Þórkatla snýr aftur

Mikið hefur mér þótt lífið skelfing leiðinlegt síðan Þórkatla yfirgaf mig fyrir rúmlega viku síðan. Ég hef eiginlega bara ekkert gert, nema grátið. Mér leiddist svo ægilega að ég varð mér út um gubbupest, til að hafa ofan af fyrir mér þegar söknuðurinn var næstum eða gera út af við mig.

En undur og stórmerki. Rétt rúmlega fjögur í nótt heyri ég þrusk fram í eldhúsi. Ég hugsa með sjálfum mér, þar sem ég ligg andvaka, að líklega sé þetta feitahlussukisinn sem ég greip glóðvolgan, fyrr í vikunni, étandi mat sem ég hafði til handa Þórkötlu ef ske kynni að hún rataði aftur heim til sorgmæddasta íbúa Óðinsgötunnar..

Ég nenni ekki fram úr og held áfram að reyna að festa svefn, en heyri að þruskið nálgast svefnkompu mína. Forvitni mín eykst, en mér þykir þó vissara að setja mig í stríðsstellingar, ef þetta er skítuga feitahlussukisan og hún gerist svo djörf að stökkva upp í það allra heilagasta.

Áður en ég fæ nokkuð að gert, er næturgesturinn kominn upp í rúm, og er farinn að fikta eitthvað í bréfi utan af beiskum brjóstsykur sem hefur glatt mig, meðan ég ligg fyrir og les. Ég sest upp í rúminu og þegar ég sé að þetta er hún Þórkatla mín, fer hjarta mitt samstundist að dæla hamingju inn í lagnakerfi sálu minnar.

Elsku besta Þórkatla mín, söngla ég ölvaður af júforíu. Hún svarar mér ekki og ég geri mér grein fyrir að ég verð að hafa hraðan á og gefa henni gúmmilaði, áður en að hún yfirgefur mig enn á ný og skilur mig einan eftir í þessum grámyglulega heimi, fullum af þóttafullum moggabloggurum og viðbjóðslegum hnökkum sem sötra sponsoraða drykki.

Ég sprett á fætur, og rýk fram í eldhús. Svo vel vill til að ég á djúpsteiktar rækjur sem ég keypti dýrum dómum af okraranum Herra Nings á Suðurlandsbraut, en hann hefði betur selt mér mat á kostakjörum, þá kannski hefði ekki kveiknað í rassaborunni á honum. Einnig átti ég harðfisk, sem fallega hórkonan hún Frú Sigríður færði mér, þegar gubbulaðið mitt stóð sem hæst. Þetta tvennt hef ég til á disk handa fagrasta ketti allrar veraldar, sem heitir í höfuðið á prýðilegasta tannlækni sem um getur.

[MEDIA=108]

Hér má sjá Þórkötlu fyrr í dag. Hún er vel mett og ef lagt er við hlustir má heyra hana mala um ágæti þess að vera í fæði á Óðinsgötunni. En hvar var hún í rúma viku? Það veit enginn nema Gvuð.

10 thoughts on “Þórkatla snýr aftur”

 1. Var hún ekki bara á lóðaríi. Er það ekki algengasta ástæðan fyrir því að kettir stinga af í einhvern tíma?

 2. Ég er ekki nógu vel að mér í lóðaríi, verð ég að viðurkenna. Ég hélt fyrst að hann hefði flust með fólkinu á efri hæðinni, en svo er ég ekki einu sinni viss um að hann hafi verið kötturinn þeirra. Oh, jæja. Það er gott að fá hann aftur.

 3. …þetta fer að minna mig á hana Skottu Guðrúnu heitna. Hún bjó í heldrimannaraðhúsum og þótti nauðsynlegt að eiga nákvæmlega eins suðurglugga til skiptanna.

  Skotta Guðrún þessi var á tuttugasta og þriðja aldursári þegar henni hlotnaðist sá vafasami heiður að vera elsti líknardrápsþegi Dýraspítala Watsons,fram til þess dags.

 4. Mér reiknast svo til að sé Þórkatla læða eigi einsömul þá megi gera ráð fyrir að hún gjóti í kringum 1. apríl.

  Segðu svo að hún sé ekki húmoristi!

 5. Til hamingju með að fá stóru ástina þína hana Þórkötlu aftur. Reyndu nú að halda í hana. Hvaða pælingar eru þetta um dauðann hjá svona ungum snillingi eiginlega ??
  Þú átt eftir að verða fjörgamall, óþolandi nöldurseggur á Grund eða einhverjum ámóta stað fyrir gamalmenni.
  En hafðu engar áhyggjur, við verðum með þér, hvort sem þér líkar betur eða verr.

  Áfram Grund

 6. Það er hollt að hugsa um dauðann Georg, það kennir manni að njóta augnabliksins.

Comments are closed.