Þjóðfélagsmál

Ég hef verið sneyptur fyrir að skrifa ekki um þjóðfélagsmál nú á ögurtímum. Það kemur mér ekki óvart að til þess sé beinlínis ætlast að ég komi fram með hugmyndir, sem greiða úr vandamálum gúmmílýðveldisins. Staðreyndin er hinsvegar sú að ég er bara ekki jafn gáfaður og flestir þeirra sem hafa eitthvað um málið að segja.

Nei, þarna er ekki um séríslenska minnimáttarkennd að ræða, þó vissulega eigi ég nóg til af henni.

Ég hef lesið urmul af texta sem skrifaður hefur verið um hrunið, og hef dáðst af hvað allir eru allt í einu orðnir miklir snillingar. Það lítur út fyrir að katastrófían virki sem vítamínsprauta á menn, sem áður lifðu einungis fyrir virkni hýpóþalamusins. Nú rísa þeir fílefldir, upp úr rústunum, þrútnir af réttlátri reiði og heimta blóðsúthellingar.

Ég persónulega á í mestu erfiðleikum með að skilja hvað er að gerast. Ég veit ekki hvað er satt í því sem ég les, eða heyri. Þar fyrir utan, finnst mér við hálfpartinn eiga þetta skilið fyrir helvítis hrokann og viðbjóðinn sem mörg okkar hafa á undanförnum árum tileinkað sér. Það er leiðinlegt að við hin, sem héldum í falleg rósum skreytt gildi, getum ekki farið út fyrir landsteinanna án þess að það sé híað á okkur.

Ég vona að mótmælin í dag, fari friðsamlega fram. Guð einn veit, að nóg er hér til af Sturlum, sem eiga sér þá ósk heitasta að fá lumbra bara á einhverjum, svo þeim líði örlítið betur í Jíhadinu sínu.

7 thoughts on “Þjóðfélagsmál”

  1. Það að þú áttir þig á því að þú vitir ekki allt um málið er reyndir mikið gáfumerki. Húrra fyrir þér.

  2. Kosningar nú, miðað þekkta frambjóðendur, eru álíka girnilegar og blint stefnumót á kynsjúkdómadeildinni!

  3. Það að þú áttir þig á því, hversu mikið gáfumerki það er að ég átti mig á því að ég veit ekki neitt, er mikið gáfumerki. Húrra og jibbí!

    Þú Linda mín, ert hinsvegar að gera athugasemd aðra færslu.

  4. …augljós hnignunareinkenni.
    Bráðum finnst ég vafrandi á náttkjólnum í Hljómskálagarðinum …

  5. Allt í lagi, þá verðum við bara með Byltingarstjórn Alþýðunnar þangað til að nýtt fólk kemur í framboð.

    Ég mæli líka með að stjórnarskráin verði endurrituð í millitíðinni.

Comments are closed.