SiggiSiggiBangBang

Dauðataflið

Oct
12
[media id=32 width=520 height=436]

Árið 1991 var Twin Peaks vinsælasta þáttaröðin í sjónvarpi, Jón og Gulli voru með útvarpsþátt sem ég hataði, Kópavogshælið var ennþá til, sígarettur þóttu töff, Kaupþing hét Búnaðarbankinn og var banki niðursetninga, sjávarútvegur var stærsta tekjulindin og Hemmi Gunn þótti ótrúlega fyndinn.

Á þessu prýðilega ári tókum við okkur saman nokkrir framúrskarandi Kópavogsbúar og hófum tökur á stuttmynd, sem bar vinnuheitið: Dauðataflið. Söguþráð myndarinnar læt ég alveg vera að tíunda.

Eitt og annað varð til að myndin var aldrei kláruð, þó aðallega blómlegt félagslíf eins aðalleikarans. Stuttmyndin endaði svo að lokum í pappakassa í geymslu og hverfulleiki lífsins skipaði okkur félögunum hverjum í sína áttina.

Ekki alls fyrir löngu gerði ég mér sérstaka ferð í Kópavoginn til að hafa upp á þessum gúmmilaðikræsingum. Hef ég svo dundað mér við að splæsa þessu saman á eins kryptískan máta og mér mögulega var unnt.

Það þarf engan háskólamenntaðan til að sjá undir hvaða áhrifum myndin er. Einu atriðinu var þó stolið í kærleiksríku hjarta Kópavogsbæjar um hábjartan dag. Hvaða atriði er það?

Myndina prýða eftirfarandi listamenn:
Steinn Skaptason
Stefán Grímsson
Þorsteinn Óttar Bjarnason
Kalli( man ekki hvers son)
Sigurður Þorfinnur Einarsson

Bæjarmelir

Oct
10
[MEDIA=31]

Fyrir hartnær tuttugu árum síðan mætti ég með VHS upptökuvél í Bæjarvinnuna í Kópavogi. Þetta var á þeim árum sem Kópavogur var sveitarfélag afmarkað tveimur skítalækjum; einum fyrir norðan bæinn og öðrum sunnan meginn. Nú er Kópavogur á stærð við Nýju Jórvík og í stað skítalækjanna, rennur í gegnum bæinn lækur með eitt það tærasta ferskvatn sem finnst á Íslandi. Lækur sem álfadrottningar lauga sig í.

Á þeim árum sem ég vann sem handverksamaður hjá Kópavogsbæ, kynntist ég dýrðlegum manni af gamla skólanum sem átti eftir að reynast mér afskaplega vel. Hann hét Sveinn Sverrir Sveinsson. Hann bjó yfir miklum orðaforða og hafði ríka og skemmtilega kímnigáfu.

Sveinn hafði gaman af að vinna með höndunum. Oft var hann að dytta að einhverju sem hann hugðist svo gefa barnabörnunum sínum. Eitthvað sem einhver hafði hent, fann Sveinn not fyrir. Þannig að barnabörn Sveins fengu stundum að gjöf, stereo græjur, með ósamstæða hátalara, og fleira í þeim dúr. En umfram allt, elskaði Sveinn að segja sögur. Sögurnar gerðust oftar en ekki í neðribyggðum, eins og hann kallaði þær. Sögurnar voru kallaðar í bæjarvinnunni kúkasögur, og þó svo að þær væru stundum andskoti grófar var ekki til sú manneskja sem ekki hafði yndi af að heyra Svein segja frá.

Sveinn var mjög kjaftfor og ef honum fannst á sér, eða sínum brotið, mátti sá hinn sami vara sig. Hann notaði hvert það tækifæri sem honum gafst til að hnýta í fólk, sem taldi sig æðra verkamanninum. Hann hafði af því mikið gaman. Stjórnendur og aðrir fyrirmenn, lögðu lykkju á leið sína til að reita ekki Svein til reiði.

Stuttu eftir að ég tók upp VHS myndirnar hætti ég að vinna fyrir Kópavogsbæ og hóf spítalastörf. Líf mitt tók óvænta stefnu og ég fór erlendis. Í einni viðkomu hérna heima árið 1996 hitti ég Svein. Hann var hinn hressasti og sagði mér eitt eða tvö ævintýri sem hann hafði komið sjálfum sér í. Þetta varð í síðasta skiptið sem ég hitti þennan vin minn. Síðan þá fékk ég einstaka sinnum fréttir af honum. Það var svo á síðasta ári, þegar ég hitti sameiginlegan kunningja okkar að ég fékk að vita að Sveinn hefði dáið 2004.

Hugmynd mín í upphafi var að birta einungis fáein myndbrot með Sveini, en svo teygðist úr þeim á klippiborðinu, og fyrir utan Svein má sjá: Hörð Júlíusson, Ragnar Lárusson, Árna Björgvinsson, Svein Wiium, Sölva Jónasson, Hreim og Sigurð Jakobsson.

Flestir þeirra sem ég vann með á þessum tíma, hef ég ekki hitt síðan þá. Sumir eru horfnir yfir móðuna miklu, aðrir eru eftir því sem ég best veit ennþá að vinna hjá Bænum. Í mínum huga þá líta þessir kallar ennþá bara nákvæmlega svona út. Þeir hafa ekkert elst, og fyrir mér þá eldast þeir ekki neitt, ekki fyrr en ég hitti þá.

Lífið er einkennilegt.

Eldri blog um Svein:
Hann er einn tittlingur! April 8, 2007 01:04
Svenni October 21, 2006 20:10