig ég ætla mér að snúa aftur til þessa örlagalands. Þetta er það sem er svo frískandi við að vera klikkaður, maður getur gert svo til hvað sem er svo lengi sem það brýtur ekki í bága við reglur HaHa samtakanna.

Þá er það komið á hreint.

Oct
16

You Are An Introvert!

You’re not necessarily anti-social, but you do tend to need a lot of alone time.
You tend to think before you talk, which doesn’t make you the loudest person in the room.
While you aren’t outgoing, you are a good listener – and you tend to be a loyal friend.
And you enjoy your friends as much as any extrovert does, in smaller doses.
You’re more of a conversation over dinner type than a party animal… and so are all your friends..


Are You An Extrovert or Introvert? Take This Quiz 🙂

Þá liggur það ljóst fyrir. Það hafa meira að segja verið skrifaðar heilu bækurnar um það hvað það er að vera introvert. Þetta er frískandi sannleikur, sem ég rambaði á. Svona er guð nú góður.

General Motors

Sep
09

GM eins og hann er nefndur í daglegu tali er alveg sérstakt eintak af gerpi. Ég sé hann fyrir mér þar sem hann situr teyti með pabbastrákavinum sínum, þar sem hann heldur litla sjálfshyggjuræðu um það hversu vel hann sjálfur er gefinn og hversu litlan tilverurétt láglaunafólk og öryrkjar hafa. Hinn frábæri GM, sá hinn sami og hélt úti kvöldþætti sem var svo viðbjóðslegur að upptökur af honum væru vel nýtanlegar til að pína íslendinga sem viðhafa óíslendíska hegðun. Óíslendísk hegðun væri hegðun sem að félli ekki í kramið hjá GM og vinum hans. Óíslendísk hegðun væri viðhöfð af íslendingum í meðal launaflokki sem að steyptu sér ekki í óþarfa skuldir til að viðhalda fallegri ímynd út á við. Það væri hægt að sópa þeim saman í lítið herbergi þar sem væru uppsett “KB Banka stór” sjónvarpstæki þar sem eina sjónvarpsefnið væri “Laugardagskvöld með Gísla Marteini”. Hversu lengi væri hægt að halda geðheilsu við þessháttar kringumstæður. Ég hugsa að maður myndi guggna á allri skynsemis hugsun brotna niður, ákalla mömmu og fara í kjölfarið að haga sér eins og hvert annað það varnarlausa fórnarlamb sem pakkar vinstri rassvasa með 3-4 kreditkortum, öll í vanskilum meðan menn eins og GM drekka blóð þeir sem þjást af viðbjóð og drullu sem menn eins og hann hafa í uppfinningasemi sinni búið til.

Tóti Leifs fær lof fyrir fallega mynd. Henni var stolið af heimasíðu hans.

tónlist

Sep
06

Ég hef undanfarið verið að hlusta á tvær alveg dásamlegar hjómsveitir. Sú hin fyrri er hljómsveitin tunng og kemur að því ég best veit frá Bretlandi. Sú hin síðari heitir Efterklang. Í mínum bókum til þessa hefur ekki neitt frá Danmörku verið þannig háttað að ég geti sársaukalaust lagt blessun mína yfir það. Ég hef alveg sérstakan viðbjóð á öllu því sem er skandinavískt, þá hef ég umfram viðbjóð á Svíþjóð og Noregi. Ég hef ekki enn fundið ástæðu fyrir því hvers vegna ég sé svona mótfallinn Skandinavíu, ekki aðra en þá að það er með eindæmum viðbjóðslegt fólk sem kemur frá þessum tveimur löndum. Hinsvegar er Efterklang frá Kaupmannahöfn og það má með sanni segja að ég sé lamaður yfir gæðum þessarar grúppu. Já, þetta kann að skjóta skökku við.

skæs unglingar

Sep
03

Ég viðurkenni að þessar helvítis rósir voru ekki alveg að veita mér þá gleði sem ég vonaðist til. Með öðrum orðum þá var þetta uppátæki mitt ekki nógu skæs. Þess ber að geta að “skæs” er orðatiltæki sem var mjög mikið notað á ömurlegum unglingsárum mínum, þegar ég var að reyna að finna mér tilverurétt í viðbjóðslegum Kópavoginum. Alveg síðan þá hef ég ekki almennilega tekið Kópavoginn í sátt. “Að vera skæs” var sagt um eitthvað sem á þeim tíma þótti flott, kúl, smart eða þannig úr garði gert að það var hægt að setja nafn sitt við það. Ég get ekki séð að ég hafi þótt skæs á þessum árum. Ég veit svo sem ekki til að ég sé eitthvað kúl nú til dags, en ég var það svo sannarlega ekki þegar ég var að vaxa úr grasi sem unglingur. Það er alveg ferlegt að vera unglingur, ég man það mjög glögglega. Ég kenni í brjóst um unglinga, það er bara andskoti mikið fyrir því haft að komast af í þessum heimi.

rósir

Sep
02

Ég ákvað að fríska aðeins upp á síðuna mína. Mér persónulega finnst þetta vel til fundið, en það kann þó að vera að einhver sé á öndverðum meiði hvað það varðar. Þessar rósir bera þess merki hversu dásamleg viðhorf mín eru til lífssins þessa köldu vetrardaga.
Er þetta skæs eða hvað??????
Þessi stúlka var mér innblástur. http://www.ridaallen.com
Hún skrifar fallegar rómantískar skáldsögur sem eru afskaplega skemmtilegar aflestrar. Bókin “You have been disconnected” er magnþrungin og gífurlega gefandi.

