SiggiSiggiBangBang

Skallameðal

Sep
23

Nýjasta nýtt í vísindunum er byltingarkennt meðal sem læknar einn þann ógeðslegasta kvilla sem þjakað getur karlmann: Alopecia – en það er stigvaxandi hárlos sem veldur með tíð og tíma skalla sem dregur viðkomandi félagslega til dauða. Sem er gott! Því enginn vill hafa neitt saman við mann með skalla að sælda. Þeir eru ógeðslegir og svo þjakaðir af minnimáttarkennd að það er ekki verandi í félagi við þá.

Ég var rétt rúmlega 23 ára þegar ég var orðinn það þunnhærður að ég ákvað eftir bollaleggingar við þáverandi vini(ég veit ekkert hvað varð um þetta fólk) að raka á mér hausinn. Þetta hefur verið um 1993 og þá var enginn alveg sköllóttur nema Bubbi Morthens og Terry Savalas. (Jú, kemur heim og saman – Terry Savalas lék með hinum brosgleiða Ernest Borgnine í áður nefndri mynd: The Dirty Dozen, eða Tylft af drulluháleistum eins og hún heitir á íslensku.) Á sama tíma missti ég u.þ.b 20 kíló, þannig að sögusagnir um eyðni og krabbamein voru óumflýjanlegar.

Karlmenn sem hingað til hafa verið svo ólukkulegir að fá skalla langt fyrir aldur fram þurfa ekki lengur að gráta í koddann sinn og loka sig af frá umheiminum því þetta hræðilega vandamál hefur verið leyst af færustu vísindamönnum heimsins. Og ekki nóg með það. Menn eins og ég sem komnir eru á gamalsaldur geta nú loksins farið að láta sjá sig á mannamótum. Því þetta meðal virkar ekki eingöngu á menn á byrjunarstigi, heldur líka á þá sem eru fyrir lifandi löngu orðnir sköllóttir. Þess verður því ekki langt að bíða þar til skallagripir sem til þessa hafa einvörðungu sést læðast meðfram veggjum sköllóttir og ógeðslegir, sjáist nú sprangandi hnakkakertir og borubrattir um göturnar, með kellingar upp á arminn, sveipaðir þykku fallegu hári sem nær langt niður á rass.

Svo deyjum við.

Paul Simon, öldrun og dauði

Sep
16

Það snerti fíngerða strengi í mínu kórazóni að sjá myndband af Paul Simon flytja Sounds of Silence í New York 11. september síðastliðinn. Ekki þó vegna þess að athöfnin væri svo tilfinningarþungin og lagið svo fallegt, heldur vegna þess að Paul Simon sem eitt sinn var svo huggulegur og aðlaðandi er orðinn gamall og hrumur hálfútbrunninn kall. Hann hljómar líka eins og hann lítur út. Að eldast er andskotans tík. Ég sé öldrun hvert sem ég lít. Ég man ekki eftir að hafa verið svona upptekinn af öldrun þegar ég var á þrítugsaldri. En nú þegar ég sjálfur er orðinn rúmlega fertugur og síðustu 10 ár hafa liðið svo ægilega hratt – hugsa ég varla um annað en hrörnun og dauða.

Ég hef aldrei þótt sérstaklega myndarlegur, eða í það góðu formi að stúlkur eltust við mig til að nota mig til kynlífsiðkana. Ég er því ekkert sérstaklega viðkvæmur fyrir því að eldast og verða ljótari. En mér er umhugað um heilsuna mína. Ég geri ráð fyrir að kaldhæðni lífssins sjái til þess að ég þurfi að ganga þess jörð miklu lengur en ég kæri mig um. Ég ætla því reyna að eldast vel og minnka líkurnar á því að ég eigi eftir að veikjast þegar ég eldist.

