Kærleikur í 101

Karlmaður á fertugsaldri, drekkur ekki, reykir ekki, stundar ekki hórdóm, borðar lífrænt ræktað, er umhugað um að betra sjálfan sig, lifa í kærleik, elska náungann, mennta sig, ná frægð og frama í viðskiptum, -brá undir sig betri fætinum og hrækti á tvo jeppa í dag. Umræddur karlmaður og hreystimenni fór út að hlaupa 10 kílómetrana með Æpöddu á hausnum. Er hann var staddur á Hringbrautinni keyrði – herra ómissandi; er á leiðinni á mikilvægan fund; er að flýta mér svo mikið að ég þarf ekki að taka tillit til meðbræðra minna, -næstum yfir hann. Hlauparinn sem átti ekkert til nema ást og umburðarlyndi, tók sig þá til og hrækti á aftari hluta jeppabifreiðarinnar. Athæfið kom honum sjálfum á óvart. En þó var annað sem kom honum ennþá meira á óvart, það var að um hann fóru straumar af gleði og hamingju. Hann ákvað með sjálfum sér að þetta kæmi hann til með að endurtaka við fyrsta tækifæri. Yfirgangur og ókurteisi í umferðinni á ekki að líðast.

Eftir að hafa hlaupið heilan hring, sem reiknast eftir vísindalegum aðferðum sem u.þ.b 10 kílómetrar varð vammlausi hlauparinn var við risastóran pikköpp sem búið var að leggja á gangstéttina, þannig að enginn fótgangandi komst framhjá honum. Mest langaði honum til að stökkva upp á húddið á pikköppnum, og fóta sig leið sem liggur yfir þakið, niður á pallinn og svo áfram gangstéttina. Hann reiknaði í huganum skemmdirnar sem hann kæmi til með að valda, dróg það frá innistæðu sinni á reikningnum í Landsbankanum og fékk út að það borgaði sig að öllum líkindum ekki að láta það eftir sér. Hvatvísi vék fyrir köldu raunsæi. Hlauparinn neyddist til að taka krók út á götu til að komast framhjá. Hann leit sem snöggvast á bílinn sem var stífbónaður. Áður en að hann vissi af gekk hrákan upp úr honum yfir glansandi 10 milljón króna jeppann. Hlauparinn brosti; honum leið vel á sálinni.

Í Æpöddunni hljómaði þetta lag: [MEDIA=10]

Hann hljóp þann spöl sem hann átti heim í hlað, fór í sturtu, og bað Guð almáttugan í himinhæðum um að gera þetta að góðum degi. Honum varð að ósk sinni.

One thought on “Kærleikur í 101”

  1. Já það er líka hægt að míga á hurðarhúninn á svona bifreiðum, einnig er hægt að hrasa á hliðarspegilinn og slasa sig, hringja í lögregluna og tilkynna atburðinn og fara svo í prívat mál við eiganda bifreiðarinnar. Einnig má hringja í beint númer hjá vakthafandi varðstjóra umferðalögreglu sem er 4441730 og tilkynna ólöglega stöðu bifreiðar, vert er að tilkynna einnig tíma þegar hringt er og bíða svo þar til lögregla kemur á staðinn, ef tilkynnenda finnst líða of langur tími líða þ.e.a.s lögreglan sinnir ekki tilkynningunni er hægt að kjæra það, en borgari getur ekki kært meðborgara þótt viðkomandi hafi gerst brotlegur við 4 gr., 5 a gr. og 7 gr. Umferðarlaga. Ef næst í ökumann má benda honum á að umferðarlögin eru á netinu undir urlinu http://www.althingi.is/lagasofn/nuna/1987050.html
    Lifið heil.

Comments are closed.