SiggiSiggiBangBang

Gordon Darling

Oct
11

 

Rétt á meðan ég framdi félagslegt hryðjuverk á sjálfum mér sá ég þessa fyndnu yfirlýsingu í búðarglugga á Skólavörðustíg. Ég greip í vélina mína, sem var handbær, og varðveitti augnablikið.

Eftirfarandi gerðist:

Í dag var ég staddur á Skólavörðustíg eftir langan göngutúr suður með sjó. Ég staðnæmdist til að taka ljósmynd af einkar fyndinni yfirlýsingu sem fest hafði verið upp í búðarglugga. Yfirlýsinguna mátti skilja sem svo að í ljósi lúalegrar framkomu breskra stjórnvalda í garð íslendinga, væru bretar ekki velkomnir sem viðskiptavinir í þessa búð.

Fyrir utan búðina hitti ég mann sem ég er málkunnugur. Hann var með konu sem mér hefur alltaf fundist ægilega sæt. Hún er með tígulegt nef af þeirri sort sem ég hef alltaf verið sérstaklega veikur fyrir. Eftir að hafa spjallað lítillega við þau, fannst mér orðið tímabært að skíta félagslega í brækurnar mínar. Stúlkan, sem ég hef aldrei átt við orðaskipti og er sem fyrr segir ægilega aðlaðandi, spyr mig hvort ég og maður, sem hún nefnir með nafni, – séum ekki vinir. Ég, sem var á þessari stundu orðinn örlítið taugaveiklaður, misskildi ungu stúlkuna hræðilega og hélt að hún væri að spyrja mig út í allt annan mann, en sá maður er í mínum huga viðurstyggilegur viðbjóður.

Hvað gerðist í höfðinu á mér, skil ég ekki, og freistast því til að leita skýringa á þessum hræðilegu mistökum. Það fyrsta sem mér kemur til hugar er að ég hafi ruglast vegna þess að mennirnir tveir eru með sama föðurnafn, en það eitt og sér er ekki nógu góð ástæða. En þar sem annar þeirra ber sama eigin- og föðurnafn ásamt millinafni hins, er mögulega komin skýring á ruglingnum. Við bætist að aðeins ofar á Skólavörðustíg, hafði ég gengið framhjá húsi þessa manns sem ég ber kala til og hugsað eitthvað í líkingu við: Já, þarna býr hann #$&%/&(&(%!#, ég hef ekki kynnst meiri drullusokk.

Eftir að hafa úthúðað manninum við þetta almennilega fólk, kvaddi ég og hélt ásamt góðum vin, sem var með mér í för, á Mokka kaffi. Þar uppgötvaði ég, mér til mikillar skelfingar hvað ég hafði gert. Ég hafði farið ófögrum orðum um mann sem ég elska og virði. Miður mín í andlegu uppnámi settist ég niður með kókóbolla, gróf upp símanúmer og bætti fyrir skelfileg mistökin.

Á morgun ætla ég ekki út fyrir hússins dyr.

Töffari dagsins

Oct
10

Skyndilega, án þess að ég fengi nokkuð við það ráðið, glæddist innra með mér ást og kærleikur til þessa manns. Pollrólegur, alveg ósofinn stendur hann í miðri stórhríðinni og geislar af heilbrigði og elegans. Ég fylltist mér áður ókunnugri þjóðrækni, þar sem ég fylgdist með honum á blaðamannafundinum í dag. Ekki einu sinni, heldur í þrígang lýsti hann því yfir á bæði ensku og hinu ylhýra hversu ósvífinn honum fannst Gordon Brown. Hann hóf hinn enskumælandi fund á þessari yfirlýsingu, en eftir að hafa svarað nokkrum spurningum endurtók hann yfirlýsinguna nánast orðrétt. Það var þá, sem eitthvað gerðist í hjarta mínu sem ég fæ ekki útskýrt. Geir H. Haarde hætti að vera bara Geir H. Haarde, og kallast því hér eftir Geir H. Haarde okkar.

Hjaltalín

Oct
09
[MEDIA=179]

Ég hef heyrt þetta lag spilað nokkrum sinnum á gufunni, en aldrei vitað hverjir eiga það. Á tímabili hélt ég að þetta væri Daniel Johnston, en svo er ekki. Það var svo í vikunni að ég komst að því að þetta er íslenska bandið Hjaltalín. Það gerist ekki oft, en núna er ég að hugsa um að kaupa disk með þeim.

Guð blessi Ísland!

Nýríkir fábjánar

Oct
09

Eftir að íslenska þjóðin hefur umborið nýríka hrokafulla fábjána í lengri tíma sjáum við loks fyrir endann á þessum leiðindum. Útrásarárin einkenndust af mannvonsku og græðgi. Feiti kallinn varð feitari, hrokafyllri, ómanneskjulegri og gráðugri. Ekki taka því persónulega þegar ég rýji þig inn að skinni og naga magurt kjötið af beinum þínum, sagði feiti kallinn, – þetta er bara biss-ness. Og eftir því sem feiti kallinn varð feitari, því meira þurfti hann að éta til að finna fyrir seddu. Nú er svo komið að feiti kallinn er búinn að éta yfir sig.

En þessi góssentíð skilaði sér ekki í lægra matarverði, fágaðri viðskiptaháttum, eða meiri hamingju. Margir, þó ekki allir, vildu taka þátt í veisluhöldunum og fitna eins og feiti kallinn. Í þeim tilgangi eltist margur góður drengurinn við ríkidæmið með kaupum á margra milljón króna farartæki á 100% okurlánum, hundruðum fermetrum af steinsteypu sem skreytt var því dýrasta og flottasta til að ganga í augun og öðlast virðingu feita kallsins. En nú líða þessir andstyggðartímar undir lok. Það er verst hve margir saklausir þurfa að blæða fyrir gilleríið.

