Þeir eru að koma að ná í þig Barbara mín

Manninum er ekki hollt að vera sjálfum sér of eftirlátur.* Ég er alinn upp fyrir sunnan og norðan skítalæk, þar sem hús voru byggð í áföngum og af vanefnum. Sem ungur maður lærði ég að nægjusemi væri dyggð sem eftirsóknarvert væri að tileinka sér. Heraga var haldið upp á heimilinu og ekkert látið eftir okkur systkinunum. Mér til óbærilegra leiðinda var tildæmis ekki keypt inn á heimilið myndbandstæki þegar þau komu á markað og slógu svo eftirminnilega í gegn. Nammidagar voru á laugardögum, og bara drulluháleistar og sóðadónar úr Reykjavík mauluðu nammi á virkum dögum.

Er ég fór að bera ábyrgð á sjálfum mér, gerði ég eins og flestir sem alast upp við harðræði af þessari stærðargráðu: Ég flippaði gersamlega út. Þegar ég hafði flippað út í nógu mörg ár lofaði ég sjálfum mér bót og betrun. Ég snurfusaði mig og gerði mig fínan. Ég setti mér reglur og tók til við að aga mig. Ekki leið á löngu þangað til ég var farinn að lifa eftir svipuðu reglusetti og í æsku. Ekkert nammi á virkum dögum. Hætta að reykja. Hugleiðsla tvisvar á dag. Engan sékur og ekkert majones. Hlaupa 80km á viku. Hætta að baktala fólk. Bjóða öllum sem ég hitti góðan daginn. Eyða aðeins 20 þúsund í mat yfir mánuðinn. Missa 8 kíló á tveimur mánuðum. Og nú það nýjasta: Viku Facebook straff.

Já, það kemur heim og saman. Ég hef hangið á facebook, meira en ég kæri mig um. Ég þoli illa þegar ég er farinn að gera eitthvað sem mig langar ekki að gera, en geri samt. Að undanskilinni þeirri bráðskemmtilegu aðgerð að póka, svo ekki sé minnst á ánægjuna sem fylgir því að þiggja pók, er facebook tilgangslaust rusl. Ég hef því sett upp í tölvunni minn hugbúnað, sem ég hef stillt þannig að þegar ég reyni að fara inn á facebook, birtist síða sem á stendur: “They are coming to get you Barbara!” Hver er svo þessi Barbara kann einhver að spyrja sig.

[media id=196 width=520 height=390]

* Pistill dagsins hófst á alhæfingu um mannskepnuna. Ég hef gert svona áður og virðist þetta virka vel á þá kirtlastarfsemi líkamans sem sér um að dæla vellíðunarefnum inn í heilann minn. Með því að alhæfa á þennan máta, þegar ég er í raun að tala um sjálfan mig, líður mér eins ég sé hluti af heild, en ekki skrítni einsetukallinn í sætabrauðshúsinu.

7 thoughts on “Þeir eru að koma að ná í þig Barbara mín”

 1. Rétt í þessu var gamall vinur minn, sem ég hef ekki heyrt í síðan 1997, að óska eftir vinskap við mig á facebook í gegnum Emil. En ég læt mig ekki. Hann er líka Ísraeli og má því vera með höfnunartilfinningu í viku.

 2. Mér líður
  eftir 32-bita addressu

  Mér líður vel
  mér líður illa
  mér líður glaður
  mér líður leiður

  :.:Ég var einu sinni fáviti,
  en í dag er ég búinn að sjá villur vegar míns.
  Í staðinn beiti ég sjálfan mig nýju ofbeldi
  sem mér datt ekki í hug að nota áður :.:

  Mér líður heitt
  mér líður kalt
  mér líður þurrt
  mér líður blautt

  :.:Ég var einu sinni fáviti,
  en í dag er ég búinn að sjá villur vegar míns.
  Í staðinn beiti ég sjálfan mig nýju ofbeldi
  sem mér datt ekki í hug að nota áður :.:

  Mér líður núna
  mér líður áðan
  mér líður bráðum
  mér líður alltaf

  :.:Ég var einu sinni fáviti,
  en í dag er ég búinn að sjá villur vegar míns.
  Í staðinn beiti ég sjálfan mig nýju ofbeldi
  sem mér datt ekki í hug að nota áður :.:

  (allur kórinn)
  Mér líður og líður
  mér líður og líður
  mér líður og líður
  mér líður og líður

  :.:Ég var einu sinni fáviti,
  en í dag er ég búinn að sjá villur vegar míns.
  Í staðinn beiti ég sjálfan mig nýju ofbeldi
  sem mér datt ekki í hug að nota áður :.:

 3. Þetta er úr Night Of The Living Dead. Ég veit ekki hvað það er, en það er eitthvað töfrandi við þetta. Skrítið.

Comments are closed.