Samkvæmt almennu áliti fólks þykir eðlilegt að veikjast samhliða því að eldast. En ég er ekki svo viss. Eftir að hafa kynnt mér málið rækilega sýnist mér ég ekki þurfa að veikjast og þjást frekar en ég vil. Með því að temja mér heilbrigðan lífsstíl trúi ég að ég geti spornað við hrörnun og lifað ævintýralífi þar til ég drukkna í sjóslysi eða hrapa fram af kletti. Ég hleyp daglega, borða hollan mat og reyni eftir fremsta megni að hugsa fallegar hugsanir. Það vona ég að verði til þess að ég þurfi ekki í ellinni aðstoð við að hafa hægðir. Ef fólk aðeins vissi hversu mikill munaður það er.

Veflókar Comments Off on Paul Simon, öldrun og dauði

La muerte

Sep
08

Nú er ég búinn að eiga heima á Spáni síðan í október á síðasta ári. Ég bý í litlu krúttlegu þorpi þar sem meðalaldurinn er 80 ár. Hér keppist fólk við að deyja. Þegar einhver deyr, er þartilgerðum bíl með gjallarhorni á þakinu keyrt um þröngar götur þorpsins og andlátið tilkynnt. Tilkynningin er eitthvað á þessa leið: “Senjór Gómez er dauður, hann var svo og svo gamall og bjó við þessa götu númer þetta og verður jarðaður í eftirmiðdaginn. Svona er lífið. Bla bla bla. Adios.” Svo gefur bílstjórinn á dánartilkynningarbílnum í og spólar yfir í næstu götu þar sem andlátið er endurtekið. Það eru nokkrir karlar hérna í götunni sem sitja fyrir framan hýbýli sín og bíða þess að heyra sína eigin dánartilkynningu. Konurnar hafa engan tíma í þessháttar hangs, þær eru of uppteknar af því að halda ÖLLU gangandi. Þær hníga oftast niður í miðri matseld eða á leiðinni frá markaðnum klyfjaðar innkaupapokum. Þær eru svakalegar! Ég held annars að sé prýðilegt að deyja á Spáni.

Veflókar Comments Off on La muerte

Leirmunir unnir úr dauðum mönnum

Sep
05

Alltaf er maðurinn að búa til bissness. Nú er hægt að fá leirmuni unna úr jarðneskum leifum látinna ættingja. Langflestir vilja eðlilega láta búa til úr sér styttu af Maríu mey eða Jesúm Krist. Eitthvað hátíðlegt. Það get ég skilið. Ég sjálfur vil að úr mér verði steyptur engill með hendurnar greiptar upp til himins. Ég hef líka verið svo ægilega mikill engill í lifanda lífi – því er englastytta vel við hæfi. En það er langt þangað til. Ég á eftir að vera hér miklu lengur en ég kæri mig um. Ég hef hinsvegar samið við aldraðan föður minn að fá að leira úr honum kaffikrús. Þá get ég minnst hans í hvert skipti sem ég fæ mér kaffi. Ég heyrði ekki betur en hann tæki ljómandi vel í hugmyndina.

Ernest Borgnine

Sep
03

Í dag varð mér hugsað til Ernest Borgnine, en hann er einn af afkastameiri leikurum kvikmyndasögunnar. Ég var að semja í hausnum á mér samtal á milli mín og hans ef leiðir okkar lægju saman. “Þú ert Ernest Borgnine!” segði ég sisona við hann, eins og ég væri fyrstur til að færa honum fréttirnar. Hann myndi að sjálfsögðu brosa sínu allra breiðasta og játa það. Þeir sem til þekkja vita að enginn getur brosað breiðar en Ernest Borgnine, hann er brosmildasti maður allra tíma. “Þú lékst í Dirty Dozen með Lee Marvin!” segði ég. Dirty Dozen er eina myndin sem ég man eftir Ernest Borgnine í, þrátt fyrir að maðurinn hafi leikið í u.þ.b 200 kvikmyndum. “Segðu mér, er ekki Borgnine norðlenskt nafn?” Og þrátt fyrir að spurningar mínar væru kjánalegar er ég viss um að herra Borgnine tæki mér vel. Hann virðist vera súper fínn náungi.

Veflókar Comments Off on Ernest Borgnine