SiggiSiggiBangBang

Dauðleiki og draumfarir

Dec
07

Nú þegar nær dregur jólum er við hæfi að skrifa lítinn pistil um eftirlætis hugðarefni síðuhaldara, sjálfan dauðann. Ég hef ekki verið þekktur fyrir tepruskap í umræðu minni um þennan mesta leyndardóm í lífi sérhverrar manneskju. Ég reyni að minna sjálfan mig á dag hvern að einhvern tímann fái ég að deyja. En svo koma tímabil, sem ég gleymi því að ég er bara maskína sem getur hætt að starfa hvenær sem er. Á slíkum tímabilum verða ýmis smámál að stórum og erfiðum málaflokkum. Smámál eins og hver á að fara út með ruslið og aðrir vankantar af svipaðri stærðargráðu. Bölvaður tittlingaskítur.

Fólk er feimið að horfast í augu við að einhvern tímann muni það deyja. Það eyðir megninu af sínu lífi í vonlausri hringavitleysu sem gengur út á að afla sér virðingu annarra sem eiga líka eftir að deyja. Á dánarbeðinu, líður deyjandanum að vonum vel í Jíhadinu sínu, viss um að hann hafi verið virtur í lifanda lífi. “Já, fólk tók sko mark á mér!” gæti ég tildæmis sagt rétt áður en ég kafnaði á eplamauki sem einhver ung starfsstúlka á ellideildinni, hefur troðið rustalega upp í mig með skeið, svo ég geti nærst og lifað því aðeins lengur. Vertu sæl góða mín, takk fyrir eplamaukið. Ég er farinn yfir í annan heim, með alla mína andskotans virðingu.

Ég elska fátt meira en að leggja mig um miðjan dag. Ég get leyft mér stundum að fara heim upp úr kaffi, og þá iðullega fæ ég mér smá lúr. Um daginn var sál mín orðin full af sorg yfir mannanna prjáli. Ég kom heim í leiðindarskapi, argur og gramur yfir þjóðfélagsástandinu. Mikið andskoti getur mannskepnan verið ómerkileg! Djöfullegt er þetta! og fleira í þeim dúr. Það var kalt í veðri, þannig að ég stillti hitateppið í rúminu mínu á tvö hitastig, breiddi yfir mig og hnipraði mig saman í fósturstellingu. Ekki leið á löngu, þar til ég heyrði sjálfan mig byrja að hrjóta. Ég kann ekki að útlista fræðilega hvað gerist þegar manneskja sofnar. Ég veit þó að það er talið í þremur stigum. Stundum fjórum, eftir því hvaða fræði er stuðst við. Fólk flakkar yfirleitt milli fyrsta og annars stigs, en fer stundum yfir á það þriðja og er það hinn títtnefndi REM svefn. Ég ímynda mér að ég hafi verið staddur í þeim einkennilega raunveruleika sem fyrirfinnst á milli fyrsta og annars stigs, þegar eitthvað gerðist, sem hafði þó nokkur áhrif á mig. Hjartað mitt fór að hamast og um mig læstist skelfilegur ótti. Ég heyrði þunga dynki þar sem hjartað barðist í brjósti mér. Ég upplifði að ég væri viðkvæm maskína sem gæti bilað fyrirvaralaust. Ég varð meðvitaður um eigin dauðleika og hversu brothætt lífið er. En aðeins um stund.

Í dag var ég að býsnast yfir hebreskum skógarketti sem mér finnst ekki sýna mér þá virðingu sem ég á skilið. Ef hann aðeins skildi tilfinningalíf mannsins.

Jólamynd 1984

Dec
07
[MEDIA=191]

Ég kemst alltaf í reglulega gott jólaskap þegar ég heyri þetta lag. Ég veit ekki nákvæmlega afhverju, en ég elska hvernig þeir, sem útsettu lagið, nota fade-in í byrjun. Það er eitthvað svo töfrandi við það. Enn þann daginn í dag fæ ég gæsahúð og fyllist barnslegri fortíðarþrá. Ég var 14 ára árið 1984. Ungt og óflekkað barn guðs. Myndbandið er þó óttalega hallærislegt og söngvarinn skelfilegt tískuslys, eins og flestir voru á þessum tíma, þar á meðal undirritaður.

