Skrifstofa á Larsbjörnstræde

Meðan samlandar mínir, festu neikvætt fé í lúxusbifreiðum og húsum sem þeir rusluðu út úr til að rýma fyrir því nýjasta og flottasta, allt í samræmi við fegurðarmat Völu Matt, – bjó ég í misskemmtilegum holum, stundum við frekar bágbornar aðstæður í Reykjarvíkurborg. Ég lifði ekki hátt þessa daga, þar sem vigt mannsins lá í hversu miklu drasli hann gat sankað að sér til að verða ekki eftirbátur náungans.

En nú þegar þessir sömu menn og litu niður á mig fyrir að eiga ekki bíl, grenja úr sér augun í athugasemdarkerfi eyjunnar, eða í pilsfaldi morgunblaðsins, er ég sjálfur umrenningurinn orðinn virðulegur kaupsýslumaður í útibúi eigin samsteypu í Kaupmannahafnarborg.

Ég er með skrifstofuaðstöðu í eftirsóttu hverfi í borginni – Larsbjörnstræde, sem þykir mjög 101/skæs á danskan mælikvarða. Þegar ég mæti til vinnu að morgni, brosa stúlkurnar í móttökunni og hlæja að öllum bröndurunum mínum, sama hversu andskoti lélegir þeir eru – og þeir eru lélegir, meira að segja mjög lélegir. Þær fá borgað fyrir að vera almennilegar, rétt eins og allir hjá þessu andskotans skrifstofufyrirtæki.

Já, ég er með skrifstofu hjá fyrirtæki sem sérhæfir sig í að vera með skrifstofur fyrir fyrirtæki eins og mitt. Hér eru allir klæddir í glæsileg jakkaföt, með plokkaðar augabrúnir og ljósbakað hörund. Ég sjálfur er í strigaskóm, skreyttum málningaslettum, arabahúfu á höfðinu, órakaður, með nasahár sem hægt er að flækja sig í komir þú inn fyrir mitt comfort zone.

Um daginn hitti ég tvo American psychos, sem vildu endilega taka í höndina á mér og kynna sig. Ég var á leiðinni á pisseríið og hafði engan tíma í þessa viðkynningu, sem var í mínum huga alveg tilgangslaus. Ok, ég viðurkenni það, ég hræðist menn í glansandi jakkafötum, ég held þeir viti eitthvað meira en ég veit um lífið og því óttast ég þá. Þeir vita þó ekkert meira en ég. Menn sem þurfa að skrúbba sig og plokka á hverjum morgni til að fúnkera í kjötheimum, geta ekki haft mikið sjálfsálit.

Mér er þó andskotans sama um einhverja kalla sem eiga eitthvað skrifstofufyrirtæki. Ég kikna ekki í hnjánum og finnst það ekkert merkilegra en hvað annað sem mannfíflið tekur sér fyrir hendur. Mér finnst það sem ég er að gera, heldur ekkert merkilegt. Ég hef gaman að því, en mér finnst það ekki gera nokkra grein fyrir því hver ég er eða hvað ég stend fyrir. Ég er engu nær um hver ég er eða hvert ég stefni út frá hvað ég starfa við. Fáranlegar hugmyndir mannfíflsins.

En nú má ég ekki vera að þessu. Ég ætla að skreppa út og Strik og kaupa mér möndlur sem er búið að sjóða í sykurlegi.

6 thoughts on “Skrifstofa á Larsbjörnstræde”

  1. þetta er ósanngjarnt mig langar lika í brenndar möndlur og hana nú

  2. Má benda þér á að stærsti swinger klúbbur Norðurlanda er rétt fyrir sunnan þig í Valby, steinsnar frá ljósmyndastúdíói mágs míns, bara svona hugmynd ef þér færi nú að leiðast veran þarna í Khöfn.

  3. 🙂 Ég var með svona spláss í Hollandi um tíma en fékk svo nóg af jakkafötunum og fór aftur í faðm listamannanna í ruslið og rykið.

    Þessar möndlur hljóma nú alveg fyrirtaks!

  4. Næst þegar svona menn reyna að heilsa upp á þig þá skaltu korra hátt (eins og hrafn) og skalla þá svo snöggt.

    Þeir reyna þetta ekki aftur.

Comments are closed.