Veflókar Comments Off on Nýríkir fábjánar

Stríðstímar

Oct
08

Mér er órótt yfir fréttum síðustu daga. Ég held að ástandið sé mun verra en ráðamenn þjóðarinnar láta í veðri vaka. Það að við höfum ákveðið að standa ekki við skuldbindingar Landsbankans í Bretlandi rennir stoðum undir þann grun minn. Svona gera menn bara á stríðstímum. Það svíkur engin þjóð veldi af þessari stærðargráðu, nema á stríðstímum. Og eiginlega ekki, því á stríðstímum snúa bandalagsþjóðir bökum saman.

Það biður enginn ráðamaður neinnar þjóðar Guð um að blessa hana nema að hún sé í lífshættu. Það má taka alvöruna í torskildu ávarpi forsætisráðherra og margfalda hana með að minnst 10, enda honum uppálagt að kosta til öllu til að skríllinn missi sig ekki, þó hann þurfi að ljúga eða draga úr alvarleikanum.

Nú er ég svo barnalegur þegar ég hugsa um þessi mál, en ég furða mig á hvers vegna enginn fjölmiðlamaður spyrji þá sem vita, ef þeir þá vita það, hvað við skuldum nákvæmlega og hvað við eigum.

Ráðamenn og þeir sem búa yfir einhverri alvöru vitneskju kappkosta að vera eins obskjúr og þeir mögulega geta. Er mögulegt að þessar hamfarir séu óviðráðanlegar og ekki hægt að tryggja neinum eitt né neitt.

Tvífarar dagsins

Oct
06

Stuðboltinn og gífuryrðingurinn Guðni Ágústsson og örninn Sam.

Sag mir, wo die blumen sind

Oct
04
[MEDIA=180]

Ég er miður mín yfir að hafa dottið í þann fúla pytt að skrifa um efnahagsmál. Ég vil ryðja færslunni hér að neðan úr vegi með hjálp Marlene Dietrich, þar sem hún syngur: Sag mir, wo die blumen sind, en margir spyrja sig einmitt þessa daganna hvað hafi orðið af öllum fallegu blómunum, sem gerðu okkur kleift að kaupa meira drasl sem við höfum engin not fyrir.

Ástandið er þó ekki alslæmt fyrir manngerðir af mínu sauðahúsi. Í góðærinu hef ég verið þjakaður af hræðilegri minnimáttarkennd yfir að eiga ekki fullt af drasli. Ég hef vart þorað að láta sjá mig á 11 ára gömlum bíl mínum af Opel gerð. Enda veit ég að bíltegundin endurspeglar hvernig manni hefur vegnað í lífinu. 1997 tegund af Opel, er ekki góð fyrir ímyndina. Það er sárgrætilegt að mæta margra milljón króna Range Rover, þegar maður sjálfur keyrir druslu. Skiptir þá einu hvort hún sé að fullu greidd. Hverjum er ekki sama um það, þegar hægt er að taka myntkörfulán.

Myntkarfa…. Hljómar eins karfa sem gaman væri að taka með sér í lautarferð.

Það er því góð tíð hjá mér og öðrum kommúnistum, sem ekki hafa tekið þátt í sukkinu. Við fyllumst ljóðrænni réttlætistilfinningu. Við trúum að hinir mögru komist af. Að maðurinn þurfi ekki allt þetta djöfulsins drasl. Að hverfa til upprunans, sé mannkyninu hollt og gott.

Það er þó illa fyrir manni komið þegar eina gleðin sem maður upplifir er þórðargleði. Ég get þó huggað mig við að enginn les færslu sem ber þýskan titil.

Í þyrlu með Agli

Oct
01

Í gær þegar ég lagðist í rekkju var ég í mikilli geðshræringu yfir skelfilegum atburðum í íslensku efnahagslífi. Þegar ég svo vaknaði í morgun var friður í sálinni minni. Í hjarta mínu var kærleikur, ást og fullvissa um að nýir og fallegir tímar væru framundan.

Mig dreymdi eftirfarandi:
Ég var staddur í lúxusþyrlu með Agli Helgasyni. Hann flaug þyrlunni, sem mér skildist að væri í hans einkaeign. Hann brosti góðlátlega til mín. Hann var öllu grennri en hann er í raunveruleikanum. Vel til hafður með dökkgrænan flughjálm. Hann bauð af sér góðan þokka og nærvera hans var þægilega seiðandi. Hvert við vorum að fara, veit ég ekki, en meðan á fluginu stóð útskýrði hann föðurlega fyrir mér hrun kapitalismans. Hann sagði mér að ótti minn væri ástæðulaus. Að tími breytinga yrði að vísu ekki sársaukalaus og margur maðurinn kæmi til með að streitast á móti hinu óumflýjanlega. En að baráttunni lokinni yrði heimurinn annar. Fallegri. Kærleiksríkari. Heimur þar sem einstaklingurinn skipti einhverju máli, þar sem manneskja er ekki bara nafn skuldara á innheimtulista bankanna. Heimur frír af efnishyggju, græðgi og egóisma. Ég tók eftir að landið sem við flugum yfir var sérstaklega grænt og gróðursælt.

Að doppelganger Egils Helgasonar skuli birtast mér í draumi til að færa okkur mannfólkinu fagnaðarerindið er eitthvað sem ég hygg að beri að taka mjög alvarlega.