Snjallasta myndlíkingin til þessa

Dec
05

Nú er hafið nýtt kapphlaup í íslensku þjóðfélagi, kapphlaup um hver getur upphugsað ljóðrænustu myndlíkinguna um hvernig er fyrir landinu okkar komið. Fínustu og flottustu lýriksmiðir íslenska gúmmílýðveldisins vinna nótt sem nýtan dag við smíðar á beittustu og snjöllustu greiningunni. Allt í þágu pöpulsins, nema hvað.

Hver var svo óforskammaður að segja að fólk er fífl. Það er bara alls ekki rétt. Í kjölfar efnahagshrunsins er allir allt í einu orðnir framúrskarandi snillingar. Í nótt sef ég vært vitandi að einhvers staðar í Reykjavíkurborg lygnir einhver orðaglamrarinn aftur augunum og uppgötvar snjöllustu myndlíkinguna til þessa. Myndlíkingin sem bjargar Íslandi. Opinmynntur gefur hann frá sér sælustunu meðan hann smyr rækjusalati á nakinn líkama sinn, og eftir að hafa farið í sleik við spegilinn, stekkur hann fram á gólfið og dansar sjálfsánægjudansinn undir diskókúlu eigin hégóma.

Afhverju rækjusalat? kann einhver að spyrja sig.

Fullorðinsleikur

Dec
02

Ekki má rugla saman fullorðinsleik við fullorðinssleik; þar er himinn og haf á milli. Á sunnudaginn síðasta fór ég afmæli til dóttur minnar. Hún er orðin 11 ára gömul og er hin hressasta. Ekki hafði ég setið þarna lengi þegar ég datt ofan í fúlan pytt fullorðinsleikja. Fullorðinsleikur í barnaafmælum fer þannig fram að fólk setur á disk brúntertu og ostarétt, hrærir saman og ræðir ábúðarfullt fullorðinsmál, meðan gúmmilaðinu er skóflað í sig. Krakkarnir hópast saman í einhverju herbergi, og leika sér.

Nú vill svo til að fullorðinsleikir hafa, sökum óskemmtilegra atvika í þjóðlífinu, bætt töluvert á sig af leiðindarstigum. Ef einhverjum dettur eitthvað snjallt í hug, eitthvað líkingarmál eða lýrík, þá skulu allir þurfa að nota spekina til að hljóma gáfulega í leiknum. Gott dæmi um þetta er: “Mér var ekki boðið í partíiið!” eða “Sláum skjaldborg um Ísland/Alþingishúsið/geðheilsuna/whatever!” Það má heyra í mæli fólks, hvaða vefsíður það hefur verið að lesa um hrun gúmmílýðveldisins. Ég heyrði sjálfan mig vitna í Illuga Jökuls(sem mér finnst reyndar alveg prýðilegur), án þess þó að taka fram hver ætti líkinguna: “Á að láta morðingjann, stýra morðrannsókninni?” og um leið og ég endaði setninguna fannst mér ég ömurlegur. Innan í hausnum á mér hljómaði rödd, sem sjaldan þagnar: “Mikið ægilega ertu ófrumlegur!”

Fjórum kúfuðum diskum síðar, eftir að efnahagsmálin höfðu verið rætt í þaula, barst talið að einu og öðru í mannlífinu, þar á meðal að rónum. Mér varð það á að segja að rónar væru betur geymdir á stofnunum. Enn og aftur þyrmdi yfir mig: “Ohhhhh, god, afhverju þurftir þú að segja þetta?” Og það er einkennilegt sérstaklega í ljósi þess að ég hef enga þörf fyrir að gaspra svona. Einhverjum fannst svo ægilega huggulegt að sjá rónana á götum borgarinnar. Ég verð þó að viðurkenna að mér finnst ekkert rómó við róna. Ég hef þó enga þörf fyrir þröngva mínum skoðunum upp á fólk með rustalegu kjaftablaðri. Í næsta barnaafmæli sit ég við krakkaborðið, borða súkkulaðikökur og segi kúkabrandara.