Dauðleiki og draumfarir
Nú þegar nær dregur jólum er við hæfi að skrifa lítinn pistil um eftirlætis hugðarefni síðuhaldara, sjálfan dauðann. Ég hef ekki verið þekktur fyrir tepruskap í umræðu minni um þennan mesta leyndardóm í lífi sérhverrar manneskju. Ég reyni að minna sjálfan mig á dag hvern að einhvern tímann fái ég að deyja. En svo koma tímabil, sem ég gleymi því að ég er bara maskína sem getur hætt að starfa hvenær sem er. Á slíkum tímabilum verða ýmis smámál að stórum og erfiðum málaflokkum. Smámál eins og hver á að fara út með ruslið og aðrir vankantar af svipaðri stærðargráðu. Bölvaður tittlingaskítur.
Fólk er feimið að horfast í augu við að einhvern tímann muni það deyja. Það eyðir megninu af sínu lífi í vonlausri hringavitleysu sem gengur út á að afla sér virðingu annarra sem eiga líka eftir að deyja. Á dánarbeðinu, líður deyjandanum að vonum vel í Jíhadinu sínu, viss um að hann hafi verið virtur í lifanda lífi. “Já, fólk tók sko mark á mér!” gæti ég tildæmis sagt rétt áður en ég kafnaði á eplamauki sem einhver ung starfsstúlka á ellideildinni, hefur troðið rustalega upp í mig með skeið, svo ég geti nærst og lifað því aðeins lengur. Vertu sæl góða mín, takk fyrir eplamaukið. Ég er farinn yfir í annan heim, með alla mína andskotans virðingu.
Ég elska fátt meira en að leggja mig um miðjan dag. Ég get leyft mér stundum að fara heim upp úr kaffi, og þá iðullega fæ ég mér smá lúr. Um daginn var sál mín orðin full af sorg yfir mannanna prjáli. Ég kom heim í leiðindarskapi, argur og gramur yfir þjóðfélagsástandinu. Mikið andskoti getur mannskepnan verið ómerkileg! Djöfullegt er þetta! og fleira í þeim dúr. Það var kalt í veðri, þannig að ég stillti hitateppið í rúminu mínu á tvö hitastig, breiddi yfir mig og hnipraði mig saman í fósturstellingu. Ekki leið á löngu, þar til ég heyrði sjálfan mig byrja að hrjóta. Ég kann ekki að útlista fræðilega hvað gerist þegar manneskja sofnar. Ég veit þó að það er talið í þremur stigum. Stundum fjórum, eftir því hvaða fræði er stuðst við. Fólk flakkar yfirleitt milli fyrsta og annars stigs, en fer stundum yfir á það þriðja og er það hinn títtnefndi REM svefn. Ég ímynda mér að ég hafi verið staddur í þeim einkennilega raunveruleika sem fyrirfinnst á milli fyrsta og annars stigs, þegar eitthvað gerðist, sem hafði þó nokkur áhrif á mig. Hjartað mitt fór að hamast og um mig læstist skelfilegur ótti. Ég heyrði þunga dynki þar sem hjartað barðist í brjósti mér. Ég upplifði að ég væri viðkvæm maskína sem gæti bilað fyrirvaralaust. Ég varð meðvitaður um eigin dauðleika og hversu brothætt lífið er. En aðeins um stund.
Í dag var ég að býsnast yfir hebreskum skógarketti sem mér finnst ekki sýna mér þá virðingu sem ég á skilið. Ef hann aðeins skildi tilfinningalíf mannsins.