Ég hitti fyrir alveg sérstaklega ástfangið par í dag. Ég var alveg komin að því að hrækja framan í þau. Ég hugsaði þeim hinsvegar bara þegjandi þörfina. Þau halda þó ekki að þetta sé dans og söngur þar til eilífðin svo blessanlega grípur í taumana. Það var þó ekki annað að sjá. Gleðin var yfirþyrmandi og nísti mig inn að beini. Ég veit þó hverskyns er. Ég hef ekki neina trú á ástinni. Ég vildi óska þess að ég þyrfti ekki að leiða hugann að þessu framar, en ég fæ ekki við mig ráðið. Þegar tómleikinn er yfirþyrmandi, þá fer ég að hugsa einhverja svona vitleysu. Ekki skrifa athugasemd í athugasemdakerfið mitt, þar sem þú lýsir því yfir að það sé svo yndislegt að vera ástfanginn og bla, bla, bla. Þú veist það innst inni að það er ekki á rökum reist. Það reyndar er ekkert minna en fjarstæða. Þetta er enginn reiðipistill. Ég vill fá að sjá hlutina fyrir það sem þeir eru. Ég kæri mig engan veginn að tölta í gegnum lífið, verandi dragbítur á einhverjum eða hafandi einhvern sem er letjandi silakeppur í mínu lífi. Hlustið á samræður aðila sem hafa eytt nokkrum árum saman. Hljómar oftar en ekki eins og símtal við þjónustuver OgVodafone, þar sem er verið að kvarta undan þjónustu. Já fyrir alla muni, að finna mér eitthvað eintak sem ég get að einhverju leiti sætt mig við, fá viðkomandi til að skrifa upp á kaupsamning þess efnis að hann verði áfastur mér til enda lífdaga. Andskotans leiðindi. Ég hef ekkert á móti því að eiga vini, þangað til ég gef upp goluna. En að drattast í gegnum lífið með þartilgerðan maka, sem ég byggi alla mína afkomu og hamingju á, hljómar ekki eins og eitthvað sem er mjög ráðlegt að gera. Sumir þó hafa náð þessu og virðast nokkuð sátt í sínu hlutverki. En hver er sannleikurinn í þessu máli? Veistu það fyrir víst. Er hægt að vita það fyrir víst. Því að fólk virðist koma manni nokkuð hressilega á óvart. Ég veit um nokkur sambönd sem hafa virst mér nokkuð arðvænleg, en hvað gerist, pipp pipp barbabrella og konan sem skrifaði undir kaupsamninginn er farinn að leyfa einhverjum mel að skrönglast á sér, öllum gersamlega að óvörum. Er ég svartsýnn? Nei, ég er bara búinn að lifa nógu lengi til að sjá að lífið er fallvalt. Væri ég til í að verða ástfanginn enn á ný. Já, engin spurning.