Þaulhugsað

Aug
21

Ég er orðinn svo þreyttur á að sjá síðustu blogfærslu mína efst svo ég ákvað að skella þessari inn. Þessi færsla kemur einnig til með verða vitni þess að ég er ekki ennþá dauður, heldur sprellilifandi öllum nærstöddum til ama og leiðinda.

vírushernaður

Aug
10

Hverjum í fjárans helvíti kemur það til hugar að það sé eitthvað eftirsóknarvert að vinna við það að laxera windows tölvur. Það er ekkert eins óspennandi í heimi hér verð ég að segja. En guð sé oss næstur hvað þetta er atvinnuskapandi. Nú til dags leggur fólk að jöfnu það að vera áhugamaður um tölvur og tölvumál og það hinsvegar að hafa getu til að hreinsa vírusa úr windows dollu. Afhverju? Það er að ég held, allavega fyrir mitt leiti ekkert eins ömurlegt eins og að sitja yfir þessum vélum og glíma við þennan meðfylgjandi viðbjóð. Það er frá mínum bæjardyrum séð jafn skemmtilegt og að ormahreinsa lúðu, og hversu skemmtilegt er það.
Það sækir að mér þreyta og lífsleiði við að lesa þetta blog yfir.

offita

Aug
06

Eftir allt gúmmilaðið sem ég hef látið oní mig á ferðum mínum til Hollands og Ítalíu finn ég að þvermál mitt er orðið meira en það var. Þetta er afar slæmt, þar sem ég hef í gegnum tíðina þurft að hafa talsvert fyrir því að ná af mér aukakílóum. Þessar stöðugu vangaveltur um kjörþyngd og ákjósanlegt fitumagn líkamans fékk ég að gjöf frá móður minni sem var með fitu á heilanum. Mér er það fullljóst að það vill enginn eiga feitan vin eða maka, svo ég hef mig allan við.
En guð sé oss næstur hvað Ítalir kunna að brasa mat. Það gengur hreinlega allt út á að kaupa í matinn, laga mat, og tala um mat. Ég hef held ég aldrei á ævinni notið þess eins að éta og spekúlera í mat.

Hér í súpumörkuðum er úrvalið ekkert minna en ömurlegt. Ég verð að viðurkenna að ég fann fyrir þunglyndi og viðbjóð eftir ferð í 11/11 í gærkveldi. Djöfuls verðlag líka. Andskotans vitleysa er þetta. Ég gekk út með 2 litla poka sem að kostuðu mig 4000kr. Djöfullinn sjálfur.

Nú þarf undirritaður að fara að gera eitthvað í sínum offitumálum. Síðastliðinn vetur stundaði í líkamshreyfingar í svitapungaræktinni niður í Laugardal. Þangað fara allir ungir menn á uppleið til að þjálfa á sér skrokkinn. Ég gat ekki hugsað mér annað en að gera það sem allir íslenskir athafnamenn gera að loknum erfiðum degi á skrifstofunni. Nú hinsvegar hef ég ákveðið að stíga aldrei framar inn á líkamsræktarstöð. Frá mínum bæjardyrum séð eru líkamsræktir helber óbjóður. Samansafn af sérstaklega ógeðslegu fólki. Nei, nú fer ég snemma dags út að skokka og ég kann því alveg afskaplega vel.

Siciliana a Milan

Jul
26

Þá er förinni heitið til Mílanó. Þann 1. ágúst kem ég svo til með að angra samlanda mína aftur með andstyggilegri nærveru minni. Nú hef ég verið hér á Sikiley í mánuð og með sanni hefði ég til að byrja með talið það víst að ég gæti búið hér. Sannleikurinn er hinsvegar sá að ég mig langar alveg jafn mikið til að deyja hér og heima í rassgati. Mér eru minnistæð orð Vaffarans, (sem er afar vel lukkað eintak af manneskju) þar sem hún sagði að það væri sama hvert á land mann bæri, alltaf tæki maður sjálfan sig með. Vaffarinn víðfrægi notaði hinsvegar ekki eins oft “maður” í setningunni eins og sveitalúðinn ég.
Fyrstu vikurnar þótti mér lífið í hverfinu afskaplega litskrúðugt, og sérstaklega aðlaðandi. Öðru hverju gleður stúlka ein nágranna sína með ómótstæðilegum kareoke söng og verða oftast fyrir valinu ítölsk popp lög vel til þess fallin að berja sig í hausinn yfir. Í öðru húsi eru stöðug rifrildi, stundum hinsvegar verð ég að viðurkenna að ég geri ég ekki mikinn greinarmun á hvort sé verið að rífast eða halda uppi eðlilegum tjáskiptum. Tungumálið inniheldur sérstakan óm af óánægju og ótímabærri reiði. Ég held að ég átti mig á að þegar fólk fer að kasta búsáhöldum í hvort annað þá sé það sennilegast rifrildi sem á sér stað. Ég er hinsvegar farinn að skilja meira í ítölskunni og þykist þess viss að það tæki mig ekki svo langan tíma að verða fluent. Sem ég segi að í fyrstu þótti mér þetta rómantískt, en í gærdag sat ég á svölunum og var að reyna að einbeita mér að lestri, þegar einn nágranninn tók sig til og öskraði og gargaði á barnabörnin sín, ég í þeirri andrá áttaði mig á því að mér þótti þetta ekkert lekkert, allur þessi hamagangur. Og ég lét hugann reika heim á friðsælan laugaveginn, þar sem fullir íslendingar búnir að pissa í buxurnar öskra og garga fyrir utan gluggann hjá mér langt fram á morgun um helgar. Ég hlakka til að fara til Mílanó. Ég hef ætíð verið hrifinn af stórborgum, og mér skilst að Mílanó sé ein af fjölmennri mengunarpyttum í henni Evrópu.