Vegurinn og dyggðin

Til að geta hugsað tímamótahugsanir, er nauðsynlegt fyrir mig að næra anda minn. Menn sem hugsa tímamótahugsanir uppskera virðingu meðbræðra sinna. Þannig er það bara í lífinu. Þrá mín eftir virðingu og viðurkenningu, er brennandi heit. Ef þau bara vissu…..

Ég er andans maður, og til að víkka skilning minn á lífinu, glugga ég í andlegar bókmenntir. Á frídegi verslunarmanna, tók ég hús á Eymundssyni, í þeim tilgangi að festa fé í einni mestu lífsspeki sem skrifuð hefur verið: Bókin um veginn og dyggðina – eftir hinn hressa og jafnframt spaugsama Lao Tzu. Eftir kaupin, settist ég að kaffidrykkju með góðvini mínum á Hressingarskálanum. Hvaða bók er þetta, spurði hann fullur vanþóknunar. Ég sagði honum það og þrátt fyrir andstöðuna sem ég upplifði las ég fyrir hann nokkur ljóð úr Tao, meðal annars þetta:

Fylltu skálina að börmum
og það flóir út af.
Haltu áfram að herða sverðið
og það hrekkur í sundur.

Sankaðu að þér auðæfum
og þeim verður auðveldlega stolið.

Heimtaðu vegsemd og þakklæti
og þér mun illa farnast.

Vegna þess mun vitur sál
vinna störf sín
og láta lítið á sér bera.

Finnst þér þetta ekki fallegt, spurði ég vin minn sem var allur orðinn mýkri. Ekki gat hann neitað því. Við kláruðum úr bollunum okkar og gengum út. Er við göngum framhjá Eymundsson, biður hann mig blíðlega að bíða meðan hann kaupir sér sjálfur eintak af þessari fínu bók. Ég brosi fallega, hamingjusamur í sálinni yfir að hafa innspírað þennan ágæta vin.

Sólin skín og fuglarnir kvaka. Róni hóstar. Meðan ég bíð fyrir utan, ástunda ég í huganum lágmarks mótstöðu við lífið og mína persónulegu tilveru. Mér líður vel. Það er friður innra með mér. Ein og ein kona horfir til mín brosandi. Þær skynja mitt andlega góðæri, hugsa ég. Ég er vakinn af þessum hugrenningum þegar vinur minn kemur blaðskellandi út úr Eymundsson. Ég keypti mér lífsspekibók eftir Búdda, segir hann hróðugur. Hver andskotinn %$&#!%#&”!$, segi ég við sjálfan mig en reyni að opinbera ekki gremju mína. Mig langaði til að spyrja hann því í rassgatinu hann keypti ekki Bókina um veginn og dyggðina, hvort hún væri ekki fjandans nógu góð fyrir hann? En mér tókst að dylja tilfinningar mínar, sem er umtalsvert afrek.

Við héldum hvor sína leiðina. Ég fótaði mig eftir Veginum hans Lao Tzu og hann hlammaði sér undir tréð með Búdda.

Næst þegar við hittumst er komið annað hljóð í strokkinn. Eftir að hafa setið, sötrað kaffi og borið saman bækur okkar, vissum við ekki fyrr en við vorum farnir að hnakkrífast um hvor væri betri: Búdda eða Lao Tzu. Eftir að hafa slegist með kennisetningum um stund missi ég stjórn á skapsmunum mínum og slæ vin minn utan undir. Ég horfi á þennan mann, sem einu sinni var vinur minn, tútna út af reiði. Hann grípur með báðum höndum um borðið og reynir að velta því við, en tekst það ekki, helvítis fáráðurinn, þar sem borðið er boltað niður. Það var þá sem ég gríp tækifærið og pota vísifingri í augað á honum. Hann argar og gargar af sársauka. Ég hlæ og skríki af kátínu, en hlátur minn kafnar þegar ég fæ yfir mig kaffigusu úr tvöfalda capputjínó bollanum hans. Ég rek upp stríðsöskur og kýli hann í magann og þegar hann er kominn í keng, sparka ég í hausinn á honum.

Honum var nær að dissa Bókina um veginn og dyggðina, eftir hinn mikla risa í andans heimi: Lao Tzu.

6 thoughts on “Vegurinn og dyggðin”

  1. Þessi slagsmál ykkar voru reyndar algerlega bráðfyndinn andlegu risarnir ykkar 😉 Og ég elska ykkur báða

  2. Það er ekki að sjá annað en að þig félagarnir séu vel andlega upplagðir af þessum fræðum ykkar.

  3. Það er of langt síðan ég hef lesið í þeirri góðu bók sem um veginn. Ég ákvað að lesa tvær dyggðir fyrir daginn. Af tilviljun opnaði ég hana á orðum um hófsemi (LIX. HÓF ER BEST). Þar er að mínu viti að finna mjög gáfuleg orð um hvernig lifa skal farsæla ævi. Ég mæli með lestri á þeim orðum sem og næstu dyggð (LX.). Þar er að finna enn gáfulegri orð um hvernig andar fyrri tíma og stjórnmálamenn ná best samkomulagi. Þetta er viska fyrir alla réttsýna stjórnmálamenn sem byrjar á þeim dulúðugu orðum: „Að stjórna stóru ríki er líkt og að sjóða litla fiska“.

  4. Meistari, orrahríð ykkar andlegu risanna verður lengi í minnum mínum haft, og þakka ég ykkur fyrir það. Megi þið lengi lifa 🙂

Comments are closed.