Ingibjörg Þorbergs

Mikil hamingja er útvarpsþátturinn Óskastund. Hin fallega og yndislega Gerður G. Bjarklind leikur óskalög hlustenda. Óskalögin eru að megninu til gömul íslensk dægurlög með hetjum á borð við Hauk Morthens, Ása í bæ og Ingibjörgu Þorbergs. Rétt í þessu spilaði Gerður upptöku frá 1955 með hinni dásamlegu Ingibjörgu. Í kynningu sinni á laginu, minntist hún þeirra tíma sem að Ingibjörg starfaði hjá Ríkisútvarpinu. Fallegri lofræðu hef ég ekki heyrt í útvarpi.

Þegar ég var strákur bar ég út blöð í hverfinu mínu. Að vera blaðberastrákur er í minningu minni ein sú mesta óþverravinna sem ég hef unnið. Enn þann daginn í dag fæ ég martraðir um að ég sé búinn að gleyma húsnúmerum eða ég hafi sofið yfir mig og áskrifendur eru farnir að hringja inn kvartanir. Einu góðu minningarnar sem tengjast útburði blaða eru blaðberabíó Þjóðviljans og Ingibjörg Þorbergs.

Hún var þá búsett í götunni minni en var ekki áskrifandi. Hún kom að máli við mig og gerði við mig samning um að bera út til sín aukablað á Laugardögum. Ég vissi að hún hafði starfað í útvarpi, og fannst þar af leiðandi mikið til þess koma að vera orðinn málkunnugur svona frægri konu. Hún sagði mér að hún vildi frekar borga mér beint, heldur en að vera í áskrift hjá Morgunblaðinu. Ég skil það vel, enda Morgunblaðið leiðinleg og ljót maskína.

Í hvert skipti sem ég bar út blaðið til hennar, passaði ég mig á að staldra aðeins við. Ég hreyfði þá stundum blaðið til í lúgunni í þeim tilgangi að hún yrði mín vör. Stundum þurfti ég ekki einu sinni að leika hundakúnstir, því oft tók hún bara á móti mér þar sem ég kom þrammandi upp stigann, alltaf með eitthvað góðgæti eða aukapening. Ingibjörg Þorbergs var hápunktur ferils míns sem blaðberi. Af öllum þeim sem ég bar út blöð til, þá man ég bara eftir henni.

Guð blessi þessa dásamlegu konu.

Guð blessi Gerði G. Bjarklind.

One thought on “Ingibjörg Þorbergs”

Comments are closed.